Þingeyjarsveit fyrst sveitarfélaga í Þingeyjarsýslu með heimild til rafrænna skila skjala
Þingeyjarsveit er fyrsta sveitarfélagið í Þingeyjarsýslu sem fær formlega heimild til að skila skjölum rafrænt til Héraðsskjalasafns Þingeyinga.
Á dögunum tók Þorbjörg Guðmundsdóttir, skrifstofu- og skjalafulltrúi Þingeyjarsveitar, við leyfinu úr hendi Snorra G. Sigurðssonar, héraðskjalavarðar hjá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.
„Þetta er mikilvægt skref í átt að nútímalegri og skilvirkari skjalaumsýslu, sem tryggir örugga varðveislu gagna til framtíðar,“ segir Þorbjörg.
Reglur um rafræn skil á skjölum eru settar af Þjóðskjalasafni Íslands, og þarf hvert skjalasafn og sveitarfélag að uppfylla ákveðnar kröfur um tæknilega útfærslu, gæði gagna og lýsigagna.
Snorri fagnar því að Þingeyjarsveit hafi náð þessum áfanga:
„Þingeyjarsveit hefur unnið markvisst að því að efla skjalastjórn sína, og þessi heimild er skýr staðfesting á því. Við vonumst til að fleiri sveitarfélög í sýslunni fylgi í kjölfarið.“
Þessi viðurkenning er ekki einungis mikilvæg fyrir Þingeyjarsveit, heldur einnig hvatning fyrir önnur sveitarfélög og stofnanir á svæðinu til að stíga inn í stafræna framtíð skjalaumsýslu.