|
Veðurstofa Íslands Með erindi dags. 5. Júlí s.l. óskaði Þingeyjarsveit eftir athugasemdum Veðurstofu Íslands við tillögu að deiliskipulagi hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal. Veðurstofan gerir ekki athugasemdir við tillögu þessa.
Svar: Athugasemd krefst ekki svars
Vegagerðin Vegagerðin hefur farið yfir tillögu að deiliskipulagi fyrir Fjósatungu í Fnjóskadal skv. tölvupósti dags. 1.7.2021. Í yfirliti yfir breytingar á gögnum skipulagsins sést að tekið hefur verið tillit til ábendinga Vegagerðarinnar í fyrri umsögn dags. 15.5.2020. Bent er á að samkvæmt Vegalögum nr. 80/2007 þarf leyfi Vegagerðarinnar fyrir tengingum við þjóðvegi og öllum framkvæmdum og mannvirkjum innan veghelgunarsvæðis. Á það líka við þótt mannvirki séu á samþykktu skipulagi. Vegagerðin gerir engar athugasemdir við tillöguna.
Svar: Athugasemd krefst ekki svars
Minjastofnun Með tölvupósti sendum 1. júlí 2021 óskaði Atli Steinn Sveinbjörnsson skipulagsfulltrúi eftir umsögn Minjastofnunar Íslands um deiliskipulag að Fjósatungu í Fnjóskadal. Með póstinum fylgdi tillaga að endurskoðuðu skipulagi, dagsett 20. janúar 2020, síðast breytt 30. júní 2020. Skipulagssvæðið afmarkast af hluta þess svæðis sem skilgreint er fyrir frístundabyggð á jörðinni skv. aðalskipulagi. Svæðið er staðsett í hlíðinni sunnan við bæjarstæðið í Fjósatungu. Viðfangsefni deiliskipulagsins er m.a. að afmarka lóðir og byggingarreiti ásamt því að skilgreina fyrirkomulag aðkomuvegar og önnur þau ákvæði sem ástæða er til að skilgreina í deiliskipulagi. Tillagan var áður auglýst með athugasemdafresti frá 26. mars til 20. maí 2020. Minjastofnun skrifaði umsögn um það skipulag dagsetta 18. maí 2020 (MÍ202004-0075/ 6.09 / S.G.). Tekið hefur verið tillit til allra athugasemda sem Minjastofnun hafði við þá tillögu og hefur Minjastofnun Íslands ekki aðrar athugasemdir við fyrirhugað skipulag eins og það var kynnt stofnuninni, en þær sem taldar voru upp í fyrri umsögn. Rétt er að vekja athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 en þar segir: „Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.“
Svar: Athugasemd krefst ekki svars Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur kynnt sér meðfylgjandi deiliskipulagstillögu þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir að þyrpingar frístundalóða sameinist um eitt hreinsivirki fráveitu og að haft verði samráð við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra vegna nánari úfærslu til samræmis við lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 og gerir ekki athugasemdir við þessi áform; enda verði haft samráð við heilbrigðisfulltrúa í tíma og áður en að kemur til fráveituframkvæmda á svæðinu. Þá er minnt á að afla starfsleyfis fyrir vatnsból og vatnsveitu í tíma ásamt því að gera tillögu að verndarsvæði fyrir væntanlegt vatnsból. Svar: Athugasemd krefst ekki svars Ólafur Rúnar Ólafsson og Eyrún Kristín Gunnarsdóttir Undirrituð eru eigendur Grjótárgerðis í Fnjóskadal og eiga því lögvarða hagsmuni af því að koma að athugasemdum við skipulagsvinnuna. Undirrituð gera þær athugsemdir við tillögu að deiliskipulagi í landi Fjósatungu í Fnjóskadal, Þingeyjarsveit sem grein er fyrir gerð í þessu skjali. Með því er ekki fallið frá rétti til að gera athugsemdir eða hafa skoðanir á öðrum atvikum sem tilefni kann síðar að verða til að gera athugasemdir við. Grjótárgerði er um 4 ha spilda úr landi Fjósatungu og er „eyja“ inn í landi jarðarinnar. Spildan hefur verið í eigu okkar frá 3. nóvember 2007, sbr. þinglesið afsal þar um, og öllum ljóst um tilvist hennar. Hún er afgirt í landinu og vel afmörkuð. Við öll áform landeigenda Fjósatungu um kaup og skipulag jarðarinnar hefur því átt að taka mið af tilvist og legu þessarar spildu. Kvaðir um umferðarrétt, lagnir og vatnsöflun eru þinglýstar á jörðinni Fjósatungu og ber að geta um í skipulagsskilmálum deiliskipulagsins, enda á deiliskipulagið að vera lýsandi um hvernig heimilt er að ráðstafa landinu og hverjar takmarkanir eru á þeim ráðstöfunarheimildum, m.a. vegna réttinda annarra, þar með talið aðliggjandi fasteigna. Núverandi eigandi keypti jörðina Fjósatungu á árinu 2014.
