Vaglaskógur - Breyting á deiliskipulagi

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti þann 6. desember 2018 að auglýsa skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu að breytingu á þeim hluta gildandi deiliskipulags af Vaglaskógi sem nær yfir svæðið syðst í Stórarjóðri. 

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi felst m.a. í eftirfarandi:

·         Felld er út lóð og byggingarreitur fyrirhugaðrar þjónustubyggingar sem gert var ráð fyrir sunnan Stórarjóðurs ásamt skógarleiksvæði sunnan þjónustubyggingar. Í byggingunni var m.a. gert ráð fyrir möguleika á upplýsingamiðstöð, salerni, grillaðstöðu og aðstöðu fyrir starfsmenn.

·         Í stað þjónustubyggingar er nú gert ráð fyrir lóð og byggingarreit fyrir eldaskála á svæði sunnan Stórarjóðurs og er skálinn staðsettur nokkuð sunnar en fyrirhuguð þjónustubygging var staðsett. Eldaskálinn er bygging þar sem gert er ráð fyrir bálrými undir þaki í öðrum endanum en salernisaðstöðu og geymslu í hinum endanum. Á milli er opið rými eða áningarstaður. 

·         Gert er ráð fyrir lóð og byggingarreit fyrir salernisbyggingu syðst í Stórarjóðri til að þjónusta tjaldgesti, en í byggingunni er gert ráð fyrir salernum auk möguleika á aðstöðu til þvotta. Byggingin er staðsett þar sem núverandi salernisbygging er.

Tillöguuppdráttur með greinargerð mun liggja frammi á skrifstofu Þingeyjarsveitar, Kjarna, 650 Laugar, frá og með föstudeginum 25. janúar 2019 með athugasemdarfresti til og með föstudeginum 8. mars 2019.  Þá eru upplýsingar einnig aðgengilegar á heimasíðu Þingeyjarsveitar: https://www.thingeyjarsveit.is/is/stjornsysla/skipulagsmal/deiliskipulag/tillogur-i-auglysingu.

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna.  Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út föstudaginn 8. mars 2019.  Skila skal athugasemdum skriflega til skrifstofu Þingeyjarsveitar, Kjarna, 650 Laugar og/eða í tölvupósti á netfangið:  helga@thingeyjarsveit.is.  Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests teljast henni samþykkir.

Skipulagsfulltrúi Þingeyjarsveitar.