Fundargerð
Fræðslunefnd
01.10.2018
72. fundur.
haldinn í Stórutjarnaskóla mánudaginn 01. október kl. 15:00
Margrét Bjarnadóttir, formaður
Böðvar Baldursson
Hanna Jóna Stefánsdóttir
Hanna Sigrún Helgadóttir
Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Ólafur Arngrímsson, skólastjóri Stórutjarnaskóla
Nanna Þórhallsdóttir, fulltrúi kennara við Stórutjarnaskóla
Helgi Ingason, fulltrúi foreldra við Stórutjarnaskóla
Dagskrá:
Fyrir fundinn kynnti skólastjóri, ásamt verkefnastjórum grunnskóladeildar og deildarstjóra og kennara leikskóladeildar, starf og stefnu Stórutjarnaskóla fyrir nýrri fræðslunefnd.
Margrét setti fundinn.
1. Málefni frá skólastjóra m.a. starfið, fjöldi nemenda og mönnun í grunnskóla-, leikskóla- og tónlistarskóladeildum, staða framkvæmda
Ólafur fór yfir starf skólans. Í grunnskóladeild eru 39 nemendur og 6 í leikskóladeild. Kennslustundafjöldi er samtals 188, þar af 6 á bókasafni.
Mönnun er óbreytt frá síðasta skólaári að því frátöldu að Agnes Þórunn Guðbergsdóttir, sem séð hefur um sérkennslu, verður í leyfi í vetur. Laufey Eiríksdóttir hefur verið ráðin í hennar stað í 50% stöðu.
Verið er að breyta smíðastofunni, sú vinna er komin vel á veg. Eftir á að klára vinnu við útvegg. Skipta þarf um einhverjar útidyrahurðir í skólanum og halda áfram með endurnýjun glugga.
Skoða þarf útiaðstöðu fyrir leikskólabörn, leiktæki og girðingar, fyrir vorið. M.a. þarf að endurnýja girðingu kringum sundlaug.
2. Erindi frá sveitarstjórn: Áheyrnarfulltrúar - 18080331
Framhald umræðu frá síðasta fundi um erindi frá sveitarstjórn um fjölda áheyrnarfulltrúa á fundum fræðslunefndar.
Fulltrúar kennara og foreldra lýsa sig ánægða með það fyrirkomulag sem hefur verið viðhaft á fundum fræðslunefndar í Stórutjarnaskóla.
3. Erindi frá sveitarstjórn: Leikskólar, sumarlokanir og rýmri opnunartímar - 1808033
Framhald umræðu frá síðasta fundi um erindi frá sveitarstjórn um rýmri opnunartíma leikskóla sveitarfélagsins og styttingu sumarlokana í fimm vikur.
Fræðslunefnd leggur til að leikskóladeildin Tjarnarskjól verði lokuð í allt að 6 vikur samfellt sumarið 2019, þ.e. að lokunin verði stytt úr 7 vikum eins og var 2018. Skólastjóri leggur áherslu á að starfsfólk fái sameiginlega vinnudaga síðustu vikuna fyrir skólasetningu.
Fræðslunefnd beinir því til stjórnar foreldrafélags Stórutjarnaskóla og deildarstjóra Tjarnarskjóls að kanna þörfina fyrir rýmri daglegan opnunartíma meðal foreldra leikskólabarna. Fræðslunefnd beinir því einnig til stjórnar foreldrafélagsins að hún haldi félagsfund til þess að ræða lengd sumarlokunar.
4. Innleiðing persónuverndarlaga
Ólafur segir frá stöðu mála í skólanum. Hann segir vinnu vera hafna, en enn sé töluvert í land.
Fleira ekki gert og fundi slitið 18:20