Héraðsnefnd Þingeyinga
Héraðsnefnd Þingeyinga varð til við samruna Héraðsnefnda Suður- og Norður-Þingeyinga, sem samþykktur var 1996 og tók formlega gildi í ársbyrjun 1997, en héraðsnefndir tóku við af sýslunefndum með nýjum sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986. Með nýjum sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 voru héraðsnefndir aflagðar í því formi sem verið hafði og samstarf sveitarfélaga skilyrt með þeim hætti að það færi einungis fram í byggðasamlögum, með beinum samstarfssamningum eða í landshlutasamtökum.
Verkefni byggðasamlagsins er að annast yfirstjórn og rekstur eftirtalinna stofnana og verkefna fyrir hönd sveitarfélaganna sem aðilar eru að byggðasamlaginu:
- Almannavarnir skv. lögum um almannavarnir nr. 82/2008.
- Barnaverndarnefnd skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002.
- Náttúruverndarnefnd skv. lögum um náttúruvernd nr. 60/2013.
- Menningarmiðstöð Þingeyinga skv. skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar.
- Eignarhald og rekstur ¾ hluta Þingeyjar í Skjálfandafljóti skv. afsali 15/6 1962.
Einnig skal byggðasamlagið annast yfirstjórn og rekstur þeirra stofnana og verkefna sem því kann að verða falið síðar samkvæmt sérstakri samþykkt allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna. Þá skal byggðasamlagið láta sig skipta sveitarstjórnarmál sem varða héraðið sem heild og tillögur um hvað eina sem verða má héraðinu til gagns
Sex sveitarfélög eiga aðild að Héraðsnefnd Þingeyinga bs. Þau eru: Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð.