129. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd 2022-2026

17.09.2020

129. fundur

Skipulagsnefnd 2022-2026

haldinn Í Seiglu fimmtudaginn 17. september kl. 10:00

Fundarmenn

Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Sæþór Gunnsteinsson
Nanna Þórhallsdóttir
Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson
Sigurlína Tryggvadóttir

Starfsmenn

Guðjón Vésteinsson
Helga Sveinbjörnsdóttir

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir

Dagskrá:

 

1.

Kross lóð - nafnabreyting - 2009012

 

Tekið fyrir erindi dags. 8.9.2020 frá Huldu Svanbergsdóttur og Sigurði Birgissyni þar sem sótt er um að lóðin Kross lóð L201748 fái nafnið Kross 1.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við nafnabreytingu lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

     

2.

Kvíaból land - nafnabreyting - 2009013

 

Tekið fyrir erindi dags. 07.september 2020 frá Sigurði Narfa Rúnarssyni og Nönnu Marteinsdóttur þar sem sótt er um að lóðin Kvíaból land L153436 fái nafnið Arnþórsgerði.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við nafnabreytingu lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að hún verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

     

3.

Veglína við Ljósavatn - hjáleið í neyðartilvikum - 2009022

 

Þjóðvegur 1 liggur um þekkt ofanflóðasvæði við Ljósavatn.
Síðastliðinn vetur kom ítrekað upp sú staða að öll umferð væri bönnuð um þjóðveginn vegna snjóflóðahættu. Engin önnur vegtenging er á milli Norðausturlands og Norðurlands að vetrarlagi og veldur það því að umferð neyðaraðila milli svæða er ómöguleg. Almenn heilbrigðisþjónusta hefur að miklu leyti færst til Akureyrar og er umferð neyðaraðila því lífsnauðsynleg.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skora á Vegagerðina að tryggja að umferð neyðaraðila verði tryggð allt árið um kring. Síðastliðinn vetur kom ítrekað upp sú staða að þjóðvegur 1 lokaðist vegna snjóflóðahættu án möguleika á hjáleið. Það er ekki viðunandi þar sem heilbrigðisþjónusta fer að miklu leyti fram á Akureyri. Mikil umferð er einnig um svæðið þ.á.m. þrír skólabílar í daglegum akstri.

     

4.

Arnstapi - breyting á deiliskipulagi - 1908031

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Kristni Magnússyni ódagsett. Sótt var um heimild til að breyta gildandi deiliskipulagi við Arnstapa. Breytingin fólst í því að lóðum er fjölgað um tvær, úr tíu í tólf og deiliskipulagssvæðið stækkað úr 10,9 ha í 12,2 ha.

Tillaga að breytingu á gildandi deiliskipulagi var samþykkt í sveitarstjórn þann 28. maí s.l. og var tillaga að breytingu auglýst frá 8. júlí 2020 til og með 19. ágúst 2020. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma. Sérstaklega var óskað eftir umsögnum frá umsagnaraðilum í tölvupósti og bárust umsagnir frá Landsneti, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Minjastofnun.

 

Athugasemdir og umsagnir sem bárust við breytingartillöguna:

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra:
HNE hefur yfirfarið deiliskpulagstillöguna og gerir ekki athugasemdir, að því gefnu að fráveitumál verði leyst samkvæmt reglum.

Svar:
Umsögnin krefst ekki svars.

LANDSNET:
Mikilvægt er að breyting á sumarhúsabyggðinni í nálægð við Laxárlínu 1, taki mið af því að hægt verði að ráðast í framkvæmdir við niðurrif línunnar án vandkvæða og án þess að valda skemmdum á gróðri eða truflunum á lífríki. Í því ljósi leggur Landsnet til að í greinargerð deiliskipulagsins komi fram að gert sé ráð fyrir að greiðu aðgengi til niðurrifs Laxárlínu 1 og að lóðarhöfum sé gerð grein fyrir því.
Bent er á að á deiliskipulagsuppdrætti vantar að sýna staðsetningu skipulagssvæðisins á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar.

Svar:
Skipulagsnefnd tekur undir að bætt verði við í greinargerð umfjöllun um aðgengi að Laxárlínu 1 vegna niðurrifs á henni og að viðkomandi lóðarhöfum verði gerð grein fyrir því.
Bætt verður við á uppdrætti staðsetningu skipulagssvæðisins á aðalskipulag.


Minjastofnun:
Um er að ræða breytingu á gildandi deiliskipulagi, verið er að stækka skipulagssvæðið úr 10,9 ha í 12,1 ha og fjölga lóðum um tvær. Ekki hefur verið gerð fornleifaskráning fyrir svæðið. Minjavörður kannaði svæðið á vettvangi þann 16 september síðastliðinn. Engar þekktar fornleifar eru á skipulagsreitnum og hefur Minjastofnun Íslands ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.

Svar:
Umsögn krefst ekki svars.


Umhverfisstofnun:


Umhverfisstofnun bendir á að það vantar skýringar og norðurpílu á uppdrátt.

