Snjómokstursreglur Þingeyarsveitar
- Snjómokstursvæðum Þingeyjarsveitar er skipt í 24 svæði. Umsjón snjómoksturs á hverju svæði skal auglýsa á þriggja ára fresti. Snjómokstur er almennt í höndum verktaka og skal sveitarfélagið birta á heimasíðu sinni svæðin og umsjónarmenn þeirra.
- Sviðsstjóri umhverfis-og framkvæmdasviðs er ábyrgur fyrir málaflokknum en tengiliður sveitarfélagsins hverju sinni skal auglýstur á heimasíðu sveitarfélagsins.
- Sveitarfélagið greiðir fyrir heimreiðamokstur allt að átta sinnum í mánuði. Umfram mokstur en þau átta skipti skal greiddur að hálfu af umbiðjanda. Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er áætlað fyrir þessum mokstri og fari snjómokstur fyrirsjáanlega fram yfir áætlaða upphæð áskilur sveitarfélagið sér rétt til þess að kveða nánar á um moksturinn, fækka dögum eða fella hann alveg niður fari kostnaður umfram fjárhagsáætlun. Slíkar ákvarðanir tekur sveitarstjórn og auglýsir sérstaklega.
- Einungis eru mokaðar heimreiðar að bæjum þar sem er föst búseta og viðkomandi íbúar eru með skráð lögheimili í Þingeyjarsveit. Almennt skal miðað við að í forgangi séu leiðir sem skólabílar fara um og þar sem börn fara til skóla í þéttbýli. Ábúanda er heimilt er að sækja um að moka eigin heimreið.
- Heimilt er þeim sem eru með skráð lögheimili en ekki fasta búsetu í Þingeyjarsveit að óska eftir heimreiðamokstri af verktaka. Slíkum heimreiðamokstri skal eingöngu sinnt meðfram öðrum heimreiðamokstri. Þurfi sérstaklega að kalla út verktaka vegna slíks moksturs skulu þeir sem um hann biðja borga helming af mokstrinum.
- Sveitarfélagið annast ekki mokstur heimreiða að frístundarhúsum, óháð því hvort þar eru skráð lögheimili eða ekki. Sveitarfélagið greiðir ekki snjómokstur eða hálkuvarnir inni á frístundahúsasvæðum.
- Ábúendur skulu merkja brunna, ræsi og annað þessháttar sem er í vegköntum. Einnig skulu ábúendur hreinsa vegkanta heimreiða af öllu sem skemmt getur snjóblásara ásamt því að slá vegkannt. Verktaki hefur heimild til að neita mokstri ef ekki er farið eftir ofangreindu.
- Verktaki metur aðstæður hvort moksturshæft sé og skal við það taka mið af veðráttu, færð, veðurspá og mokstri Vegagerðarinnar. Ábúendum er heimilt að panta snjómokstur á heimreiðum hjá verktaka í samræmi við 3.gr.
- Verktaki hefur skyldur til að benda umsjónarmanni snjómoksturs á heimreiðar eða kafla á þeim sem gera mætti breytingar á til þess að draga úr moksturskostnaði. Þá skal verktaki ávallt meta aðstæður og nota tönn/ eða blásara við moksturinn sem hagkvæmastur er fyrir sveitarfélagið.
- Lýsing á gæðum þjónustunnar:
- Rudd skal öll breidd vegar eins og kostur er.
- Rutt skal heim að bílastæðum. Allur annar mokstur er kostaður af ábúenda.
- Verktaki skal ekki skilja eftir ruðninga á heimkeyrslum eða afleggjurum.
- Hreinsa ber snjó af heimreiðum svo nærri yfirborði vegar sem kostur er.
- Almennt skal gera ráð fyrir að snjómokstur eigi sér stað milli kl: 06:00 til 20:00 Hreinsa ber snjó af heimreiðum svo fljótt sem unnt er en ávallt með hliðsjón af veðri, færð og veðurspá hvenær rétt sé að ráðast í snjómokstur.
- Verktaki taki mið af útgefnum sorphirðulosunardögum.
- Athugasemdum vegna framkvæmda á snjómokstri skal koma til umsjónarmanns sveitarfélagsins í gegnum auglýst netfang.
- Reglur þessar voru samþykktar á fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar 12. ágúst 2024. Staðfestar á fundi sveitarstjórnar 22. ágúst 2024