Rúmar þrjár vikur eru síðan samkomubann var sett á sem nú hefur verið framlengt til 4. maí n.k. og mikilvægt að við höldum áfram að fylgja fyrirmælum yfirvalda í hvívetna.
Enn hafa engin smit verið staðfest í Þingeyjarsveit. Á Norðausturlandi eru nú alls 36 staðfest smit, þar af 30 á Akureyri, 2 á Húsavík, 2 í Mývatnssveit, 1 á Siglufirði og 1 á Dalvík. Alls eru 176 í sóttkví á Norðausturlandi.
Samkvæmt upplýsingum yfirvalda þá er faraldurinn á niðurleið en hins vegar má ekki mikið út af bregða og hlutirnir eru fljótir að breytast ef upp koma nýjar hópsýkingar.
Því hefur verið mælst til þess að fólk „ferðist innanhúss“ um páskana, virði samkomubann og fjarlægðarmörk. Einnig er bent á að óþarfa ferðalög geta aukið hættu á slysum sem eykur enn álagið á heilbrigðiskerfið.
Við skulum njóta páskanna, verum dugleg að hringja í fólkið okkar og hugsum hlýtt til hvers annars en það geta allir gert þrátt fyrir samkomubann og ferðatakmarkanir.
Stöndum saman, hlýðum Víði og verum heimavið um páskana.
Gleðilega páska!
Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.