Fundargerð
Fræðslunefnd
25.04.2022
91. fundur
haldinn Þingeyjarskóla mánudaginn 25. apríl kl. 00:00
Dagskrá:
Margrét setti fundinn.
Fræðslunefnd staðfestir breytingar á skóladagatali leikskóladeilda Þingeyjarskóla sem samþykkt var í tölvupósti 17.mars 2022. Sumarfrí hefst viku seinna en áður var auglýst. Síðasti dagur fyrir sumarfrí er 1. júlí, leikskólinn opnar á ný 9.ágúst.
Farið yfir drög að skóladagatali grunn- og tónlistardeildar Þingeyjarskóla fyrir skólaárið 2022-2023. Skólasetning er áætluð 22. ágúst og skólaslit 31.maí. Jólaleyfi hefst 19. desember og kennsla 2. janúar. Páskafrí hefst 3. apríl og kennsla 11. apríl. Vetrarfrí er dagana 17. og 18. október og 23. og 24. febrúar. Starfsdagar kennara á starfstíma nemenda eru fimm. Skóladagar eru 180 þar af fimm tvöfaldir.
Gert er ráð fyrir að fjöldi nemenda næsta vetur verði 68. Til kennslu eru áætlaðar 317,5 stundir, með sérkennslu og skiptistundum. Tveir nemendur hefja nám í 1. bekk. Umsjónahópar verða fimm í þremur teymum. Mikil áhersla er lögð á teymiskennslu.
Fræðslunefnd samþykkir drög að skóladagatali og kennslustundafjölda grunnskóla- og tónlistardeildar Þingeyjarskóla fyrir sitt leyti.
Covid hefur haft áhrif á skólastarf í vetur og forföll verið mikil. Flókið var að halda úti starfi í febrúar og mars vegna fjölda nemenda og starfsmanna í sóttkví og einangrun.
Haustgleði var haldin og gekk afar vel. Vorgleði skólans verður 26. apríl.
Í apríl fara nemendur 9. og 10. bekkja í tónlistar- og skólaferðalag til Danmerkur og Svíþjóðar. Þau munu m.a. sækja marimbanámskeið.
5 nemendur útskrifast úr grunnskólanum í vor.
Íris Bjarnadóttir hefur látið af störfum sem matráður við skólann. Fræðslunefnd þakkar Írisi fyrir vel unnin störf.
Hópur starfsmanna í Þingeyjarskóla tekur þátt í þriggja ára Erasmus verkefni um stafræna kennslu og umhverfisvernd í skólunum. Skólar frá sex löndum í Evrópu taka þátt og munu sækja hver annan heim á meðan á verkefninu stendur. Í maí hittast þátttakendur í Danmörku, áætlað er að Þingeyjarskóli verði gestgjafi haustið 2023.
Sundnámskeið fyrir yngsta stig er í sundlauginni á Laugum bæði að vori og hausti.
Samstarf er við Framhaldsskólann á Laugum og gengur vel, áhugi er á auknu samstarfi.
Stefnt er á aukna samvinnu og samráð milli skóla í nýju sameinuðu sveitarfélagi.
Stoðteymi skólans sem í eru sálfræðingur, talmeinafræðingur, sérkennslufræðingur og lestrarfræðingur halda utan um stoðþjónustuna. Það hefur starfað töluvert með Keldunni sem er snemmtæk íhlutun á vegum félagsþjónustu Þingeyinga. Stefnt er á að Stoðteymi muni að einhverju leyti sinna þjónustu og ráðgjöf í öðrum skólum sveitarfélagsins næsta vetur.
Félagsmálafulltrúi er starfandi við félagsmiðstöðina Skjálfanda. Félagsstarfið er í stanslausri þróun með virkri þátttöku nemenda. Nemendaráð sýnir mikið frumkvæði og ber ábyrgð á skipulagi og framkvæmd viðburða með aðstoð starfsmanna. Þátttaka og mæting nemenda er til fyrirmyndar.
Frístund er starfrækt fyrir nemendur á yngsta og miðstigi. Ungmennafélagið Efling býður upp á frjálsíþróttatíma í Ýdölum 2. sinnum í viku fyrir yngsta stig.
Viðhaldsþörf grunnskóladeildar: Huga þarf að lóðamálum, girðingum, slætti o.fl. Til stendur að malbika og merkja bílastæði fyrir framan skólahúsnæðið. Bæta þarf búnað vegna íþróttakennslu. Skipta út gleri í anddyri. Laga steypuskemmdir utan á byggingunni.
Við deildina eru starfandi tveir tónlistarkennarar auk stundakennara. Af 71. nemanda grunnskólans stundar 51 nemandi tónlistarnám. Nemendur leggja stund á nám á píanó, gítar, bassa, harmonikku, fiðlu, trommur, þverflautu, trompet auk söngs. Sem fyrr er mikið og gott samstarf við aðrar deildir skólans. Allir nemendur fá tónmenntatíma einu sinni í viku. Yngsta stig fær tvo tónmenntatíma á viku. Nemendur sjá um undirleik á leiksýningum skólans á haustgleði og vorgleði. Marimbahljóðfærin eru mikið notuð í tónmenntakennslu. Stefnt er að svipuðu starfi næsta vetur.
Guðni Bragason lætur af störfum sem tónlistarkennari við skólann eftir rúmlega áratugsstarf. Fræðslunefnd þakkar Guðna fyrir vel unnin störf.
Farið yfir drög að skóladagatali leikskóladeilda.
Fræðslunefnd samþykkir drög að skóladagatali leikskóladeilda fyrir sitt leyti.
Skólastjóri óskar eftir að fá að halda starfsmannafundi hjá starfsmönnum leikskóla kl.15.00, einu sinni í mánuði. Leikskólinn lokar fyrr þann dag.
Fræðslunefnd leggur til að það verði samþykkt og árangur af þessari breytingu metin að ári.
Starfsdaga þarf að auglýsa með minnst mánaðarfyrirvara.
Sumarleyfi hefst 4. júlí og opnar aftur 9. ágúst 2022. Starfsmenn koma til starfa 8. ágúst. Sumarleyfi hefst 3. júlí 2023.
28 leikskólanemendur eru í leikskóladeildunum. 22 í Barnaborg og 6 í Krílabæ. 2 nemendur útskrifast úr leikskóla og útlit er fyrir að 4. leikskólabörn komi inn á nýju skólaári.
Varðandi viðhaldsþörf á Barnaborg þá þarf að klára girðingu og hlið í kringum leikskólalóðina.
Varðandi viðhaldsþörf á Krílabæ þá þarf að ljúka lóðarframkvæmdum ásamt því að sinna almennu viðhaldi á húsi, málningu o.fl. Klára þarf vinnu vegna athugasemda í úttektarskýrslu vegna leiktækja.
Skipta þarf út sandi í sandkössum í báðum leikskóladeildum.
Guðný Þorbergsdóttir lætur af störfum við Krílabæ 29. apríl. Fræðslunefnd þakkar Guðnýju fyrir vel unnin störf.
Jóhann fór yfir stöðuna á ytra mati grunnskólans, vinnan er á áætlun. Framvinduskýrslu verður skilað 15. maí.
Margrét fór yfir rekstrarniðurstöðu Þingeyjarskóla fyrstu þrjá mánuði ársins, stofnunin í heild er á áætlun.
Jóhann þakkaði fræðslunefnd fyrir samstarfið.
Margrét þakkaði skólastjóra, starfsfólki og áheyrnarfulltrúum fyrir samstarfið á kjörtímabilinu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22:25