Athugasemd 1: Gerð er athugasemd við málsmeðferð sveitarfélagsins. Telja verður að hin auglýsa tillaga hafi ekki fengið lögformlega meðferð í samræmi við sveitarstjórnarlög eða samþykkt um stjórnun sveitarfélagsins nr. 641/2019. Samkvæmt 15. gr. sveitarstjórnarlaga og 9. sbr. 10. gr samþykktar um stjórnun sveitarfélagsins, ber að boða sveitarstjórnarfund með dagskrá með tveggja sólarhringa fyrirvara. Í niðurlagi 10. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins segir að óski fulltrúi eftir að mál verði tekið á dagskrá verði að tilkynna það sveitarstjóra skriflega 3 virkum dögum fyrir fund svo unnt sé að taka það á dagskráa. Í upphafi fundargerðar 301. fundar sveitarstjórnar 24. júní 2021, er bókað að oddviti hafi óskað eftir að bæta einu máli á dagskrá, þ.e. deiliskipulagi um Fjósatungu. Hvergi í samþykktum sveitarfélagsins er getið um slíka heimild, og hana virðist ekki vera að finna í sveitarstjórnarlögum. Hér er því um undantekningu að ræða sem setja verður strangar kröfur um. Málið virðist hafa legið óheyft hjá sveitarfélaginu mánuðum saman. Þann 10. mars 2021 sendu undirrituð fyrirspurn um stöðu málsins til sveitarfélagsins. Svar kom 10. mars um stöðu málsins. Ekki eru því efni til að líta svo á að tilefni hafi verið til að víkja frá reglum um boðun funda í þessu tilviki og engir hagsmunir sjáanlegir sem kalli á eða réttlæti slíkt frávik. Því síður verður að teljast heppileg stjórnsýsla að athugasemdafrestur hitti fólk fyrir á sumarleyfistíma, en það er smekksatriði. Allt að einu má ætla að sveitarfélagið hafi haft svigrúm til að taka málið á dagskrá og til umræðu með lögmætum hætti á sveitarstjórnarfundi, þ.e. með efnislegri umfjöllun og umræðu. Tilgangur boðunarfrest er ítarlega rökstuddur í lögskýringargögnum, athugasemdum með frumvarpi því sem varð að sveitarstjórnarlögum. Þar er áréttað að gögn máls sem sveitarstjórnarfulltrúar eiga að fjalla um á fundi, þurfi að fylgja fundarboði. Augljóst má vera af aðdraganda þess að málið er tekið á dagskrá að sveitarstjórnarfulltrúar hafa ekki fengið gögn málsins til athugunar og skoðunar. Í bókun sinni vísar sveitarstjórn til samþykktar sinnar í málinu frá 25. júní 2020. Í skipulagsauglýsingu sem birtist á heimasíðu sveitarfélagsins er á hinn bóginn birt greinargerð með skipulags- og byggingarskilmálum, þar sem kemur fram að þeim hafi verið breytt eftir auglýsingatíma. Dagsetning breytinga er 30. júní 2020, þ.e. eftir að sveitarstjórn hafði fjallað um málið hið fyrra sinni 25. júní 2020. Við þessar aðstæður er ljóst að sú tillaga sem nú er auglýst er ekki sama tillaga og áður var birt og var til afgreiðslu á fundi sveitarstjórnar 25. júní 2020. Hlýtur því að þurfa að fara eftir lögum og reglum sveitarfélagsins sjálfs um að mál sem taka á fyrir á fundi sveitarstjórnar séeu tilgreind á dagskrá með gildum fyrirvara ásamt gögnum sem lögboðið er að fylgi máli. Undantekningar frá þessum reglum verða að heyra til algerra undantekninga. Raunar er ekki heimild fyrir þeim í lögum eða reglum. Um leið má vera ljós að skipulagsstofnun getur vart samþykkt að tillagan verði auglýst í B deild stjórnartíðinda. Framkvæmdaleyfi sem gefin yrðu út á grundvelli deiliskipulagsauglýsingar kynnu að vera í uppnámi og kæranlegar. Með vísan til þessa gera eigendur Grjótárgerðis athugasemd við málsmeðferð sveitarfélagsins og fara fram á að málið hljóti þá meðferð í sveitarfélaginu sem gert er ráð fyrir í sveitarstjórnalögum og samþykkt sveitarfélagsins um stjórnun þess. Málið fari þannig á dagskrá sveitarstjórnarfundar með löglegum hætti og hinu nýju gögn, þeirri breyttu mynd sem þau nú eru ? og eru önnur en þau gögn sem voru til umfjöllunar á fundi 25. júní 2020, fái umfjöllun í sveitarstjórn.
