11. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd 2022-2026

19.04.2023

11. fundur

Skipulagsnefnd 2022-2026

haldinn í Kjarna miðvikudaginn 19. apríl kl. 09:00

Fundarmenn

Einar Örn Kristjánsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Sigurður Böðvarsson & Ingi Yngvason

Starfsmenn

Atli Steinn Sveinbjörnsson

Fundargerð ritaði: Atli Steinn Sveinbjörnsson

Dagskrá:
1. Beiðni um heimild til breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022 - 2208052
2. Skógar, Umsókn um byggingarleyfi f ferðaþjónustuhúsi - 2303056
3. Vallakot, byggingarheimild - 2303038
4. Litluvellir - smáhýsi - 2304010
5. Stiklur - byggingarleyfi íbúðarhúss - 2304011
6. Búvellir - ferðaþjónustuhús - 2304012
7. Byggingarleyfi að Hróarstungu 3 - 2212011
8. Svartárkot - gróðurhús og fjölnotahús - Umsókn um byggingarleyfi - 2211038

Í upphafi fundar óskar formaður eftir því að tveimur málum nr. 7 og 8, sé bætt við á dagskrá fundar. Samþykkt samhljóða.

1. Beiðni um heimild til breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022 - 2208052

Tekin fyrir að nýju beiðni dags. 11. nóvember s.l. frá verkfræðistofunni Eflu fyrir hönd Landsnets um heimild til breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022 vegna lagningar jarðstrengs frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu. Erindið var síðast tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 18. janúar s.l. þar sem skipulagsfulltrúa var falið að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022. Tillagan var auglýst með athugasemdafresti frá og með 1. febrúar til og með 15. mars 2023. Umsagnir bárust frá Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Náttúruverndarnefnd Þingeyinga
Náttúruverndarnefnd Þingeyingar þakkar innsenda beiðni sem er jákvæð framkvmd og unnin af metnaði. Náttúruverndarnefndin gerir engar athugasemdir við innsenda beiðni en beinir því til verkaðila að vel verði gengið frá sárum sem verða til við framkvæmdina.

Svar skipulagsnefndar
Umsögn krefst ekki svars. Skipulagsnefnd tekur undir umsögn Náttúruverndarnefndar Þingeyinga um að því verði beint til framkvæmdaraðila að vel verði gengið frá framkvæmdastað við útgáfu framkvæmdaleyfis.

Skipulagsstofnun
Skipulagstillagan er sett fram á kortblaði dags. 17. október 2023 með uppdrætti í mkv. 1:100.000 og greinargerð.
Í breytingartillögunni felst að um 7,8 km langur jarðstrengur verði lagður frá tengivirki við Þeistareykjavirkjun til norðurs að sveitarfélagamörkum, mun jarðstrengurinn liggja meðfram gamla Þeistareykjavegi.
Með erindinu bárust umsagnir frá ýmsum aðilum án athugasemda.
Skipulagsstofnun hefur farid yfir framlögð gögn og gerir ekki athugasemd við skipulagstillöguna.

Svar skipulagsnefndar
Umsögn krefst ekki svars.

