Formáli/forsaga
Sorphirðukerfi það sem sveitarfélagið hefur starfrækt um langt árabil er barn síns tíma og þannig úr garði gert að ómögulegt var að flokka úrgang með skilvirkum hætti auk þess sem rekstraraðilar og óskildir aðilar nýttu ílátin til að losa sig við úrgang án þess að sveitarfélagið hefði möguleika á að innheimta gjald fyrir sem stæði undir kostnaði. Kostnaður sveitarfélagsins var því orðinn langtum hærri en innheimtist fyrir í formi álagðra sorphirðugjalda til fasteigneigenda í sveitarfélaginu.
Nýtt kerfi
Til að bregðast við kostnaðarsömu kerfi og til að uppfylla nútímakröfur ásamt óskum íbúa um aukna flokkun, var gerður þróunarsamningur við Gámaþjónustu Norðurlands sem þjónustuaðila. Markmið þess samnings er að þróa hagkvæma og skilvirka lausn .
Sveitarfélagið er mjög víðfeðmt og dreifbýlt og er kostnaður við söfnun mun meiri en víðast hvar sökum þess. Að auki er ástíðabundinn ferðamannastraumur mikill sem leiðir af sér mikið magn úrgangs. Nýtt kerfi miðar að því að þeir sem tekjur hafa af ferðaþjónustu og öðrum rekstri beri kostnað af þeirri starfsemi en ekki íbúar allir. Þess vegna er rekstraraðilum ýtt út úr sorphirðu á vegum sveitafélagsins og gert að sjá um sín mál sjálfir og bera þann kostnað sem af hlýst.
Heimili
Íbúar kaupa sér 3 tunnur og njóta góðra kjara í gegnum magninnkaup sveitarfélagsins. Eina tunnu undir almennt sorp sem er urðað, aðra undir plastumbúðir og umbúðir úr málmi og þá þriðju undir pappír og pappaumbúðir. Plast- og pappírs- og pappaefnisflokkarnir fara til endurvinnslu. Kostnað af þessu greiðir sveitarfélagið þjónustuaðila en innheimtir á móti sorphirðugjald sem fasteignaeigendur greiða með fasteignagjöldum og á að standa undir kostnaði. Að auki rekur sveitarfélagið gámastæði þar sem íbúar geta losað sig við hverskyns úrgang gjaldfrjálst að hluta, en gegn gjaldi á þann hluta úrgangs sem ekki skoðast sem hefðbundinn heimilisúrgangur eða umbúðir. Úrgangur sem fellur til við framkvæmdir eða endurnýjun á heimilum er ekki skilgreindur sem heimilisúrgangur og sorphirðugjöld sveitarfélagsins innifela ekki kostnað við förgun á slíku. Íbúum ber að hafa í huga að greiða þarf fyrir slíkan úrgang sérstaklega, en hægt er að halda kostnaði í lágmarki með því að flokka úrganginn vel í þar til sérmerkta gáma á gámastæði.
Sumarhús
Sumarhús eru fjölmörg í sveitarfélaginu, bæði á skipulögðum svæðum og þá mörg saman en einnig óskipulögðum svæðum í landi lögbýla. Sumarhúsaeigendur greiða hluta sorphirðugjalds sem stendur straum af kostnaði við förgun en ekki söfnun frá hverjum og einum bústað eins og við lögheimili enda ógerningur með tilliti til aðgengis stórra og þungra bíla á þröngum og burðarlitlum vegum og slóðum. Sveitfélagið leggur sumarhúsaeigendum ekki til ílát frekar en íbúum sem kaupa sín ílát sjálfir.
Kerfið gerir ráð fyrir að sumarhúsaeigendur noti gámasvæði sveitarfélagsins og losni þar við heimilisúrgang og umbúðir. Sorphirðugjaldið dekkar þann kostnað.
Annar kostur er að leigja ílát eða kaupa og semja við þjónustuaðila um losun. Slík ílát þurfa að vera við vegi sem færir eru stórum bílum allt árið. Sveitafélagið greiðir þá fyrir förgun en sumarhúsaeigendur fyrir losun og leigu/kaup á ílátum. Til hagræðis mætti hugsa sér að þjónustuaðili legði til læst ílát og staðsetti í samráði við sumarhúsaeigendur og seldi þeim aðgang með afhendingu lykils. Gjald lykils endurspeglaði þá leigu og losunartíðni íláta og deildist niður á fjölda notenda.
Rekstraraðilar
Sveitarfélagið innheimtir engin sorpgjöld af rekstraraðilum. Þeir aðilar þurfa sjálfir að leysa sín mál. Þjónustuaðili sveitarfélagsins býður uppá allskyns lausnir sem miða að þörfum hvers og eins. Rekstraraðilar njóta þeirra samlegðaráhrifa sem mögulega nást ef tekst að miða lausnir sem falla að kerfi sorphirðu á vegum sveitarfélagsins. Til dæmis geta ferðaþjónustuaðilar fjölgað hjá sér ílátum á annatímum með samkomulagi við þjónustuaðila og greitt fyrir það hóflegt gjald.
Lokaorð
Þetta kerfi er ekki fullmótað enda um þróunarverkefni á milli hlutaðeigandi að ræða. Í þessari vegferð er að mörgu að hyggja og ýmiss sjónarmið á lofti sem taka þarf tillit til. Markmiðið er að veita íbúum og gestum öllum góða þjónustu sem samræmist lögbundnum skildum sveitarfélagsins. Góð úrræði séu til staðar. Kostnaður falli á þá sem til hans stofna og gjaldtaka endurspegli kostnað við þjónustustig og umfang.