Svar: Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar starfar samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 123/2011. Í 2. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga er getið til um fyrirmynd sem gildir fyrir sveitarfélagið þar til að sérstök samþykkt hefur verið gerð fyrir sveitarfélagið. Í 16. gr. auglýsingar nr. 976 um fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga segir í lið c um afgreiðslu mála: Mál skulu tekin til umræðu og afgreidd í þeirri röð sem dagskrá kveður á um nema sveitarstjórn eða oddviti ákveði að önnur röð skuli höfð. Oddviti getur ákveðið að tiltekið mál í fundargerð sem er á dagskrá verði gert að sérstökum dagskrárlið á fundinum. Heimilt er að taka mál á dagskrá þótt ekki sé þess getið í fundarboði, enda samþykki 2/3 viðstaddra sveitarstjórnarmanna þau afbrigði. Á fundi sveitarstjórnar þann 25. júní 2020 var tillaga að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggðar samþykkt til gildistöku og skipulagsfulltrúa falið að sjá um málsmeðferð. Í kjölfarið var tillagan send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga auk þess sem beðið var eftir heimild landbúnaðarráðuneytis til þess að taka landið úr landbúnaðarnotum skv. 6. gr. þáverandi jarðalaga nr. 81/2004. Einnig átti sér stað á þessum tíma starfsmannaskipti auk þess sem á samfélagið herjaði heimsfaraldur sem hafði áhrif á málsmeðferð. Í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga 123/2010 segir: Skipulagsstofnun skal koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarstjórn innan þriggja vikna frá því að deiliskipulagið var móttekið. Sveitarstjórn skal taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Skipulagsstofnun var send tillaga að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggðar þann 16. mars 2021. Svar Skipulagsstofnunar var póstlagt 4. maí 2021 eða 7 vikum frá því að þeim var send tillagan til umsagnar en í skipulagslögum segir að stofnunin hafi þrjár vikur til þess að koma sínum athugasemdum á framfæri. Meðal þeirra athugasemda sem Skipulagsstofnun gaf var að afla þyrfti umsagnar Veðurstofu Íslands vegna ofanflóðahættu, að sýnd skildu snið sem sýndu hvernig byggingar yrðu aðlagaðar að landhalla, hvernig fyrirkomulagi fráveitu verði háttað við ofanverða Grjótártungu og Heiðartungu vegna nálægðar við götu og að afla þyrfti umsagnar heilbrigðisnefndar um deiliskipulagið og taka tillit til þeirra athugasemda sem þar kynnu að koma fram. Þær athugasemdir sem gerðar voru varðandi tillöguna gefa ekki tilefni til þess að henni yrði breytt í grundvallaratriðum. Farið var að tilmælum Skipulagsstofnunar og viðeigandi gagna aflað í samræmi við athugasemdir og tillagan uppfærð eftir þeim. Uppfærð tillaga og meðfylgandi gögn voru send Skipulagsstofnun að nýju 15. júní 2021 en þar sem ár var liðið frá því að athugasemdafresti við auglýsta tillögu lauk, þann 20. maí 2020, var málsmeðferð skipulagsins ógild sbr. 2. mgr. 42. gr skipulagslaga nr. 123/2010. Því var tillagan afgreidd til auglýsingar að nýju skv. 41. gr. skipulagslaga á fundi sveitarstjórnar þann 24. júní 2021.
Athugasemd 2: Í greinargerð DSK tillögu segir í k. 1.6 að samráð skuli haft við aðliggjandi landeigendur. Hefur verið leitast eftir slíku samráði? Undirrituð kannast ekki við að haft hafi verið samráð við okkur við undirbúning deiliskipulagstillögunnar áður en hún var samþykkt til auglýsingar svo sem gert er ráð fyrir í 3. mgr. gr. 5.2.1 í skipulagsreglugerð. Ber enda tillagan sem auglýst er þess merki að ekki hefur verið gætt að hagsmunum undirritaðra né þeim gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum að við sveitarstjórn. Verður því ekki hjá því komist að mati undirritaðra, að sveitarstjórn taki deiliskipulagstillöguna úr auglýsingu, framfylgi ákvæðum skipulagsreglugerðar um samráð við okkur sem eigendur lands sem liggur að því svæði sem deiliskipulagstillagan tekur til. Öðrum kosti er hætta á að Skipulagsstofnun samþykki tillöguna ekki, auk þess sem annmarki að þessu leiti gefur tilefni til að óska endurskoðunar á málsmeðferðinni hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og skipulagsmála. Að mati undirritaðra er ekki nægjanlegt og ekki í samræmi við 3. mgr. gr. 5.2.1 í skipulagsreglugerð að kynna tillöguna eftir að ákveðið hefur verið í sveitarstjórn að auglýsa hana, sbr. skýrt orðalag ákvæðisins, um samráð við landeiganda aðliggjandi lóðar áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Þetta hefur ekki verið gert, svo sem augljóst má vera, enda málið tekið á dagskrá í sveitarstjórn með afbrigðum og án auglýsingar. Hafa ákvæði í 37. gr. skipulagslaga um að deiliskipulag skuli taka til svæðis sem myndi heildstæða einingu verið virt? Tillagan ber með sér að vera hluti skipulagssvæðis á syðri hluta jarðarinnar, en sá áfangi sem síðar skuli koma, eigi að tengjast þeim áfanga sem fjallað er um í þessari deiliskipulagstillögu, órofa böndum og mynda skipulagsheild. Skortir að mati undirritaðra mikið á að deiliskipulagstillagan taki þannig til þess svæðis sem eigi að mynda heildstæða einingu. Má þar nefna hvort tillagan þurfi í umhverfismat, hvort stærð húsa og umfang byggðar muni mynda þéttbýli en ekki frístundabyggð, umfang fráveitu, aðkomu og því um líkt. Af núverandi tillögu er ekki hægt að átta sig á þeirri heildstæðu einingu sem ætlað er að verði lokaafurð breyttrar nýtingar á landi Fjósatungu.
