30. fundur

Fundargerð

Byggðarráð

31.10.2024

30. fundur

Byggðarráð

haldinn í Seiglu fimmtudaginn 31. október kl. 14:00

Fundarmenn

Jóna Björg Hlöðversdóttir
Gerður Sigtryggsdóttir
Eyþór Kári Ingólfsson

Starfsmenn

Margrét Hólm Valsdóttir.

Fundargerð ritaði: Margrét Hólm Valsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Formaður setti fund og óskaði eftir að bæta á dagskrá sem 10. lið - Beiðni um styrk, sem 11. lið - Mýsköpun hluthafafundur og sem 12. lið - Skeldýrarækt minnisblað.
 
Samþykkt samhljóða.
 
Dagskrá:
 
1. Íbúafundir vegna meðhöndlunar lífúrgangs í Þingeyjarsveit. - 2401041
Lagt fram minnisblað frá sviðsstjóra umhverfis og framkvæmdasviðs um fyrirhugaða íbúafundi sem haldnir verða í nóvember. Einnig lögð fram kostnaðaráætlun vegna fundanna.
Byggðarráð fagnar því að umhverfisnefnd standi fyrir fundaröð um valkosti í meðhöndlun lífræns úrgangs. Mikilvægt er að samstaða náist um niðurstöðuna.
Jafnframt er lagður fram viðauki vegna kostnaðar við fundina undir dagskrárlið 2.
Samþykkt
 
2. Viðaukar við fjárhagsáætlun 2024 - 2403045
Fyrir byggðarráði liggur að taka ákvörðun um viðauka nr. 4 við fjárhagsáætlun 2024. Viðaukinn hljóðar upp á 1,3 m.kr. og er vegna þriggja íbúafunda sem umhverfisnefnd hyggst halda til kynningar á meðferð lífræns sorps í sveitarfélaginu. Viðaukinn færist á málaflokk 11-Umhverfismál - lykill 11010 Sameiginlegur kostnaður vegna umhverfismál. Viðaukinn verður fjármagnaður af handbæru fé.
Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka og vísar honum til staðfestingar sveitarstjórnar.
Samþykkt
 
3. Alþingiskosningar 2024 - 2410019
Alþingiskosningar fara fram þann 30. nóvember nk. og hefst atkvæða greiðsla utan kjörfundar á skrifstofum sýslumannsembættanna þann 7. nóvember nk. og á skrifstofum sveitarfélaga í síðasta lagi 18. nóvember Síðastliðin ár hefur kjósendum verið gert mögulegt að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá sérstökum kjörstjórum, skipuðum af sýslumanni í húsnæði Þingeyjarsveitar í Mývatnssveit og á Laugum. Til svo verði þarf sveitarstjórn að óska eftir því við sýslumann til samræmis 69. gr. kosningalaga nr. 113/2021. Fyrir byggðarráði liggur því að óska eftir við sýslumann að skipa kjörstjóra í húsnæði sveitarfélagsins í Mývatnssveit og á Laugum til þess að sinna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
Byggðarráð samþykkir að óska eftir við sýslumann að skipa kjörstjóra í húsnæði sveitarfélagsins í Mývatnssveit og á Laugum. Jafnframt er óskinni vísað til staðfestingar í sveitarstjórn til samræmis við 69. gr. kosningalaga nr. 112/2021.
 
Samþykkt
 
4. Flugklasinn - beiðni um fjárstuðning - 2410025
Lagt fram erindi frá Markaðsstofu Norðurlands dags. 16. október sl. þar sem óskað er eftir stuðningi sveitarfélagsins fyrir starfsárið 2025. Óskað er eftir framlagi sem nemur 500 kr. á íbúa.
Byggðarráð telur starfsemi Flugklasans Air66N hafa mikil jákvæð áhrif á ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og styður við heilsársferðaþjónustu.
 
Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að styðja áfram við verkefnið með 500 kr. framlagi á íbúa. Byggðarráð vísar beiðninni jafnframt til fjárhagsáætlunargerðar.
 
