121. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd 2022-2026

23.01.2020

121. fundur

Skipulagsnefnd 2022-2026

haldinn Í Seiglu fimmtudaginn 23. janúar kl. 10:00

Fundarmenn

Ásvaldur Ævar Þormóðsson,
Sæþór Gunnsteinsson,
Nanna Þórhallsdóttir,
Jóna Björg Hlöðversdóttir,
Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson, 

Starfsmenn

Guðjón Vésteinsson, skipulagsfulltrúi,
Helga Sveinbjörnsdóttir, byggingarfulltrúi

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir

Í upphafi fundar óskaði formaður nefndarinnar að bæta við eftirfarandi máli á dagskrá með afbrigðum:

2001028 - Umsögn um lýsingu vegna endurskoðun aðalskipulags Skaftárhrepps

Samþykkt samhljóða

1.

Einbúavirkjun - 1908034

 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar vísaði eftirfarandi erindi til skipulags- og umhverfisnefndar á fundi sínum 21.nóvember sl. og frestaði nefndin erindinu á síðasti fundi sínum.

"Tekið fyrir erindi frá Hilmari Ágústssyni f.h. Einbúavirkjunar ehf. dags. 19.11.2019, þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar vegna undirbúnings á fyrirhuguðum framkvæmdum við Einbúavirkjun í Bárðardal."

Málið var síðast á dagskrá nefndarinnar 25. janúar 2018 í kjölfar kynningarfundar í Kiðagili í Bárðardal þann 22. janúar 2018 þar sem kynntar voru virkjunarhugmyndir í máli og myndum. Í kjölfar kynningarfundarins lagði Hilmar Ágústsson forsvarsmaður Einbúavirkjunar ehf. fram bréf dagsett 19. janúar 2018 þar sem óskað var eftir samþykki og stuðningi sveitarstjórnar við að hafið yrði mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.
Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 25. janúar 2018 var lagt til að sveitarstjórn legðist ekki gegn því að Einbúavirkjun ehf. hæfi umrætt matsferli og að ekki yrðu teknar skuldbindandi ákvarðanir á því stigi að gera breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna fyrirhugaðra virkjunaráforma, né veitingu framkvæmdaleyfis fyrir framkvæmdinni síðar meir.

Í kjölfar bókunar skipulags- og umhverfisnefndar og síðar sveitarstjórnar sem samþykkti bókun skipulags- og umhverfisnefndar hóf Einbúavirkjun ehf. vinnu við mat á umhverfisáhrifum. Einbúavirkjun ehf. hefur lagt inn drög að matsskýrslu til Skipulagsstofnunnar þar sem hún er í yfirferð.

Með bréfi Einbúavirkjunar ehf. dags. 19. nóvember 2019 til Þingeyjarsveitar er formlega óskað eftir því við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að sveitarfélagið hefji nú þegar vinnu við nauðsynlegar breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 og síðar deiliskipulagi vegna byggingar virkjunarinnar. Það er mat framkvæmdaraðila að nú liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um framkvæmdina og umhverfisáhrif hennar auk þess sem athugasemdir almennings og umsagnaraðila liggja fyrir.

Fulltrúar Einbúavirkjunar ehf., Hilmar Ágústsson og Jóhannes Ófeigsson, komu inn á fundinn og kynntu helstu athugasemdir sem bárust við frummatsskýrslu og viðbrögð við þeim. Einnig voru kynnt uppfærð gögn vegna fyrirhugaðrar virkjunarinnar.
Sveitarstjóri og oddviti sátu kynningu um Einbúavirkjun
Eftir kynningu véku gestir af fundi.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fulltrúum Einbúavirkjunar ehf. fyrir kynninguna.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að gerð verði skipulags- og matslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi skv. 1.mgr. 30.gr. skipulagslaga 123/2010 og lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 160/2000 í samræmi við tillögu Einbúavirkjunar ehf. í frummatsskýrslu um Einbúavirkjun. Jafnframt leggur skipulags- og umhverfisnefnd til að sveitarstjórn feli skipulagsfulltrúa málsmeðferð við gerð lýsingar í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

Jóna Björg Hlöðversdóttir sat hjá við afgreiðslu þessa máls.

     

2.

Hólasandslína - Beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar - 1902013

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Árna Jóni Elíassyni f.h. Landsnets dags. 7.febrúar 2019 varðandi breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna Hólasandslínu 3.