Svar: Í kafla 1.6 segir: „Í vinnu við deiliskipulag eða á auglýsingartíma deiliskipulagsins er haft samráð við ýmsa hagsmunaaðila sem tengjast beint því sem snertir deiliskipulagsgerðina“. Samráð við aðliggjandi landeigendur í formi auglýsingar deiliskipulagsins er talin fullnægjandi. Nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum var send skipulagstillagan og auglýsing varðandi hana sem og skipulagslýsing. Í greinargerð tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggðar er fjallað um þær breytingar sem gerðar hafa verið á tillögunni í samræmi við athugasemdir landeiganda aðliggjandi lóðar sem gefur til kynna það samráð sem hefur verið haft. Samráð við landeigendur er metið fullnægjandi séu lýsing og tillögur auglýstar með fullnægjandi hætti sem sveitarstjórn metur sem svo að hafi verið gert í þessu tilviki, enda getur 3. mgr. 5.2.1 gr. skipulagsreglugerðar ekki skýrt á um það hvernig samráði skuli háttað. Skipulagslýsing var kynnt með athugasemdafresti frá og með 2. júlí 2019 til og með 23. júlí 2019. Í greinargerð tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggð er getið á um seinni áfanga og þeim áformum sem stefnt er að varðandi framtíðarlandnotkun. Því má segja að litið sé til svæðisins í heildstæðri mynd. Ekki er hægt að meta áform um seinni áfanga þar sem upplýsingar þar að lútandi eru tæmandi og ekki viðfangsefni þeirra áforma sem skipulagið tekur til.
Athugasemd 3: Staðsetning rotþróa skal koma fram á deiliskipulagsuppdrætti. Gerð skal krafa um að fráveitukerfi ofan landeignar L215343 leiði ekki siturlögn út í jarðveg ? mengað vatn mun koma upp á landeign ef svo er.
Gera skal tæmandi grein fyrir fráveitukerfi sbr. gr. 5.3.2.15 í skipulagsreglugerð. Það er ekki gert. Vegna landhalla er einboðið að siturlögn eða annað afrennsli frá rotþróm ofan L215343 mun leiða til mengunar á landeigninni. Ekki er að sjá umfjöllun um þetta í skipulagstillögunni. Undirrituð gera kröfu um að fráveitu sé veitt í rotþró sem staðsett er þannig að afrennsli renni ekki á L215343 eða áhrifa gæti að öðru leyti á því landi, svo sem vegna lyktarmengunar. Þetta hefðu undirrituð getað bent á áður en tillagan fór til sveitarstjórnar til samþykktar í auglýsingu. Verði ekki gerð krafa um þetta við útfærslu fráveitu, er sýnt að mengun getur orðið í jarðvegi og lyktarmengun á spildu okkar og takmarkað þau not sem við getum haft af okkar landi, til að mynda ef leitast yrði við að reisa frístundahús á spildunni í sama eða svipuðum þéttleika og deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir í landi Fjósatungu. Leiði skipulagið til þess að takmarka nýtingarmöguleika okkar, kynni að koma til þess að undirrituð verði að skoða réttarstöðu sína í ljósi 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sama gildir um lyktarmengun. Af skipulagstillögunni má ráða að óljóst sé hve margar rotþrær verði eða hvar þær munu verð settar upp. Gerð er krafa um að skipulagstillagan geri grein fyrir legu einstakra rotþróa og að lagt verði mat á lyktarmengun sem frá þeim kunni að stafa, m.a. með tilliti til ríkjandi vindátta. Gera verður kröfu um að öll óþægindi sem kunni að stafa af fráveitu vegna mengunar, vatns-, yfirborðs-, lyktarmengunar eða annarrar mengunar verði metin og svo komið þannig fyrir að þeirra gæti einvörðungu í landi Fjósatungu enekki í landi Grjótárgerðis. Í því sambandi verður að bend á að land Grjótárgerðis er einvörðungu 4 ha en landrými í landi Fjósatungu er nægt til að tekið verið tillit til þessara atriða við útfærslu deiliskipulags um nýtingu lands. Telja undirrituðu að svör við athugasemdum í fyrri umferð þessa máls, til undirritaðra sé ekki fullnægjandi og tillagan því ekki í samræmi sem gerðar verði til skiplagsáforma á þeim skala sem tillagan er.
Svar: Þess er getið í tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggðar að hreinsivirki fráveitu verði innan frístundalóða. Staðsetning mun verða ákveðin í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og vera í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 og reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999. Í tillögunni er þess getið að frágangur hreinsivirkis skuli vera vandaður í alla staði þannig að engin mengun stafi af. Í athugasemd Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, sem barst við fyrri auglýsingu tillögunnar, segir að varðandi fráveitu er lögð áhersla á að gerð verði grein fyrir fráveitu og staðsetningu hreinsivirkja í deiliskipulagi með því markmiði að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, s.s. með sameiginlegum hreinsivirkjum, sbr. lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009. Tekið hefur verið tillit til athugasemdar Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra í greinargerð og verður litið til sameiginlegra hreinsivirkja í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra sem vegna stærðarhagkvæmni valda minni og staðbundnari áhrifum en fleiri og minni hreinsivirki.
