Sviðsmyndir og áætlanir - 278. fundur sveitarstjórnar

Á fundi sveitarstjórnar í dag voru umræður um áætlanir vegna COVID-19 sem hefur verið fastur liður á dagskrá undanfarið.

Óvæntar utanaðkomandi aðstæður vegna áhrifa heimsfaraldursins fela í sér ýmiskonar óvissu og áskoranir í rekstri sveitarfélaga. Á fundinum fóru sveitarstjóri og skrifstofustjóri yfir næmnigreiningu á rekstri sveitarfélagsins og lögðu fram ákveðnar sviðsmyndir um möguleg áhrif forsendubreytinga á gildandi fjárhagsáætlun 2020.

Gert er ráð fyrir að einhver lækkun verði á útsvarstekjum sveitarfélagsins og að óbreyttu einnig á framlögum úr Jöfnunarsjóði, þó veruleg óvissa ríki um þróun þessara tekjustofna. Fasteignaskattur lækkar hins vegar ekki, enda þarf lagabreytingu til að heimilt sé að breyta álagningu hans eftirá. Eftirfarandi þrjár sviðsmyndir voru lagðar fram:

Tilvik 1: Samdráttur útsvars og fleiri tekjustofna um 2% sem þýðir 18 millj.kr.

Tilvik 2: Samdráttur útsvars og fleiri tekjustofna um 5% sem þýðir 41 millj.kr.

Tilvik 3: Samdráttur útsvars og fleiri tekjustofna um 8% sem þýðir 65 millj.kr.

Ofangreindar sviðsmyndir sýna neikvæða rekstrarniðurstöðu sem kallar á aukna lántöku á árinu frá 40 til 80 millj.kr. Um er að ræða grófa mynd um hugsanlegar breytingar á rekstrarafkomu og sjóðstreymi sveitarfélagsins en ekki fullbúna áætlun. Áfram verður unnið með sviðsmyndirnar og staðan metin hverju sinni.

Lagðar voru fram tölur um þróun atvinnuleysis á Norðurlandi eystra frá Vinnumálastofnun. Í Þingeyjarsveit var atvinnuleysi 7,1% í mars en áætlanir gera ráð fyrir 13,6% í apríl og 11,1% í maí.

Umræða var tekin um sumarstörf ungmenna og skólafólks sem hafa unnið við ferðaþjónustu yfir sumartímann en ljóst er að mun minna framboð verður á störfum í þeim geira á komandi sumri.

Eftirfarandi var bókað og samþykkt á fundinum:

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að hefja undirbúningsvinnu um vinnuúræði fyrir ungt fólk og að vinnuskóli sveitarfélagsins verði starfræktur fyrir ungmenni á aldrinum 14-17 ára í júní, júlí og ágúst á komandi sumri. Tillögur verði lagðar fyrir næsta fund sveitarstjórnar til afgreiðslu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fara í sérstakt átaksverkefni með Mývatnsstofu um markaðssetningu svæðisins vegna ferðalaga innanlands.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða aukið fjármagn til Nýsköpunar í Norðri vegna verkefna sem skapa störf strax í sumar. Undirbúningsvinna og útfærsla stendur yfir og tillögur verði lagðar fyrir næsta fund sveitarstjórnar til afgreiðslu.

Áður hefur sveitarstjórn samþykkt frestun fasteignagjalda og að halda óbreyttri framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.