Samþykkt
 
5. Umsókn um styrk vegna afnota af Breiðumýri - 2410026
Valdís Lilja Hönnu Stefánsdóttir f.h. Kvenfélags Reykdæla óskar eftir styrk til greiðslu húsaleigu á Breiðumýri 28. nóvember og 1. desember en kvenfélagið hyggst halda fjáröflunarsamkomu 1. dsember ásamt laufabrauðsgerð fyrir þá samkomu.
Byggðarráð samþykkir að veita Kvenfélagi Reykdæla styrk sem nemur afnotum af Breiðumýri fyrir fjáröflunarsamkomu.
 
Samþykkt
 
6. Gjaldskrárhækkanir - 2410031
Lagt fram erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar sem þar minnt er á samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Framsýn óskar eftir við Þingeyjarsveit að virða áðurnefnt samkomulag.
Byggðarráð þakkar erindið og tekur undir mikilvægi þess að hækka ekki álögur á barnafjölskyldur og viðkvæma hópa. Jafnframt telur byggðarráð að hófs sé gætt í öðrum gjaldskrárhækkunum.
 
 
 
 
Samþykkt
 
7. Verkefnaáætlun og kostnaðarskipting í stafrænu samstarfi vegna 2025 - 2410024
Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 14. október sl. þar sem lögð er fram verkefnaáætlun og samantekt um kostnaðarþátttöku fyrir samstarf sveitarfélaga um stafræna þróun og umbreytingu.
Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að halda áfram í samstarfi sveitarfélaga í stafrænni þróun og umbreytingu. Byggðarráð vísar áætluðum framlögum sveitarfélaga til fjárhagsáætlunargerðar.
 
 
 
 
Samþykkt
 
8. Barnalán - gjafir til nýfæddra barna - 2410037
Byggðarráð leggur fram tillögu um að foreldrum nýfæddra barna í sveitarfélaginu verði færð gjöf í tilefni fæðingar nýs íbúa. Gjöfinni er ætlað að nýtast nýfæddu barni og geti jafnframt haft jafnframt jákvæð umhverfisáhrif.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að leggja fram tillögu um frekari framkvæmd ásamt áætluðum kostnaði í fjárhagsáætlunargerð 2025.
Samþykkt
 
9. Áskorun vegna skólamála á Norðurlandi eystra - 2410038
Lögð fram áskorun frá fulltrúum skólastjórnenda og kennara á Norðurlandi eystra um að vanda orðræðu um kennara og skólastarf.
Þar kemur fram m.a. að stórt verkefni er framundan sem er að tryggja öllum börnum vel menntaða kennara en skólarnir standa nú frammi fyrir stöðugt vaxandi mönnunarvanda, jafnt á meðal kennara sem stjórnenda.
Til að laða fólk í kennslu á ný þarf að setja menntamál á oddinn og tala af virðingu um kennarastarfið og skólana.
Byggðarráð þakkar bréfriturum fyrir erindið og tekur undir að okkar sameiginlegu hagsmunir séu að á Norðurlandi eystra séu fagmennska og gæði ríkjandi í öllu skólastarfi.
 
Samþykkt
 
10. Styrkbeiðni - Félag eldri Mývetninga - 2410040
Lagt fram bréf frá Asdísi Illugadóttur fyrir hönd Félags eldri Mývetninga þar sem óskað er eftir 450 þús.kr. styrk fyrir árið 2025.
Byggðarráð þakkar erindið og vísar því til fjárhagsáætlunargerðar fyrir 2025.
 
Samþykkt
 
11. Mýsköpun - hluthafafundur - 2410042
Lagt fram boð á hluthafafund (aukafund) Mýsköpunar sem haldinn verður 8. nóvember kl. 14 í húsnæði félagsins og í gegnum fjarfundabúnað.
Byggðarráð samþykkir að Gerður Sigtryggsdóttir fari með umboð sveitarfélagsins á hluthafafundinum.
 
Samþykkt
 
12. Skeldýrarækt - minnisblað - 2410039
Lagt fram bréf frá Kjartani Þór Ragnarssyni, ásamt minnisblaði sem leggja á fyrir fjárlaganefnd, fyrir hönd samráðshóps um skeldýrarækt þar sem Þingeyjarsveit er boðið að vera aðili að minnisblaðinu.
Lagt fram
 
 
 
 
Fundi slitið kl. 15:27.
 
 
 
Fyrirvari:
Athugið að afgreiðslur nefnda þarfnast almennt staðfestingar sveitarstjórnar, nema í þeim tilfellum þar sem nefnd hefur verið veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í samþykktum sveitarfélagsins.