Athugasemd 4: Þegar þessi deiliskipulagstillaga hefur verið birt verður ekki hjá komist að kalla eftir efnislegri umfjöllum sveitarfélagsins um hvað geti talist „óhóflegt“ byggingarmagn og þá með hliðsjóna af því hvað fordæmi skipulagstillagan muni skapa um sambærilega breytingu á nýtingu bújarðar og hvort þau áform sem nú eru uppi verði talin samræmast breytingu á aðalskipulagi 2012. Í úrskurði 7/2019 Unalækur er fjallað um hvað geti talist óveruleg breyting á skipulagi (reyndar deiliskipulagi í þessu tilviki). Þarna segir “Kærendur vísa til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem sé að finna ákvæði um breytingu á deiliskipulagi. Þar komi fram sú meginregla í 1. mgr. ákvæðisins að fara skuli með breytingar á deiliskipulagi sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Undantekningu frá meginreglunni sé að finna í 2. mgr. 43. gr. laganna þar sem fjallað sé um óverulegar breytingar á deiliskipulagi. Í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að skipulagslögum sé vísað í dæmaskyni um óverulega breytingar til þess þegar iðnaðarhúsnæði sé breytt í íbúðarhúsnæði, glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett séu í garð o.s.frv. Hvorki sé vísað beint til tilgreinds ákvæðis 2. mgr. 43. gr. laganna í fundagerðum umhverfis- og framkvæmdanefndar og bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 8. og 15. febrúar 2019 né í grenndarkynningu skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 22. s.m.“ Þegar fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi er skoðuð verður að ætla að hæpið sé að breytingin sem fram fór á ASK Þingeyjarsveitar, sem leiðir til þess að þéttleiki byggðar tvöfaldast, geti talist óveruleg. Ekki er að sjá af bókun skipulagsnefndar hvort nefndin hafi tekið afstöðu til þeirra viðmiða sem fram koma um óverulegar breytingar í 36. gr. skipulagslaga. Gerð er athugasemdi við meðferð deiliskipulagsins sé ekki í samræmi við gildandi reglur og breytingar á aðalskipulag að þessu leyti. Undirrituð eru ósammála svörum sveitarfélagsins við þessari athugsemd sem áður hafði komið fram þegar málið var til meðferðar hið fyrra sinni.
Svar: Í fyrra svari skipulagsnefndar sagði að tillaga að deiliskipulagi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og þá breytingu sem gerð var á aðalskipulagi árið 2012 (öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15.10.2012 ) sem fólst í því að lóðarstærðir frístundalóða á svæði F23 fyrir frístundabyggð skuli ekki vera minni en 0,5 ha, en stærðin var 1 ha áður. Fjöldi lóða á svæði F23 er að hámarki 60. Málsmeðferð fyrirliggjandi tillögu að nýju deiliskipulagi hefur fengið málsmeðferð í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Sú breyting sem gerð var á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022 árið 2012 og málsmeðferð vegna hennar er ekki til umfjöllunar við gerð tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggðar.
Athugasemd 5: ASK breyting frá 2012 ? lóðarstærðir minnkaðar úr 1 ha í 0,5 ha: Breyting á ASK árið 2012 var afgreidd sem óveruleg breyting þrátt fyrir að hún hafi í för með sér verulega fjölgun lóða (sbr. rökstuðning í bókun skipulagsnefndar) og breyti til muna ásýnd fullbyggðs svæðis og verði því að teljast hafa mikil áhrif á eiganda lands L215343. Undirritaðan rekur ekki minni til að þessi breyting hafi verið kynnt sérstaklega fyrir okkur eða að það hafi verið dregið fram að verið væri að breyta skipulagi sem felur í sér óverulega breytingu. Breytingarskjalið sem aðgengilegt er á skipulag.is er ekki ítarlegt og þar er ekki lagt mat á umhverfisáhrif breytingar eða áhrif hennar á einstaka aðila. Ekki var ástæða til að ætla annað en að taka mætti mark á að um væri að tefla óverulega breytingu og með ekki greinilegri gögn en þetta við ASK breytinguna 2012 máttir ekki vænta annars en að frístundahúsin 60 myndu rísa að mestu ofan/vestan við grjótárgerði sbr. fitju landnotkunarreits F-23 í aðalskipulagi (sjá hitaveitulögn og eldri veg til samanburðar). Skipulagssvæði deiliskipulagstillögu liggur austar en ráða má af aðalskipulagsuppdrætti og fyrir vikið er framkvæmdin mun nær landeign L215353 en okkur gat verið ljóst við ASK breytingu árið 2012. Þannig er í DSK tillögu gert ráð fyrir 11 húsum austan hitaveitulagnar, beint norður af L215353, og ekki er vafi á að húsin skerði útsýni til norðurs frá landeigninni og hafi vafalaust áhrif á innsýn og hljóðvist líka. Svo virðist sem lóð 2 liggi líka utan fitju F-23 á aðalskipulagsuppdrætti og húsið á henni getur varpað skugga á L215353 til viðbótar við áhrifin sem fyrr eru talin. Undirrituð telja að í fyrri meðferð sveitarfélagsins hafi ekki verið tekið fullnægjandi tillit til þessarar athugsemdar og erum við ósammála túlkun sveitarfélagsins.