Svar 1: Skýringum og norðurpílu verður bætt við á uppdrátt.
Umhverfisstofnun bendir á að svæðið, sem tillagan nær til, er á náttúruminjaskrá og nefnist Ljósavatn og er númer 520 sem aðrar náttúruminjar. Svæðið er víðfeðmt og er lýst sem svæði fjölbreytts landslags, með stöðuvatni, framhlaupi, jökulurðarhólum, hrauni og skógi.
Að mati Umhverfisstofnunar er mikilvægt að fram komi áhrif tillögunnar á ásýnd svæðisins og hvort tillagan hafi neikvæð áhrif á verndargildi náttúruminja.

Svar 2: Umfjöllun um áhrif tillögunnar á ásýnd svæðisins og hvort tillagan hafi neikvæð áhrif á verndargildi náttúruminja verður bætt inn í greinargerð.

Umhverfisstofnun bendir á að stöðuvatnið Ljósavatn fellur undir a. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Í 61. gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra, sem undir greinina falla, nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Í greinargerð með frumvarpi til laga um náttúruvernd er með orðalaginu „brýn nauðsyn“ lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Umhverfisstofnun leggur áherslu á að fjallað sé um vatnið í tillögunni og það komi fram hver áhrif tillögunnar eru á vatnið.

Svar 3: Umfjöllun um vatnið og áhrif tillögunnar á vatnið verður bætt inn í greinargerð.

Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt 62. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd segir að við vatnsnýtingu og framkvæmdir í eða við vötn skal leitast við að viðhalda náttúrulegum bakkagróðri við ár og stöðuvötn og haga mannvirkjum og framkvæmdum þannig að sem minnst röskun verði á bökkum og næsta umhverfi vatnsins.

Svar 4: Vísan í umrædd lög verður bætt inn í greinargerð.

Stofnunin bendir á að í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur eftirfarandi fram í gr.5.3.2.14., skipulag við vötn ár og sjó. „Við afmörkun lóða á svæðum utan þéttbýlis skal þess gætt að rými sé fyrir aðkomu að og meðfram vötnum, ám og sjó. Utan þéttbýlis skal ekki reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að áætlað verði nægt rými meðfram Ljósavatni svo að útivistargildi skerðist ekki.

Svar 5: Breytingartillagan nær eingöngu til þess hluta frístundabyggðarinnar sem er lengst frá Ljósavatni.

Umhverfisstofnun bendir á að öll fráveita skal vera skv. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitu og skólp.

Svar 6: Vísan í umrædd lög verður bætt í greinargerð.

Umhverfisstofnun telur mikilvægt að girðingar hindri ekki umferð gangandi manna. Í 26. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 er fjallað um girðingar og þar segir: „Óheimilt er að setja niður girðingu á vatns-, ár- eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Ef mannvirki hindrar för um bakka skal sem kostur er séð fyrir göngustíg kringum mannvirkið og að bakkanum aftur. Þegar girða þarf yfir forna þjóðleið eða skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg skal sá sem girðir hafa þar hlið á girðingu. Heimilt er að hafa göngustiga í stað hliðs þegar girt er yfir skipulagðan göngustíg.“

Svar 7: Breytingartillagan nær eingöngu til þess hluta frístundabyggðarinnar sem er lengst frá Ljósavatni.



Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki fyrirliggjandi breytingartillögu á deiliskipulagi Arnstapa með áorðnum breytingum í samræmi við svör nefndarinnar við innsendum athugasemdum. Jafnframt leggur nefndin til að skipulagsfulltrúa verði falið að sjá um málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar í samræmi við lög og reglugerðir.

     

5.

Eyjardalsvirkjun - lóðir, landskipti - 2009023

 

Tekið fyrir erindi frá Þorgeiri Birni Hlöðverssyni f.h. Eyjardalsvirkjunar ehf. dags. 7.9.2020 þar sem sótt er um landskipti þriggja lóða á framkvæmdasvæði Eyjardalsvirkjunar. Lóðirnar sem um ræðir eru Eyjardalsvirkjun og Eyjardalsstífla úr landi Hlíðarenda og Eyjardalsstífla 2 úr landi Eyjardalsár.
Fylgiskjöl eru lóðarblöð, F550 eyðublöð frá Þjóðskrá Íslands og veðbókarvottorð.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við landskiptin í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að þau verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

     

6.

Hólasandslína 3 - Umsókn um framkvæmdaleyfi - 2006017

 

Skipulagsfulltrúi upplýsir skipulags- og umhverfisnefnd um stöðu framkvæmda við Hólasandslínu 3.

     

7.

Skýrsla skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa - 1909022

 

Byggingarfulltrúi upplýsir skipulags- og umhverfisnefnd um stöðu vinnu við umhverfisstefnu sveitarfélagsins.

Guðjón Vésteinsson, skipulagsfulltrúi, lætur af störfum í lok september, og hefur nýr skipulagsfulltrúi, Atli Steinn Sveinbjörnsson, verið ráðinn hjá Skútustaðahrepp og mun hefja störf á næstu dögum. Samstarf sveitarfélaganna um skipulags- og byggingarfulltrúa heldur áfram og mun nýr skipulagsfulltrúi því einnig starfa að verkefnum fyrir Þingeyjarsveit.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar Guðjóni kærlega fyrir gott samstarf og vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

     

 

 

 

 

 

 

Fundi slitið kl. 11:35.