Miðvikudaginn 5. apríl nk. munu starfsmenn og nemendur Stórutjarnaskóla halda sitt umhverfis- og lýðheilsuþing í 8. sinn í skólanum. Allt í kringum okkur heyrum við sífellt auknar áherslur á þætti sem lúta að umhverfi og lýðheilsu. Nemendur skólans munu leika stór hlutverk í dagskrá þingsins og því hvetjum við foreldra og aðra sveitunga til að koma og vera með okkur þessa stund. Þingið verður í sal skólans , það hefst kl 13:10 og stendur til kl. 15:20.
Auk glærukynninga nemenda mun tónlistardeild skólans sjá um tónlistaratriði að venju með hljóðfæraleik og söng.
Aðal fyrirlesari þingsins verður Borghildur Sigurbergsdóttir næringarráðgjafi við Sjúkrahúsið á Akureyri en hún verður með umfjöllun sem á erindi til allra um margt það sem skiptir okkur máli varðandi næringu og matarræði.
Kynntar verða niðurstöður rannsóknar um matarsóun sem nemendur framkvæmdu í vetur, en þá endurtóku þeir leikinn frá síðasta ári, vigtuðu í 4 vikur allar matarleifar eftir matartíma skólans. Einnig verður fjallað um vistheimt í verki og þátttöku skólans í því verkefni í samstarfi við Landvernd. Sagt verður frá leið skólans við að útbúa skólareglur, gerð grein fyrir átaki í að draga úr notkun plastpoka og afhjúpað vegglistaverk sem nemendur hafa gert, en það túlkar umhverfis- og lýðheilsusáttmála skólans.
Vonumst til að sjá sem flesta.
Með góðum kveðjum
Umhverfisnefnd Stórutjarnaskóla