Svar: Sú breyting sem gerð var á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022 fól í sér málsmeðferð óverulegrar breytingar á aðalskipulagi í samræmi við 2. mgr. 36. gr skipulagslaga og er ekki til umfjöllunar við afgreiðslu tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggðar. Í fyrra svari skipulagsnefndar sagði að sveitarfélagsuppdrættir Aðalskipulags Þingeyjasveitar 2010-2022 séu settir fram í mælikvarða 1:100.000. Landnotkunarreitur á aðalskipulagsuppdrætti í slíkum mælikvarða getur því ekki talist að þeirri nákvæmni að hægt sé að segja til um hvort öll frístundahús í Fjósatungu séu austan eða vestan hitaveitulagnar. Þá má vera að staðsetning hitaveitulagnar á aðalskipulagsuppdrætti í mælikvarða 1:100.000 sé ónákvæm. Þá segir í áðurnefndir breytingu á aðalskipulagi frá 2012 að hún sé m.a. til komin svo hægt verði að fjölga húsum á svæðum sem henta betur til byggingarframkvæmda. Varðandi skerðingu á útsýni, skuggavarp og hljóðvist þá er svæðið skilgreint sem frístundabyggð í gildandi aðalskipulagi og því má gera ráð fyrir frístundahúsum á svæðinu sem vissulega geta haft áhrif á útsýni, skuggavarp og hljóðvist. Eins og sagði í fyrra svari þá gefur skipulagsuppdráttur ónákvæma mynd af staðsetningu veitulagna og afmörkun svæða og ber að taka með fyrirvara í samræmi við þá ónákvæmni sem gefin er upp. Slíkt er heimilt skv. 6. mgr. 4.5.3. gr. um skipulagsuppdrætti í skipulagsreglugerð 90/2013. Með bættri tækni og gagnvirku skipulagi er komið til móts við þá ónákvæmni sem fylgir fyrri hefðum.
Athugasemd 6: Byggingarskilmálar heimila hús með kjallara, hæð og nýtanlegu risi. Má telja víst að þetta sé fáheyrt umfang bygginga á svæði utan þéttbýlis. Ásýndarmyndir og skuggavarpsmyndir sbr. gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð fylgja ekki skipulagsgögnum ? áhrif framkvæmda á umhverfi og aðra hagsmunaaðila ekki upplýst á fullnægjandi hátt. Fyrri svör sveitarfélagsins fela í sér gildishlaðna fullyrðingu sem ekki er studd rökum eða gögnum. Undirrituð lýsa sig ósammála mati sveitarfélagsins á að fyrirhugaðar byggingar teljist ekki verulegar að umfangi og ítreka þessar athugsemdir.
Svar: Í fyrra svari skipulagsnefndar er vitnað í tillöguna sem segir að grunnflötur frístundahúsa sé að hámarki 160 m2 og hámarkshæð 6,0 m (vegghæð að hámarki 4,5 m) sem telst ekki verulegt umfang. Þar sem aðstæður leyfa vegna landhalla er heimilt að hafa kjallara undir frístundahúsum. Tillagan gerir ekki er ráð fyrir því að áhrif bygginga á landslag og ásýnd að svæðinu verði veruleg þar sem hæð bygginga er takmörkuð og útlit þannig ákvarðað að sem best falli að umhverfi. Þá er ekki talið að mengandi áhrif verði vegna fráveitu þar sem fráveitukerfið verður í samræmi við viðeigandi reglugerðir. Hvort að umfang fyrirhugaðra frístundahúsa teljist verulegt þá er það afstætt og til fordæmi fyrir húsum á borð við þau sem tillagan gerir grein fyrir. Stærðartakmörk frístundahúsa voru felld út við uppfærða byggingareglugerð árið 1998 og þróun frístundahúsa hefur verið á þann veg undanfarin ár að þau eru hönnuð að betri gæðum og hugsuð sem heilsárshús án fastrar búsetu. Sem viðmið má líta til frístundabyggðarinnar við Hálönd sem gefa heimild fyrir allt að 200 fm byggingarmagni og þakhæð 8 m, fleiri fordæmi má finna t.a.m. er heimild í frístundabyggð í Lundi, Fnjóskadal fyrir 140 fm auk 20 fm auk geymslukjallara. Í frístundabyggð Skóga í Fnjóskadal er heimild fyrir 140 fm frístundahúsum auk geymslulofts og niðurgrafins kjallara, hámarkshæð 6,0 m.
Athugasemd 7: Ekki koma fram sniðmyndir í hús til skýringar. Heimilt er að vera með kjallara undir aðalhæð og mænishæð 6 m frá gólfkóta aðalhæðar ? ætla má að mænishæð húss geti því orðið allt að 8,5 m þegar mælt er frá yfirborði lands neðan kjallara. Skipulagsgögn gefa ekki glögga mynd af leyfilegu umfangi bygginga og grenndaráhrifum þeirra.
Fyrri svör sveitarfélagsins bera með sér að sveitarfélagið hafi ekki sérstaklega fjallað um álitaefni þau sem athugsemdin víkur að, að mati undirritaðra og þess að vænta að upplýst verði um hvernig mat var lagt á hvort leyfð hæð húsa sé eðlileg eða heppileg, sbr. rannsóknarregla stjórnsýslulaga.
Svar: Í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 ? 2022 er fjallað um frístundabyggð í landi Fjósatungu og segir þar að fjöldi húsa og stærð einstakra lóða skuli útfært í deiliskipulagi. Tillaga að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggðar leggur til grundvallar stærð og umfang fyrirhugaðra frístundahúsa í samræmi við aðalskipulag og sú mynd sem dregin er upp í tillögunni samræmist þeim deiliskipulagsáætlunum sem í gildi eru í næsta nágrenni. Eðlilegt er að staðsetning húsa sé mótuð eftir landslagi og því er mögulegt að hús standi hærra í landi en hámarks mænishæð segi til um.