Minjastofnun Íslands
Á þessu stigi á sama umsögn við og skrifuð var um skipulagslýsinguna dagsett 5. október 2022 (MÍ202209-0104/ 6.10 / S.G) segir:
„Margar fornleifaskráningar hafa verið unnar á Þeistareykjasvæðinu bæði af Fornleifastofnun Íslands (FSI) og Fornleifavernd ríkisins (forvera Minjastofnunar). Árið 2021 var unnin skýrsla af FSI sem heitir: Fornleifar á Þeistareykjum: Samantekt um þekktar fornleifar. Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Orri Vésteinsson Reykjavík 2021. Fs835-20491. Þar voru tekin saman gögn úr eldri skráningarverkefnum og uppmælingar Fornleifaverndar felldar saman við eldri hnitagögn á svæðinu. Samhliða samantektinni var farið yfir loftmyndir af svæðinu í leit að áður óþekktum minjum og gerð tilraun til að teikna upp slíkar minja og yfirfæra eldri teikningar inn í landshnitakerfi.
Í ljósi fjölda skráninga á svæðinu og eðli verkefnisins telur stofnunin ekki þörf á endurskoðun fornleifaskráningar vegna þessarar framkvæmdar. Afstaða minja og línulagna verður skoðuð betur þegar Minjastofnun fær verkefnið inn til umsagnar á síðari stigum í skipulagsferlinu eða þegar framkvæmdaleyfi kemur inn til umsagnar. Þá verður tekin afstaða til þess hvort grípa þarf til sérstakra ráðstafana til að vernda þær fornleifar sem eru nálægt framkvæmdasvæðinu.“

Svar skipulagsnefndar
Umsögn krefst ekki svars.

Náttúrufræðistofnun Íslands
Náttúrufræðistofnun hefur kynnt sér breytingatillöguna og kemur með eftirfarandi ábendingar.
Strengleiðin er öll á Skildingahrauni sem er nútímahraun sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Skildingahraun er yngra en 14 500 ára og á því er jarðvegs- og gróðurhula svo lítið sést í hraunmyndanir. Nokkrir rishólar standa upp úr gróðurhulunni og sprungur eru áberandi í hrauninu en strengleiðin sneiðir frá þeim að mestu. Það er ekki talið að rask verði mikið á jarðminjum við framkvæmdirnar en Náttúrufræðistofnun mælist til þess að leitast sé við að lágmarka rask á hraunum eins og hægt er við framkvæmdina.
Engar válistaplöntur eru skráðar í gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar á strengleiðinni. Gróðurhulan er misþykk og verður leitast við að halda svarðlaginu í heilu lagi og endurnýta það að framkvæmdum loknum svo rask á gróðri verður lítið.
Aðfluttur sandur verður lagður meðfram strengnum og þarf að gæta þess að ekki berist framandi plöntutegundir með honum inn á svæðið.
Áhrif á fugla eru talin verða lítil og tímabundin á meðan á framkvæmdum stendur.
Strengleiðin fer ekki um nein svæði á náttúruminjaskrá, friðlýst svæði eða svæði á B-hluta náttúruminjakrár en nyrstu 350 m leiðarinnar eru innan fjarsvæðis vatnsverndar.
Náttúrufræðistofnun gerir ekki frekari athugasemdir við skipulagslýsinguna en er tilbúin að veita frekari ráðgjöf ef þess er óskað.

Svar skipulagsnefndar
Skipulagsnefnd lítur á framkvæmdina sem brýna almannahagsmuni sem réttlæti rask á hrauni sem nýtur verndar skv. lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og tekur undir athugasemdir Náttúrufræðistofnunar Íslands um rask á hrauni verði lágmarkað eins og mögulegt er og að svarðlag verði varðveitt og nýtt til frágangs svo að áhrif á umhverfið verði sem minnst. Við útgáfu framkvæmdaleyfis vegna framkvæmdarinnar verður því beint til framkvæmdaraðila að vanda allan frágang.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022 og að skipulagsfulltrúa verði falið að sjá um gildistöku breytingarinnar á í samræmi við 2. mgr 32. gr. skipulagslaga nr.123/2010.

Samþykkt

 

2. Skógar, Umsókn um byggingarleyfi f ferðaþjónustuhúsi - 2303056

Tekin fyrir umsókn dags. 28. mars frá Bergljótu Þorsteinsdóttur um byggingarleyfi ferðaþjónustuhúss að Skógum, Fnjóskadal. Um er að ræða 40 fm hús. Meðfylgjandi er byggingarlýsing og afstöðumynd.

Skipulagsnefnd samþykkir að fallið sé frá grenndarkynningu í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda. Skipulagsnefnd felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar tilskilin gögn hafa borist.

