88. fundur

Fundargerð

Fræðslunefnd

11.10.2021

88. fundur

haldinn í Þingeyjarskóla mánudaginn 11. október kl. 20:00

Fundarmenn
Margrét Bjarnadóttir formaður
Böðvar Baldursson
Heiða Guðmundsdóttir
Hjördís Stefánsdóttir
Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Kristrún Kristjánsdóttir, fulltrúi foreldra
Mjöll Matthíasdóttir fulltrúi kennara
Nanna Marteinsdóttir deildarstjóri Barnaborgar
Jóhann Rúnar Pálsson skólastjóri Þingeyjarskóla

 

Fundargerð ritaði: Heiða Guðmundsdóttir

Dagskrá:

  1. Málefni frá skólastjóra
  2. Rekstrarstaða skólans eftir 8 mánuði
  3. Vinna við fjárhagsáætlun 2022
  4. Skólaþing sveitarfélaga- Farsælt skólastarf til framtíðar

Margrét setti fundinn.

  1. Málefni frá skólastjóra

Jóhann fór yfir helstu atriði skólastafsins. Starfið gengur vel þrátt fyrir ýmsar kvaðir af völdum covid. Þingeyjarskóli er með umfangsmikla starfsemi sem samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli. Að auki fellur rekstur frístunda- og félagsmiðstöðvarstarfs undir stjórn skólans.

72 nemendur stunda nám í grunnskóladeild, 18 nemendur í Barnaborg og 7 nemendur í Krílabæ. 54 nemendur grunnskóladeildar stunda hefðbundið tónlistarnám.

Allir nemendur skólans fá tónmenntakennslu í einhverju formi.

Stöðugildi eru um 36 við Þingeyjarskóla.

Teymiskennslufyrirkomulag er komið á hjá öllum stigum grunnskóladeildar. Teymiskennsluhóparnir eru 1. – 4. bekkur, 5. – 7. bekkur og 8. – 10. bekkur.

Frístundastarf fyrir yngstu nemendur er í samstarfi við ungmennafélagið Eflingu sem býður uppá íþróttatíma þegar frístundatímar eru. Samstarfi er við Framhaldsskólann á Laugum með verklega raungreinakennslu. Nemendur unglingastigsins eiga kost á að taka þátt í völdum valgreinum hjá framhaldsskólanum.

Nemendum 5. – 10. bekkja er ekið vikulega í Lauga í sund- og íþróttakennslu. 1. – 4. bekkur fær sundnámskeið vor og haust.

Í stoðteymi sitja sérkennari, sálfræðingur og talmeinafræðingur. Teymið fundar vikulega, fer yfir stöðu nemenda og leggur til viðeigandi stuðningsúrræði. Að auki fundar teymið reglulega með þeim er sinna sérkennslu á yngsta- og unglingastigi. Þetta fyrirkomulag hefur reynst nemendum sem þurfa á stoðþjónustu að halda mjög vel.

Skólinn er í samstarfi við Kelduna sem er á vegum Félagsþjónustu Þingeyinga.

Flestir starfsmenn leikskóladeilda sóttu tveggja daga námskeið í Jákvæðan aga. Þrjár umsóknir eru komnar um vistun í Barnaborg eftir áramót, þörf er á að auka mönnun til að mæta fjölgun barna.

Félagsmiðstöðvarstarf hefur verið aukið töluvert frá því sem áður var, skipulagt félagsstarf nemenda við Þingeyjarskóla fer að mestu fram innan félagsmiðstöðvarinnar Skjálfanda.

Skipulag er í höndum starfsmanna og nemendaráðs. Starfið fer fram á mánudögum og miðvikudögum. Markmið félagsmiðstöðvarinnar er að hafa starfið fjölbreytt. Sérstaklega er reynt að ná til þeirra sem ekki sækja mikið af öðru skipulögðu félagsstarfi með það í huga að styðja félagstengsl og félagsþroska. Nemendur eru virkir og jákvæðir í starfinu og aðsókn góð.

Um framkvæmdir: Málingarvinna var við skólahúsnæði Þingeyjarskóla í sumar. Til stóð að fara í malbiksframkvæmdir á bílastæðinu við Þingeyjarskóla í sumar en af því hefur ekki orðið.

Komið var upp nýjum leiktækjum við Barnaborg og á lóðinni þar fyrir utan.

Geymsluskúr undir útidót reistur í sumar við Krílabæ. Enn á eftir að klára framkvæmdir í kringum leiksvæðið við Krílabæ og brýnt að ljúka því sem fyrst, Kristrún tók undir mikilvægi þess að klára þetta verkefnið.Tölverð viðhaldsþörf er inni í húsnæði Krílabæjar s.s. að mála veggi, laga/mála glugga og hurðarkarma.

Búið er að kaupa ný húsgögn fyrir yngstu nemendurna bæði í matsal og kennslustofu.

Nanna ræddi um að erfitt hefði verið að manna 5 vikna sumaropnun í Barnaborg.

Rætt um styttingu vinnuvikunnar, fjölmargar áskoranir hafa komið upp í sambandi við útfærsluna.

  1. Rekstrarstaða skólans eftir 8 mán

Farið var yfir rekstarstöðu skólans síðustu 8 mánuði, launaliður stefnir fram úr og á það sér skýringar.

  1. Vinna við fjárhagsáætlun 2022.

Vinna við fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er að hefjast, farið yfir helstu forsendur hennar og spá Hagstofunnar.

  1. Skólaþing sveitarfélaga- Farsælt skólastarf til framtíðar

Skólaþing sveitarfélaga er haldið hvenær 8.nóvember á Hótel Nordica í Reykjavík. Í tilefni af að nú eru 25 ár frá því grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga verður farið yfir breytingar síðustu 25 ára og horft til framtíðar. Hægt að fylgjast með skólaþinginu í streymi.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið 22:10