Fundargerð
Fræðslunefnd
25.05.2020
82. fundur
haldinn í Stórutjarnaskóla mánudaginn 25. maí kl. 20:00
Margrét Bjarnadóttir, formaður
Böðvar Baldursson
Hanna Sigrún Helgadóttir
Hjördís Stefánsdóttir
Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Ólafur Arngrímsson, skólastjóri Stórutjarnaskóla
Hanna Berglind Jónsdóttir, fulltrúi kennara við Stórutjarnaskóla
Ásta Hrönn Hersteinsdóttir, fulltrúi foreldra við Stórutjarnaskóla
Dagskrá:
Margrét setti fundinn.
Ólafur segir frá starfinu í vetur. Segir hann það hafa gengið vel framanaf hausti. Vel þótti takast til með að hafa árshátíð á haustönn. Vegna tíðafars féllu samtals 10 kennsludagar niður vegna veðurs og/eða ófærðar á skólaárinu. Ólafur segir fjarnám vegna Covid-19 hafi gengið betur en hann átti von á.
Farið yfir skóladagatal Stórutjarnaskóla fyrir skólaárið 2020-2021. Skóladagar eru 180, þar af fjórir tvöfaldir. Gert er ráð fyrir að starfsmenn hefji störf 17. ágúst. Skólasetning verður 24. ágúst. Umhverfis- og lýðheilsuþing er áætlað 27. október og árshátíð 30. apríl. Jólafrí nemenda verður 19. desember – 3. janúar og páskafrí 27. mars – 6. apríl. Skólaslit verða 31. maí.
Fræðslunefnd samþykkir skóladagatal Stórutjarnaskóla fyrir sitt leyti.
Ólafur leggur fram áætlun um kennslustunda- og nemendafjölda næsta skólaár. Gert er ráð fyrir að nemendur verði 37 í fjórum hópum og kennslustundir 185. Kennsla og störf á bókasafni verði 6 tímar.
Fræðslunefnd samþykkir kennslustundafjölda Stórutjarnaskóla fyrir sitt leyti.
Sigrún Jónsdóttir, kennari, mun láta af störfum vegna aldurs þann 27. október n.k. og mun Birna Friðriksdóttir, sem var í afleysingum í vetur, koma inn í haust og taka við starfshlutfalli Sigrúnar þegar hún lætur af störfum.
Forgangsverkefni í viðhaldi/endurbótum eru framkvæmdir í eldhúsi. Gert er ráð fyrir að annað viðhald verði í lágmarki þar til þeim framkvæmdum er lokið. Skipta þarf um tvær útidyrahurðir og eru þær í smíðum.
Gert er ráð fyrir að kennslustundafjöldi verði 30 kennslustundir eins og verið hefur og starfsmannahald og nemendafjöldi verði óbreyttur frá því sem nú er. Fjartónleikar tónlistardeildar hafa verið teknir upp og verða settir inn á heimasíðu skólans á næstu dögum.
Gert er ráð fyrir að nemendur leikskóladeildar verði 6 næsta vetur og að mönnun verði óbreytt.
Íbúðin sem hýst hefur leikskóladeildina er á leið í útleigu. Í sumar verður leikskóladeildin staðsett á kennslustofugangi og eldað fyrir börnin í kennslueldhúsi. Næsta vetur verður leikskóladeildin á heimavistargangi og í kennslustofu. Fram fór umræða um framtíðarstaðsetningu deildarinnar.
Sumarlokun 2020 verður 5 vikur frá og með 13. júlí, auk starfsdaga. Skóladagatal leikskóladeildar fylgir skóladagatali grunnskólans fyrir utan sumaropnun.
Ólafur segir að fengist hafi leyfi frá Menntamálastofnun til þess að fresta umbótum vegna ytra mats grunnskóla um eitt ár vegna tíðarfars, Covid-19 og annarra óheppilegra aðstæðna í vetur.
Margrét fór yfir rekstrarniðurstöðu Stórutjarnaskóla á síðasta ári og var stofnunin í heild u.þ.b. 3% yfir áætlun.
Staða deilda nú er sú að þær eru nokkurn veginn á áætlun.
Margrét leggur fram til kynningar skjalið Byggjum brú frá grunnskóla til framhaldsskóla. Skjalið er afrakstur samstarfs grunn- og framhaldsskóla á Norðurlandi eystra. Skjalinu er ætlað að setja fram samræmdan og skýran ramma um upplýsingaflæði milli grunnskóla og framhaldsskóla. Notkun á skjalinu er val og það er sett fram sem tillaga til að auðvelda skil milli skólastiga.
Fleira ekki gert og fundi slitið 21:45