Samþykkt

 

3. Vallakot, byggingarheimild - 2303038

Tekin fyrir umsókn frá Valþóri Brynjarssyni f.h. Þórsteins Rúnars Þórsteinssonar og Jóhönnu M Stefánsdóttur um heimild til byggingar um 68,4 fm frístundahúss í landi Vallakots, Reykjadal. Um er að ræða húsnæði sem flutt hefur verið fullbúið úr Kvígindisdal.

Skipulagsnefnd samþykkir að fallið sé frá grenndarkynningu í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda. Skipulagsnefnd felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar tilskilin gögn hafa borist.

Samþykkt

 

4. Litluvellir - smáhýsi - 2304010

Tekin fyrir umsókn frá Huldu Rós Hilmarsdóttur dags. 12. apríl s.l. um heimild fyrir því sett séu niður sex smáhýsi í landi Litluvalla. Stærð húsanna er um 15 fm hvert máluð í svörtum lit svo þau falli sem best að umhverfi sínu.

Skipulagsnefnd telur að áform um byggingu 6 mannvirkja og rekstur sé háð deiliskipulagsgerð.

Samþykkt

 

5. Stiklur - byggingarleyfi íbúðarhúss - 2304011

Tekin fyrir beiðni frá Erni Haukssyni dags. 12. apríl um heimild til byggingu einbýlishús í landi Stikla í Mývatnssveit. Um er að ræða 60 fm einbýlishús á einni hæð.

Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins og felur skipulagsfulltrúa að vinna áfram með málið með umsækjanda.

Frestað

 

6. Búvellir - ferðaþjónustuhús - 2304012

Tekin fyrir beiðni frá Snæþóri Hauki Sveinbjörnssyni dags. 14. apríl s.l. um heimild til byggingar um 31,4 fm ferðaþjónustuhúss í landi Búvalla, Aðaldal.

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að óska eftir uppfærðum gögnum og nánari upplýsingum um útfærslu og uppbyggingu á svæðinu.

Samþykkt

 

7. Byggingarleyfi að Hróarstungu 3 - 2212011

Tekin fyrir að nýju umsókn dags. 9. desember 2022 frá Almari Eggertssyni f.h. Einars Héðinssonar um byggingarleyfi að Hróarstungu 3, Fnjóskadal. Erindið var síðast tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 15. febrúar s.l. þar sem skipulagsfulltrúa var falið grenndarkynna áformin og leita undanþágu frá gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um heimila fjarlægð mannvirkja frá vötnum. Innviðaráðuneytið heimilaði veitingu undanþágu frá ákvæði skipulagsreglugerðar þann 3. apríl s.l.

Grenndarkynning tillögunar gefur ekki tilefni til breytinga á áformunum og Innviðaráðuneytið hefur heimilað að vikið sé frá ákvæði skipulagsreglugerðar um heimila fjarlægð mannvirkisins frá Fnjóská. Skipulagsnefnd felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að Hróarstungu 3 þegar tilskilin gögn hafa borist.

Samþykkt

 

8. Svartárkot - gróðurhús og fjölnotahús - Umsókn um byggingarleyfi - 2211038

Tekin fyrir að nýju umsókn frá Guðrún Sigríði Tryggvadóttur dags. 24. maí 2022 um byggingarleyfi fjölnotahúss og gróðurhúss að Svartárkoti Bárðardal. Um er að ræða 183 fm byggingu með burðarvirki úr timbri. Fyrir liggur afstöðu- og útlitsmynd. Erindið var síðast tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 15. febrúar s.l. þar sem skipulagsfulltrúa var falið grenndarkynna áformin.

Athugasemdir sem bárust við grenndarkynningu gefa ekki tilefni til breytinga á áformunum. Skipulagsnefnd felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar tilskilin gögn hafa borist.

Samþykkt

Fundi slitið kl. 10:30