Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur á 278. fundi sveitarstjórnar þann 30. apríl s.l.
Umfang vinnu vegna COVID-19 er enn töluvert og mikið af fundum því tengt. Viðbragðsteymi Þingeyjarsveitar fundar reglulega og nú síðast til þess að fara yfir tilslakanir samkomubanns 4. maí n.k. Ýmis þjónusta á vegum sveitarfélagsins mun þá falla aftur í fyrra horf en áfram verða takmarkanir. Fjöldamörk munu miðast við 50 einstaklinga í stað 20 áður og regla um tveggja metra fjarlægð haldast óbreyttar.
Takmörkunum á skólastarfi verður aflétt og hefðbundið skólastarf mun hefjast í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins frá og með mánudeginum 4 maí.
Bókasöfn sveitarfélagsins munu opna á ný.
Skrifstofa sveitarfélagsins opnar á ný og starfsemin verður hefðbundin.
Félagsstarf eldri borgara, Opið hús, mun hins vegar ekki hefjast aftur fyrr en í haust.
Áfram verður boðið uppá heimkeyrslu á vörum í samstarfi við Dalakofann út maí fyrir þá einstaklinga sem sannarlega tilheyra viðkvæmum hópum og geta ekki nálgast þær sjálfir.
Íþróttamiðstöðin á Laugum, líkamsræktarsalur og sundlaug, verður áfram lokuð.
Reglulegir upplýsingafundir eru haldnir með aðgerðarstjórn á svæði lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þar sem farið er yfir stöðu mála. Á síðasta stöðufundi sem haldinn var 29. apríl var greint frá því að á Norðurlandi eystra er nú enginn í einangrun og 29 eru í sóttkví. Tekin eru sýni daglega en ekki hafa greinst smit í umdæminu í 26 daga.
Mikið er um aðra stöðufundi með hinum ýmsu aðilum vegna COVID-19, nú síðast með Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE), Markaðsstofu Norðurlands, Byggðastofnun, Framsýn stéttarfélagi, Samtökum atvinnurekenda á Norðausturlandi (SANA), Sparisjóði Suður-Þingeyinga o.fl. Þá er sameiginlegur fundur bæjar- og sveitarstjóra með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga á dagskrá næsta mánudag. Einnig hefur verið boðað til samráðs- og upplýsingafundar í næstu viku með Mývatnsstofu og ferðaþjónustuaðilum í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi ásamt fulltrúum sveitarfélaganna.
Ákveðið var á fundi samstarfsnefndar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um sameiningu að breyta tímaáætlun Þingeyings vegna COVID-19 og færa vinnu starfshópa fram í ágúst og íbúafundi fram til haustsins. Áfram verður gert ráð fyrir að sveitarstjórnir fái álit samstarfsnefndar til afgreiðslu í desember og kosningar um sameiningu fari fram í mars 2021.
Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing og Langanesbyggð sendu frá sér sameiginleg bréf á dögunum til Landsnets, Landsvirkjunar og Landgræðslunnar þar sem vakin er athygli á því atvinnuleysi sem við blasir og þá sérstaklega hjá ungu fólki. Fyrirspurnin var hvort fyrrgreind fyrirtæki gætu lagt lóð á vogarskálar með því að bjóða ungu fólki sértæk störf í sumar á okkar svæði, hvort ekki væru tækifæri og verkefni á þeirra vegum sem hægt væri að koma á strax í sumar og minnka þannig atvinnuleysi og afkomubrest ungs fólks.
Afgreiðslu ársreiknings sveitarfélagsins seinkar, fyrri umræða er áætluð 28. maí og seinni umræða og afgreiðsla 11. júní en upphaflega var áætlað að afgreiða reikninginn 14. maí.
Nýr starfsmaður, Björn Guðmundsson verkefnastjóri hóf störf hjá sveitarfélaginu 1. apríl s.l. Björn mun hafa umsjón með ýmsum verkefnum og framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins. Framundan er bygging leiguíbúða, gatnagerð, endurnýjun salernisaðstöðu og ýmsar viðhaldsframkvæmdir.
Nýr slökkvibíll Brunavarna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er væntanlegur í næstu viku. Um er að ræða sérútbúinn Iveco slökkvibíl fyrir Vaðlaheiðargöng, sem nýtist einnig í annarri starfsemi slökkviliðsins. Slökkvibúnaður er One-Seven 1300 froðukerfi og 850 lítra vatnstankur, slökkvimáttur úr slíku froðukerfi er til jafns við um 6.000 lítra af vatni. Einnig er björgunarbúnaður, klippur, glennur o.fl. í bifreiðinni.
Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.