Á fundi nefndarinnar 19.09.2019 var skipulagsfulltrúa falið að koma umsögnum og athugasemdum við skipulags- og matslýsingu á framfæri við skipulagsráðgjafa.

Fornleifaskráning í samræmi við umsögn Skipulagsstofnunnar var framkvæmd í október sl.

Tilefni breytingarinnar er áform Landsnets að byggja 220 kV raflínu, Hólasandslínu 3, milli Akureyrar og Hólasands.
Markmið framkvæmdarinnar er að bæta raforkukerfi landsins, tryggja stöðugleika kerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu þessara landshluta og auka flutningsgetu, öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku. Hólasandslína 3 er á stærstum hluta leiðarinnar áformuð samsíða núverandi Kröflulínu 1, sem er hluti Byggðalínu.
Ráðgert er að Hólasandslína 3 verði lögð innan Þingeyjarsveitar sem loftlína - að mestu samhliða núverandi Kröflulínu 1 - , sem er í megindráttum í samræmi við gildandi aðalskipulag Þingeyjarsveitar. Lega línunnar víkur hins vegar frá gildandi aðalskipulagi á þremur stöðum, í Bíldsárskarði, Fnjóskadal og Laxárdal. Í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd eru jafnframt tilgreind nítján ný efnistökusvæði innan sveitarinnar, en þörf fyrir fyllingarefni er metið um 270.000 m3. Framkvæmdinni fylgir lagning um 30 km af nýjum slóðum, en jafnframt verða eldri slóðar nýttir og styrktir.

Fyrir liggja drög að tillögu að breytingu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar í samræmi við aðalvalkost Landsnets fyrir Hólasandslínu 3 þar sem tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda og umsagna sem bárust við skipulags- og matslýsingu.

Kynningarfundur var haldinn þann 7. janúar 2020 þar sem fyrirhuguð tillaga að breytingu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar var kynnt almenningi.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja að auglýsa breytingartillögu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að lokinni athugun Skipulagsstofnunar á breytingartillögunni eins og 3. mgr. 30. gr. fyrrnefndra laga mælir fyrir um. Jafnframt leggur nefndin til að skipulagsfulltrúa verði falið að sjá um auglýsingu á tillögunni.

     

3.

Fjósatunga - deiliskipulag - 1905026

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Ómari Ívarssyni dags. 17.05.2019 f.h. SS byggir þar sem óskað var eftir heimild til að nýta ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að hefja vinnu við deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal. Um er að ræða 61,2 ha svæði sem er í gildandi aðalskipulagi skilgreint sem frístundabyggð, en skv. skilmálum aðalskipulags er heimilt að byggja allt að 60 frístundalóðir á svæðinu en lóðir skulu ekki vera minni en 0,5 ha.

Þann 4. júní 2019 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að auglýsa skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðs deiliskipulags. Skipulagslýsing var kynnt fyrir umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi þar sem þeim var gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar sem að gagni gætu komið við gerð deiliskipulagsins og var athugasemdafrestur frá 2. júlí til og með 23. júlí.

Athugasemdir/umsagnir bárust frá Skipulagsstofnun, Vegagerðinni, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Ólafi Rúnari Ólafssyni og Eyrúnu Kristínu Gunnarsdóttur.

Tillaga að nýju deiliskipulagi dags. 20.01.2020 liggur fyrir, 12 bls greinargerð með forsendum og skipulags- og byggingarskilmálum og skipulagsuppdráttur í mælikvarða 1:2000 í A1. Í fyrirliggjandi tillögu hefur verið tekið tillit til þeirra umsagna og athugasemda sem bárust í vinnu við deiliskipulagstillöguna.

Skipulagssvæðið afmarkast af hluta þess svæðis sem skilgreint er fyrir frístundabyggð á jörðinni skv. aðalskipulagi. Skv. gildandi aðalskipulagi er 60 ha svæði skilgreint sem frístundabyggð í Fjósatungu og er svæðið staðsett í hlíðinni sunnan við bæjarstæðið í Fjósatungu. Skv. aðalskipulagi nær svæðið að gili ofan bæjarhúsanna í Fjósatungu í norðri, að bakka neðan hlíðarinnar í austri, að Grjótá í suðri og upp í um 250 m hæð í vestri.

