65. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

31.10.2017

65. fundur

haldinn í Þingeyjarskóla þriðjudaginn 31. október kl. 20:00

Fundarmenn

Margrét Bjarnadóttir formaður
Böðvar Baldursson                                                             
Hanna Sigrún Helgadóttir                             
Vagn Sigtryggsson
Freydís Anna Arngrímsdóttir í forföllum Sigurlaugar Svavarsdóttir
Jóhann Rúnar Pálsson, skólastjóri Þingeyjarskóla
Birna Óskarsdóttir, deildarstjóri í Krílabæ
Nanna Marteinsdóttir, deildarstjóri í Barnaborg
Þorbjörg Jóhannsdóttir, fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla
Íris Bjarnadóttir fulltrúi foreldra við grunnskóladeild Þingeyjarskóla
Hrannar Gylfason, fulltrúi foreldra við Barnaborg
Olga Hjaltalín Ingólfsdóttir, fulltrúi foreldra við Krílabæ

Fundargerð ritaði: Hanna Sigrún Helgadóttir

Dagskrá:

1.            Málefni frá skólastjóra m.a. starfið, kennslustundafjöldi, fjöldi nemenda og mönnun í grunn-, leik- og tónlistarskóladeildum, framkvæmdir síðastliðið sumar.
2.            Vinna við aðgerðaráætlun Vegvísis
3.            Bréf dagsett 4. okt 2017 og ályktun dagsett 28. – 29. sept. 2017 frá félagi stjórnenda leikskóla (FSL).
4.            Sumarlokun leikskóladeilda sbr. bréf frá foreldrafélagi Barnaborgar frá 18. apríl 2017.
5.            Gjaldfrjáls námsgögn fyrir grunnskólanemendur.
6.            Trúnaðarmál

Margrét setti fundinn. 

1.         Málefni frá skólastjóra m.a. starfið, kennslustundafjöldi, fjöldi nemenda og mönnun í grunn-, leik- og tónlistarskóladeildum, framkvæmdir síðastliðið sumar.

Jóhann fór yfir nemendafjölda í deildum skólans, 68 nemendur eru í grunnskóladeild, 22 í Barnaborg og 5 í Krílabæ. Í grunnskólanum eru fimm umsjónarhópar í þremur teymum og eru kennslustundir 258 (með sérkennslu og bókasafni).

Nýir starfsmenn við grunnskóladeild eru Berglind Gunnarsdóttir, Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir, Magnea Dröfn Hlynsdóttir, Iwona Wenta og Örn Björnsson.

Jóhann sagði frá haustgleði skólans sem fram fór 20. september síðastliðinn og uppsetningu á leikritinu Honk sem tókst mjög vel. Fram kom ábending frá fulltrúa foreldra um að æskilegt sé að sýningar séu fyrr á daginn fyrir yngri börnin.

Einnig sagði hann frá fyrirhugaðri námsferð til Bandaríkjanna í vor en starfsmenn fara þar á námskeið í jákvæðum aga.

Samið var við Litlu kvíðameðferðarstöðina um sálfræðiþjónustu í stofnuninni og kemur Kristján Gunnar Óskarsson sálfræðingur einu sinni í mánuði í tvo daga í senn.

Framkvæmdir í sumar; skipt var um gler í kennsluálmunni og hljóðeinangrað milli kennslustofa í tónlistardeildinni sem og veggur í hljómsveitarrými endurnýjaður. Þakviðgerðir voru kláraðar.

Í tónlistardeildinni eru 50 nemendur við auk þess sem allir nemendur fá tónmenntakennslu. Marimba er kennt í öllum aldurshópum og er 1.-4. bekkur í kór einu sinni í viku. Tónlistarkennari fer einu sinni í viku í leikskóladeildirnar.

Birna fór yfir starfið í Krílabæ. Þar eru nú fimm börn við nám og tveir starfsmenn auk matráðar sem leysir af á deild. Í haust fór elsta barnið á sundnámskeið með 1. – 2. bekk og lýsir Birna ánægju með það. Magnea íþróttakennari kennir íþróttir og sund einu sinni í viku og Pétur tónlistarkennari kemur einu sinni í viku. Farið er með elsta barnið í skólaheimsóknir í Þingeyjarskóla einu sinni í viku. Verið er að vinna í lóðinni, búið er að malbika og nú er verið að leggja hitalögn og helluleggja.

