Þingeyjarsveit fær rafmagnið frá aðveitustöð Laxárvirkjun. Hún er venjulega tengd við landsnetið með þremur línum, Kópaskerslínu 1, Laxárlínu 1 og Húsavíkurlínu 1. Allar þessar flutningslínur eru nú bilaðar. Skv. upplýsingum frá Landsneti þá er staðan á þessum línum eftirfarandi:
· Laxárlína 1 sem tengir Akureyri við Laxárstöð – Verktaki hefur skoðað línuna og greint bilanastaði. Kl. 19 var vitað um 10 bilaðar stæður. Skoðun heldur áfram í dag
· Kópaskerslína 1 sem tengir Laxá og Kópasker – Starfsmenn Landsnets skoðuðu línuna frá Laxá að Höfuðreiðarmúla, norðan Þeistareykja. Í nótt var Þeistareykjalína tengd inn á Kópaskerslínu og þar með er komin fæðing frá flutningsnetinu inn á Laxá. Annars er vitað um amk 15 brotnar stæður í Kópaskerslínu, skv. fyrri upplýsingum um málið.
· Húsavíkurlína 1 sem tengir Laxá við Húsavík – Vitað er um 3 brotna staura og einnig eru einhverjar slár brotnar. Nánari bilanagreining heldur áfram í dag, en Húsavík fær rafmagn frá nýju tengivirki á Bakka.
Kerfið í Þingeyjarsveit hefur verið rekið sem eyja út frá Laxá og það sem gerðist 11.12. kl. 21:18 var að Laxá vél 4 leysti út og þar með urðu nærsveitir án rafmagns. RARIK reyndi að byggja kerfið upp frá Húsavík, en álagið var of mikið og það leysti aftur út. Krapi olli truflun í Laxá og gekk mjög illa að koma virkjuninni aftur í gang. Seinni partinn í gær gekk það og þá fengu flestir rafmagnið aftur.
Það eru tvær truflanir í dreifikerfi RARIK á svæðinu.
· Það er truflun á Húsabakka og gengur RARIK illa að finna þá truflun. Þessi truflun er aðeins öðruvísi en aðrar truflanir sem eru í kerfinu því þarna er strengkerfi. Vonandi er þetta samt ekki bilun í strengnum. Búið er að setja upp varavél á Húsabakka og vonandi eru allir komnir með rafmagn þar.
· Það kom í ljós truflun í Bárðadal nú þegar Laxá kom inn aftur. Það verður því miður í fyrsta lagi hægt að fara í bilanaleit þar eftir hádegi í dag.
Rekstrarástandið á svæðinu hefur verið viðkvæmt því Laxá hefur verið rekin sem eyja, en ástandið lagaðist mikið í nótt við að tengja Þeistareykjalínu við kerfið. Óvíst er á þessari stundu hversu langan tíma tekur að koma línum flutningskerfisins í lag, en það getur tekið þó nokkra daga.