Athugasemd 8: Svo virðist sem skipulagsmörk DSK nái talsvert út fyrir skilgreindan landnotkunarreit á gildandi ASK uppdrætti, sbr. legu hitaveitulagnar sem sést á báðum uppdráttum. Þarna virðist vera um verulegt misræmi milli ASK og DSK að ræða auk þess að DSK tillagan er umfangsmeiri og tekur til stærra svæðis en skipulagslýsing gerði grein fyrir. Ekki er að sjá að tekið hafi verið tillit til þessarar athugasemdar að mati undirritaðra. Hægt hefði verið á þeim tíma sem liðinn er í málsmeðferðinni að ráða bót á þessu með breytingu á aðalskipulagi þannig að fullt samræmi væri milli aðal- og deiliskipulags.
Svar: í svari við fyrri auglýsingu tillögunnar kom fram að ekki er óeðlilegt að afmörkun svæðisins breytist við vinnu deiliskipulags þegar áhrifasvæðið er rýnt nánar og landslag og jarðgerð könnuð frekar. Varðandi breytingu á aðalskipulagi þá er endurskoðun gildandi aðalskipulags í vinnslu sem byggir á gagnvirkri framsetningu og skýrari afmörkunum.
Athugasemd 9: Í gildandi ASK Þingeyjarsveitar kemur fram að við deiliskipulagningu frístundasvæða skuli miða við hámarks nýtingarhlutfall u.þ.b. 0,05 ? sjá k. 4.6.2 í greinargerð. Í greinargerð DSK kafla 4.2. segir að hámarks byggingarmagn sé 300 fm á lóð. Til að nýtingarhlutfall lóðar fari ekki yfir 5% vegna 300 fm húss þarf lóðin að vera a.m.k. 6000 fm stór og eru þó nokkur dæmi um lóðir sem víkja verulega frá þessari kröfu á deiliskipulagstillögu. Fyrir vikið er byggð skv. deiliskipulagstillögu talsvert þéttari en gildandi ASK heimilar. Undirrituð mótmæla að frávik sé innan skekkjumarka, enda engin viðmið til um það hversu mikil slík skekkjumörk mega vera til að teljast heimil. Ekki verður sé að of strangar kröfur verði gerðar til skipulagsins þó gerð verði krafa um að reglum um nýtingarhlutfall verði fylgt. Enda eru reglur um nýtingahlutfall ekki til hliðsjónar, heldur settar til að afmarka nýtingarhlutfall. Verður að gjalda varhug við því að sett verði fordæmi um huglægt mat á hvað sé „innan skekkjumarka“.
Svar: Í svari við fyrri auglýsingu tillögunnar er bent á að í aðalskipulagi segir að hámarks nýtingarhlutfall á frístundasvæðum sé ,,um það bil 0,05’’. Minnstu lóðir innan skipulagssvæðisins eru rétt rúmalega 5.000 m2 og hámarks byggingarmagn er 300 m2. Nýtingarhlutfall minnstu lóðana er því rétt undir 0,06 en í flestum tilfellum er nýtingarhlutfallið um 0,05-0,055. Sveitarfélagið leggur þá túlkun í aðalskipulag sveitarfélagsins að þessi frávik séu innan marka, enda talan 0,05 sett sem viðmið óháð aðstæðum og forsendum.
Athugasemd 10: Ekki hefur verið upplýst um það í núverandi tillögu hvort er að sjá að Fjósatunga L153228 hafi verið leyst úr landbúnaðarnotum sbr. 6. grein jarðalaga. Lóðir sem skipt hefur verið úr bújörðinni gegnum tíðina hafa verið leystar úr landbúnaðarnotum en ekki er að sjá að það hafi verið gert þegar frístundasvæði F-23 var skilgreint í landi Fjósatungu við gerð aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022. Flokkun landbúnaðarlands liggur ekki fyrir í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar og því þarf sveitarfélagið skv. ákvæðum jarðalaga að óska eftir umsögn ráðunautar um viðkomandi land þar sem leggja skal mat á stærð lands, staðsetningu lands, ræktunarskilyrði, ræktun sem þegar er þar stunduð eða er fyrirhuguð og hvort breyting á landnotkun hafi áhrif á aðliggjandi landbúnaðarsvæði áður en hægt er að leysa landið úr landbúnaðarnotum. Hollvinur landbúnaðarins gæti tekið þá afstöðu í máli Fjósatungu að krefjast þess að ákvæðum jarðalaga verði fylgt til hins ýtrasta í þessum efnum. Núverandi ríkisstjórn hefur svo í hyggju að setja lög um bújarðir sem væntanlega munu marka samræmda stefnu um hvaða landbúnaðarland beri að varðveita ? frumvarp var á samráðsgátt sl. vetur. Er viðbúið að boðuð löggjöf þrengi enn frekar heimildir til að ráðstafa lanbúnaðarlandi til annars en búvöruframleiðslu með óafturkræfum hætti. Verður að ætla að sveitarstjórn taki þessi atriði til sérstakrar umfjöllunar og stefnumörkunar í sveitarfélaginu um sambærileg mál. Að mati undirritaðra kunna breytingar sem orðið hafa á þessu frá því málið var afgreitt hinu fyrra sinni að gefa aukið tilefni til þess að málið sé sett á dagskrá með gögnum, þar sem hér eru þá komin fram ný gögn frá því málið var afgreitt 25. júní 2020.
Svar: Í svari frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá 13. nóvember 2020 kemur fram að ekki sé ástæða til að sporna við þeirri þróun byggðarlagsins sem breyting á skipulagi þess hefur í för með sér og samþykkti þá ráðuneytið að heimilt sé að breyta landnotkun 60 hektara landi í Fjósatungu, Þingeyjarsveit, úr landbúnaðarlandi. Gert var ráð fyrir þeirri heimild við samþykkt aðalskipulags árið 2011 og vinnu tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggðar frá upphafi. Sú staðreynd að landið sé formlega tekið úr landbúnaðarnotum breytir því ekki forsendum tillögunnar eða hefur áhrif á afgreiðslu sveitarstjórnar.
