Refa- og minkaveiðar

Reglur um refa- og minkaveiði í Þingeyjarsveit

          Kafli 1 - Almennt

1. Gildissvið - Reglur þessar gilda um veiðar á refum og minkum innan sveitarfélagamarka Þingeyjarsveitar. Um veiðar þessar gilda ákvæði laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, auk reglugerðar sem settar eru samkvæmt þeim, einkum reglugerð nr. 437/1995, um refa- og minkaveiðar með síðari breytingum.

2. Ábyrgð - Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar ákveður fyrirkomulag veiða í Þingeyjarsveit eftir tillögum atvinnu- og nýsköpunarnefndar. Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs ber ábyrgð á framkvæmd veiðanna og hefur umhverfisfulltrúi sveitarfélagsins umsjón með þeim.

Kafli 2 -Veiði

3. Veiðimenn - Þingeyjarsveit gerir samning við veiðimenn um minkaveiðar, grenjaleit og vetrarveiði á dýrum. Í þeim samningum skal koma fram tímagjald og greiðslufyrirkomulag. Veiðimenn skulu standast eftirtaldar grunnkröfur:

1. Hafa gilt skotvopnaleyfi

2. Hafa gilt veiðikort

3. Veiðimenn skulu fara að þeim lögum og reglugerðum sem um veiðarnar gilda og reglum þessum.

Verði veiðimaður uppvís að því að fara ekki að lögum, reglugerðum, reglum þessum eða hafi ekki gilt veiðileyfi eða veiðikort missir hann samning sinn við sveitarfélagið. Sveitarfélagið greiðir ekki öðrum en þeim sem samning hafa við sveitarfélagið um veiðar.

4. Búnaður - Veiðimaður sem sveitarfélagið gerir samning við, kemur sér sjálfur upp búnaði til veiðanna. Búnaður við veiðar skal ekki brjóta í bága við lög og reglugerðir. Sé komið fyrir gildrum skal það gert þannig að öðrum dýrum stafi sem minnst hætta af. Ef fótbogar og dauðagildrur eru notaðar skal búa um þær þannig að dýrið drepist á sem skjótasta hátt. Sveitarfélagið skal á hverju ári auglýsa styrk til búnaðarkaupa veiðimanna s.s. gildrur ofl. Að öðru leiti skulu veiðimenn sjá sjálfir um að viðhalda og endurnýja búnað til veiða.

5. Svæði - Sveitarfélaginu er skipt upp í 8 veiðisvæði sbr. viðauka 1. og skal einn veiðimaður hafa umsjón með hverju þeirra. Landeigendur sem ekki vilja veiðar í sínu landi skulu tilkynna það umhverfisfulltrúa sem skráir það og lætur veiðimann viðkomandi svæðis vita. Að öðru leyti lítur sveitarfélagið svo á að veiðar á landareign séu heimilaðar. Veiðimenn skulu leitast við að hafa samráð og gott samstarf við landeigendur síns svæðis.

 Kafli 3 - Refaveiðar

6. Grenjaveiði - Grenjavinnsla fer fram á tímabilinu 1. maí til 31. júlí ár hvert (grenjatíma skv. 5. gr. reglugerðar 4737/1995 um refa- og minkaveiðar). Þingeyjarsveit greiðir veiðimönnum þóknun fyrir veidd dýr skv. útgefinni gjaldskrá. Einungis veiðimönnum sem eru með samning við Þingeyjarsveit er heimilt að veiða á grenjatímabilinu. Þó geta bændur og æðarræktendur eða aðilar á þeirra vegum, skotið refi sem búfénaði eða fugllífi s.s. æðavarpi stafar bein hætta af.

7. Leit - Við grenjaleit er ætlast til að farið sé á grenstæði sem einhverjar líkur teljast á að tófa leggi í það árið. Ekki er ætlast til að farið sé á grenstæði sem hafa ekki verið notuð svo áratugum skiptir nema vísbendingar séu um óvenjulegan tófugang. Þó skal veiðimönnum það í sjálfsvald sett hvort þeir kíki á grenstæði á eigin vegum.

8. Skrá - Veiðimenn skulu halda skrá (nafn og hnitsetningu grenis) yfir þekkt greni og uppfæra hana ef ný greni finnast. Nýjum hnitsetningum grenja skal skilað inn til sveitarfélagsins ár hvert. Þegar ráðinn er nýr veiðimaður afhendir sveitarfélagið honum grenjaskrá.

9. Vetrarveiði - Sveitarstjórn ákveður ár hvert með fjárhagsáætlunargerð hvort vetraveiði verði stunduð. Ákveði sveitarstjórn að vetrarveiði fari fram skal semja sérstaklega um greiðslur fyrir þær við samningsbundna veiðimenn. Vetrarveiði fer fram á tímabilinu 1. ágúst til 30. apríl ár hvert. 

10. Útburður ætis - Vanda skal til verka við útburð ætis. Leitast skal við að hafa hæfilega vegalengd á milli staða sem borið er út á. Ætlast er til að staðsetning og frágangur ætis valdi útivistarfólki og öðrum sem um landið fara sem minnstum ama. Jafnframt skal staðsetningin vera í samráði við umhverfisfulltrúa sveitarfélagsins auk þess sem samþykki landeiganda og MAST þarf að liggja fyrir. Fjarlægja skal æti og leifar þess um leið og hætt er að stunda veiðina.

Kafli 4 - Minkaveiðar

11. Sérstök áhersla - Lögð er sérstök áhersla á að leitað sé á varplöndum og við veiðiár. Einnig leitað með sjó, svo sem kostur er. Veiðimenn skulu vera vel tækjum búnir til veiðanns.

12. Veiðar - Sveitarfélaginu er heimilt að ráða veiðimenn til minkaveiða á tímagjaldi við sérstakar aðstæður s.s. átaksverkefni. Greiða skal slíkum veiðimönnum tímakaup á hverja unna klukkustund og kílómetragjaldi.

13. Minkabæli - Ganga skal þannig um minkabæli að sem minnst landspjöll hljótist af. Minkur sem næst lifandi skal aflífaður á sem skjótvirkastan hátt.

  Kafli 4 - Skil á skýrslum og greiðslur

17. Skil á gögnum - Skottum af unnum dýrum ber að skila á þjónustumiðstöð sveitarfélagsins ásamt fylgigögnum. Til þessa ber að nota sérstakar bækur frá Umhverfisstofnun. Þar skal koma fram hvar og hvenær dýr var unnið og hvenær og/eða hvaða greni var leitað, ásamt hnitsetningu grenja.  Greiðslur fara ekki fram fyrr en þessum gögnum og reikningum hefur verið skilað. Þar með talið að uppfæra grenjaskrá ef ný greni hafa fundist. Veiðimanni ber að skila til sveitarstjórnar sundurliðuðum reikningi vegna veiðanna.

18. Hámarksupphæð - Sveitarstjórn ákveður við gerð fjárhagsáætlunar hámarksupphæð til refa- og minkaveiða.

19. Annað - Reglur þessar voru samþykktar á fundi atvinnu og nýsköpunarnefndar Þingeyjarsveitar 12. ágúst 2024 og staðfestar á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 24. ágúst 2024