Nanna fór yfir starfið í Barnaborg. Þar eru nú 22 börn og verða þau 25 í vor. Kennt er í tveimur húsum líkt og undanfarna vetur. Starfsmenn eru 7 í 5,7 stöðugildum. Nýir starfsmenn eru Hjörtur Hólm Hermannsson og Margrét Jónsdóttir. Framkvæmdir í Barnaborg; Tréverk var fúavarið og málað auk þess sem lóðin fyrir framan pallinn var hækkuð. Foreldrafélagið gaf útikofa á lóðina og er áhugi á að gera gamla kofann upp. Hljóðvist var bætt í sal og í einu herbergi, mikil ánægja er með hvernig það tókst til og er óskað eftir því að haldið verði áfram og hljóðvist bætt í fleiri rýmum. Farið var með elstu börnin í íþróttir og sund á Laugum í október og verður haldið áfram með þrjá elstu árgangana í íþróttum í Ýdölum í vetur. Pétur tónlistarkennari kemur einu sinni í viku og hefur elsta barnið farið í skólaheimsóknir vikulega.

Fulltrúar foreldra bentu á að skoða þurfi öryggi leikskólabarna í rútuferðum á vegum leikskólans. Fram fór umræða um það. 

2.         Vinna við aðgerðaráætlun Vegvísis.

Jóhann fór yfir hvað gerst hafi í aðgerðaáætlun Vegvísis og segir hann að vinnan sé komin vel af stað.

Unnið hefur verið samkvæmt umbótaáætluninni og hefur eftirfarandi verið gert:

Hver og einn kennari átti samtal við skólastjóra um vinnumat í vor.

Sálfræðiþjónusta hefur verið aukin.

Keyptar voru 13 fartölvur fyrir kennara til að bæta tölvukost. Nemendur á unglingastigi fá spjaldtölvur til afnota og einnig eru til spjaldtölvur sem hægt er að fara með inn í yngri hópa.

3.         Bréf dagsett 4. okt 2017 og ályktun dagsett 28. – 29. sept. 2017 frá félagi stjórnenda leikskóla (FSL).

Margrét fór yfir bréfið og ályktunina, þar kemur m.a fram að skýrsla OECD sýnir að börn á Íslandi hafa lengsta viðveru hvern dag í leikskóla og flesta leikskóladaga á ári.

Fram fór umræða um ályktunina og aðbúnað barna í leikskólum.

Nanna lagði fram samantekt, unna af Kristínu Dýrfjörð dósent við Háskólann á Akureyri, um þróun fjölda, hópastærða og rýmis í íslensku leikskólum.

 

4.         Sumarlokun leikskóladeilda sbr. bréf frá foreldrafélagi Barnaborgar frá 18. apríl 2017.

Framhald umræðu á síðasta fundi.

Fræðslunefnd leggur til að gerð verði sú tilraun næsta sumar að sumarlokun verði áfram sex vikur en að lokunin verði færð framar þannig að leikskólinn opni aftur í vikunni eftir verslunarmannahelgi. Þetta verði endurskoðað að ári.

Fulltrúar foreldra telja sig sátta við þessa hugmynd.

 

5.         Gjaldfrjáls námsgögn fyrir grunnskólanemendur.

Margrét segir frá því að sveitarstjórn samþykkti í haust að gera námsgögn fyrir grunnskólanemendur gjaldfrjáls. Samþykkt kr. 540.000 vegna þess fyrir skólaárið 2017-2018, og að það verði einnig gert ráð fyrir gjaldfrjálsum námsgögnum í fjárhagsáætlun næstu 3ja ára,  

Jóhann segir ánægju með þetta innan skólans og fræðslunefnd lýsir einnig ánægju sinni með þetta fyrirkomulag.

 

6.         Trúnaðarmál

Fært í trúnaðarmálabók.

Áheyrnarfulltrúar yfirgáfu fundinn undir þessum lið.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið 17:05