Athugasemd 11: Framkvæmd af þessu tagi sem fyrirhuguð er virðist falla undir ákvæði gr. 5.3.2.19 í skipulagsreglugerð, um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 12.05 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum 106/2000, þ.e.a.s. „Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis, orlofsþorp, hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis.“. Eðlilegt er að líta á 60 frístundahús sem ígildi orlofsþorps. Þ.a.l. er framkvæmdin B-framkvæmd sem tilkynna ber til Skipulagsstofnunar, sem ákveður svo hvort umhverfismat skuli fara fram. Ekki liggur fyrir hvort afstaða Skipulagsstofnunar liggur fyrir um þetta eða hvort leitað hafi verið afstöðu stofnunarinnar um þetta. Auk þess þá gæti framkvæmdin fallið undir lið 1.01 í 1. viðauka: „Framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli sem taka til 20 ha eða stærra landsvæðis“ sem líka telst vera B-framkvæmd. Það er reyndar ekki alveg skýrt hvað átt er við með „endurskipulagningu“, t.a.m. hvort þar sé átt við ASK eða DSK breytingu. Í EB tilskipuninni sem viðaukinn á uppruna sinn í heitir þetta „Projects for the restructuring of rural land holdings“ og af því orðalagi verður dregin sú ályktun að ætla að matsskylduna eigi að meta samhlið framkvæmdinni frekar en samhliða ASK breytingunni. Í skipulagsreglugerð gr. 5.3.2.19 segir að þegar álit skipulagsstofnunar liggi fyrir, skuli taka afstöðu til þess hvort skilyrði sem kunna að liggja fyrir í álitinu skuli tekin inn í deiliskipulagið sem skipulagsskilmálar. Af þessu verður ekki annað ráðið að en að leita þurfi umsagnar Skipulagsstofnunar um hvort skipulagsáformin og framkvæmdirnar falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum áður en hægt er að afgreiða deiliskipulagið frá sveitarfélaginu og það taki gildi. Verður ekki sé annað en að rannsóknarregla stjórnsýslulaganna, um að mál verði nægjanlega upplýst áður en ákvörðun verði tekin í því, eigi hér við ? og mál verði ekki talið nægjanlega vel rannsakað eða upplýst, án þess að kannað sé fyrst hvort fyrirhuguð skipulagsáætlun og framkvæmdir samkvæmt þeim séu háð mati á umhverfisáhrifum. Afstaða sveitarfélagsins að þessu leyti sem birtist í svörum við athugasemdum í fyrri umferð málsins, ber með sér að sveitarfélagið er öruggt á þeirri túlkun að athugasemdir okkar eigi sér ekki lögmæta stoð. Þessu erum við ósammála.
Svar: Í svari við athugasemd sem barst í fyrra skiptið sem tillagan var auglýst þá kom fram að Frístundabyggð af þessi tagi fellur ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum eða lög um umhverfismat áætlana. Ekki er um að ræða orlofsþorp heldur hefðbundna frístundabyggð og því fellur skipulagið ekki undir lið 12.05 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum 106/2000. Þá fellur skipulag frístundabyggðar ekki undir lið 1.01 um endurskipulagningu landareignar í dreifbýli í sömu lögum því sá liður tekur til landbúnaðar, skógræktar eða fiskeldis. Að auki hefur verið gert ráð fyrir frístundabyggð á landi Fjósatungu í aðalskipulagi frá árinu 2010 og því er ekki um endurskipulagningu lands að ræða sem felur í sér breytta landnotkun.
Hér hafa verið settar fram helstu athugasemdir og umsagnir um þá deiliskipulagstillögu sem til kynningar er. Óskað er eftir því að sveitarfélagið taki málefnalega afstöðu til þeirra athugsemda og álitaefna sem getið er um í umsögn þessari, taki tillit til þeirra við áframhaldandi vinnslu málsins og geri kröfu um nánari útfærslur eftir því sem nauðsynlegt er, til að mynda um hvort deiliskipulagsbreytingin sé í samræmi við „óverulegar breytingar“ sem gerðar voru á aðalskipulagi árið 2012, sérstakur gaumur verði gefin fráveitumálum og öðrum veitum. Undirrituð hafa ekki tekið til skoðunar hvort DSK áætlunin samræmis svæðisskipulag, en vera kann að skoða þurfi það sérstaklega m.t.t. þéttleika byggðarinnar og þeirrar heildarmyndar sem ætlað er að skapa þegar öll skipulagsáformin eru komin til framkvæmdar. Undirrituð óska eftir að fá að fylgjast með afgreiðslu málsins hjá sveitarfélaginu, hvernig brugðist verði við athugsemdum þessum og hvort fram hafi komið athugasemdir við tillöguna sem kalla á að henni verði breytt í þeim mæli að nauðsyn beri til að auglýsa tillöguna að nýju. Í þessari umsögn hefur verið aukið við fyrri athusemdir, en aðrar felldar út eftir því sem efni er til.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu. Jafnframt leggur nefndin til að skipulagsfulltrúa verði falið að sjá um málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar í samræmi við lög og reglugerðir.
|