Þingeyjarsveit hlýtur jafnlaunavottun

Þingeyjarsveit hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85. Vottunin er staðfesting á því að jafnlaunakerfi Þingeyjarsveitar uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins og með vottuninni hefur Þingeyjarsveit öðlast heimild Jafnréttisstofu að nota jafnlaunamerkið til næstu þriggja ára.

Jafnlaunavottunarferlið hófst í lok árs 2023 með endurskoðun á launakerfi Þingeyjarsveitar ásamt gagnaöflun. Í kjölfar þess voru nýjar verklagsreglur smíðaðar sem verða innleiddar í kjölfar þessarar jafnlaunavottunar. Mikil vinna var lögð í að skilja það sem staðallinn kveður á um og aðlaga verklagsreglur að launakerfi sveitarfélagins. Ávinningurinn er þó mikill þar sem jafnlaunavottun stuðlar að auknu trausti meðal starfsmanna ásamt því að um er að ræða viðurkenningu á því að tryggt er að starfsmenn fái sanngjarna og jafna launagreiðslu fyrir sambærileg störf.“ segir Margrét Hólm Valsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.