Í skipulagslýsingu var gert ráð að skipuleggja allt 60 ha svæðið fyrir 60 frístundalóðir en síðar var ákveðið að skipuleggja svæðið í tveimur áföngum þar sem fyrirliggjandi minjaskráning nær aðeins til suðurhluta svæðisins. Fyrri áfangi deiliskipulagsins nær því frá aðkomuvegi upp með Grjótá í suðri og að gili sem liggur niður miðja hlíðina í norðri. Innan skipulagssvæðisins er einnig aðkomuvegurinn sem tengist inn á Illugastaðaveg. 4 ha einkajörð norðan Grjótár er utan skipulagsmarka deiliskipulagsins. Skipulagssvæðið er um 38 ha að stærð.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við tillöguna á þessu stigi en bendir á að nauðsynlegt sé að gera grein fyrir aðgengi að slökkvivatni. Nefndin felur skipulagsfulltrúa að kynna tillöguna, forsendur hennar og umhverfismat fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum eins og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

     

4.

Vaglaskógur - breyting á deiliskipulagi - 1902042

 

Tekið fyrir að nýju erindi mótt. 6.11.2019 frá Ómari Ívarssyni, f.h. Skógræktarinnar þar sem lögð var fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Vaglaskóg. Tillagan felst m.a. í hliðrun á lóð og byggingarreit fyrir eldaskála og breytingum á bílastæðum meðfram aðkomuvegi.

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 21. nóvember að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða og samþykkt að grenndarkynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vaglaskógar fyrir Vegagerðinni og Minjastofnun. Umsögn/athugasemd barst frá báðum aðilum.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að óverulegri breytingu á gildandi deiliskipulagi Vaglaskógar verði samþykkt með áorðnum breytingum í samræmi við athugasemd frá Vegagerðinni. Skipulagsnefnd leggur jafnframt til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falin málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar eins og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

     

5.

Vegagerðin - Ný lega Norðausturvegar 85-02 um Skjálfandafljót í Kinn - 1808035

 

Tekið fyrir að nýju erindi varðandi áætlaða veglínu Norðausturvegar 85-02. Samskipti frá 20.12.2019 kalla á að skipulags- og umhverfisnefnd taki afstöðu til þess hverjar fyrirætlanir sveitarfélagsins eru með núverandi veg þegar ný veglína hefur verið lögð.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að sveitarfélagið óski þess að núverandi vegur standi áfram sem tengivegur að Vaðsbæjum og Skriðuhverfi. Eins leggur nefndin til að sveitarfélagið samþykki þann fyrirvara að brúin verði aðeins opin fyrir umferð meðan ástand hennar leyfir.

     

6.

Breiðanes - Umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar - 2001018

 

Tekið fyrir erindi mótt. 09.01.2019 frá Hjalta Dagssyni f.h. Kjarnagerðis ehf. varðandi umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar í landi Breiðaness í Þingeyjarsveit L153720. Fyrirhugað skógræktarsvæði er í Reykjadal og er 27 hektarar að stærð. Skógræktarsvæðið er fyrirhugað í brekkunni fyrir ofan gamla skóginn og mun þar af leiðandi mynda samfellda heild með honum.

 

Nefndin telur að umrætt framkvæmdaleyfi falli í flokk C skv. lið 1.07 í 1.viðauka laga 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að leita umsagna Minjastofnunnar og Náttúruverndarnefndar Þingeyinga um framkvæmdina.

Ákvörðunartöku um það hvort framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum er frestað þar til umsagnirnar liggja fyrir.

     

7.

Lappland - sameining lóða í landi Sigríðarstaða - 2001022

 

Tekið fyrir erindi mótt. 19.janúar 2020 frá Dóru Herbertsdóttur þar sem sótt er um að tvær lóðir í eigu umsækjanda, L220246 og L176153 verði sameinaðar í eina. Einnig er sótt um að nafn lóðarinnar eftir sameiningu verði Lappland.
Fylgiskjöl: Samrunaskjal, Veðbandayfirlit beggja lóða, yfirlitsmynd og mæliblað lóða.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við sameininguna í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

     

8.

Umsögn um lýsingu vegna endurskoðun aðalskipulags Skaftárhrepps - 2001028

 

Tekið fyrir erindi frá Ólafi E. Júlíussyni f.h. Skaftárhrepps dags. 16. janúar 2020 þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins við skipulagslýsingu vegna endurskoðunar aðalskipulags Skaftárhrepps.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi skipulagslýsingu vegna endurskoðunar á aðalskipulagi Skaftárhrepps.

     

 

 

 

 

Fundi slitið kl. 12:18.