Tilkynning frá Rarik - Spurningar og svör - Athugið að miðað er við að tilkynningar berist fyrir 3. janúar 2025

Svör við spurningum á íbúafundi í Skjólbrekku 24.10 2024

RARIK vill þakka íbúum Þingeyjasveitar fyrir að taka á móti okkur á íbúafundi í síðustu viku.

RARIK hefur ákveðið að taka yfir öll samskipti og umsýslu vegna tjónatilkynninga í kjölfar truflana í
kerfi Landsnets 2. október sl., í samvinnu við tryggingarfélag sitt, TM. Við hörmum að einhverjum
viðskiptavinum sem tilkynntu tjón hafi borist tölvupóstur frá Sjóvá (tryggingarfélagi Landsnets) þar
sem fram kom að álitamál væri hvort tjón af völdum rafmagnstruflana væri bótaskylt. Orðalag
póstsins var villandi og ekki til þess fallið að vekja traust hjá viðskiptavinum okkar. Frétt um þetta
hefur verið birt á vef RARIK, rarik.is/tjonaurvinnsla.

Hér fyrir neðan viljum við leitast við að svara þeim spurningum sem við höfðum ekki tilbúin svör
við á fundinum og skýra út fleiri atriði.

Samstarf RARIK og Landsnets við tryggingafélög

Bæði Landsnet og RARIK leituðu til sinna tryggingafélaga til að annast úrvinnslu tjónamála. Þar sem
truflunin varð í kerfi Landsnets þótti rétt að tjónatilkynningar væru unnar þeim megin. Eftir á að
hyggja voru það mistök af hálfu RARIK að gefa úrvinnslu tjóna frá sér á þennan hátt og því höfum
við ákveðið að taka yfir úrvinnslu tjónatilkynninga í samvinnu við okkar eigið tryggingafélag.
Aftur viljum við taka fram að tryggingafélög beggja fyrirtækja, í okkar tilfelli TM, voru aðeins fengin
að borðinu til að vinna úr tjónatilkynningum þar sem þau hafa yfir að ráða sérfræðingum í
tjónamálum sem RARIK hefur ekki. Tryggingafélagið er ekki fengið til að komast undan greiðslu
bóta heldur einungis safna saman og leggja mat á tjónatilkynningarnar og greiða út bætur.


Hvernig verður tjónið metið?

RARIK mun greiða viðskiptavinum sínum bætur fyrir ónýt tæki í samræmi við verð á nýju tæki í
sambærilegum gæðaflokki. Tekið skal fram að ekki er skylt að nýta bótafé til að kaupa ný tæki.


Hvað með tæki sem eru biluð en ekki ónýt?

RARIK mun greiða bætur vegna tækja sem hafa bilað í kjölfar truflunarinnar en hægt er að gera við,
þ.e.a.s. vegna varahluta og vinnu við viðgerðir. Bilanir á tækjum skal tilkynna eins og hvert annað
tjón. Viðskiptavinir eru beðnir um að senda allar kvittanir vegna viðgerða og varahluta á
rarik@tm.is svo hægt sé að taka þær inn í úrvinnslu tilkynninga.


Verða tímamörk á tilkynningum?

Alvarlegar rafmagnstruflanir geta haft þau áhrif að raftæki geta orðið viðkvæm og þau bilað
einhverjum vikum eða mánuðum síðar. Hægt er að bæta við tjónstilkynningar til TM eftir á, jafnvel
eftir að bætur hafa verið greiddar. RARIK hefur ákveðið að miða tímamörkin við 3 mánuði, eða 3.
janúar 2025, vegna tækja sem bila eftir atburðinn. Verði tjón tilkynnt eftir þann tíma verður slíkt
metið sérstaklega.


Hvað með afleitt tjón?

Afleitt tjón er t.d. tími fólks, óþægindi, ferðir milli staða og þess háttar. RARIK bætir ekki afleitt tjón
en mun greiða sendingarkostnað vegna nýrra tækja/varahluta eða tækja sem þarf að senda í
viðgerð.


Hvernig á að tilkynna tjón

Öll tjón vegna spennugæða þarf að tilkynna í gegnum form á vef RARIK, rarik.is/tjon. Þegar RARIK
hefur yfirfarið tilkynninguna er hún send áfram á TM til úrvinnslu. TM mun hafa samband til að
kalla eftir viðbótarupplýsingum og reikningsnúmeri. Viðskiptavinir eru beðnir um að taka myndir af
ónýtum tækjum og öðru tjóni. Ónýt tæki verða sótt heim til viðskiptavina og mun TM annast það.


Hvenær verður skemmdum mælum skipt út?

Öllum mælum sem skemmdust í trufluninni 2. október þarf að skipta út fyrr en síðar og biðjum við
viðskiptavini að taka vel á móti verktökum og starfsfólki á okkar vegum sem hafa samband til að
skipta mælunum út.

Er RARIK þjónustu- eða sölufyrirtæki?

RARIK vill skilgreina sig sem þjónustufyrirtæki og er, samkvæmt skilgreiningu raforkulaga,
dreifiveita. Sem dreifiveita selur RARIK ekki rafmagn heldur annast dreifingu á því og sér um þá
innviði sem þurfa að vera til staðar til að rafmagnið komist alla leið til viðskiptavina.
Orkusölufyrirtækin selja sjálft rafmagnið og frjálst er að vera í viðskiptum við hvaða
orkusölufyrirtæki sem er. Truflunin sem kom upp átti upptök sín í flutningskerfi Landsnets og hafði
afleiðingar inn í dreifikerfi RARIK. Sem dreifiveita ber RARIK ábyrgð gagnvart sínum viðskiptavinum
vegna tjóna og mun héðan í frá sinna þeim málum sjálft án aðkomu Landsnets eða Sjóvá.

Bréf RARIK á pdf formi. 

Hér má finna glærur frá íbúafundi í Skjólbrekku: 

Kynning frá RARIK

Kynning Landsnets