29. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd 2022-2026

16.10.2024

29. fundur

Skipulagsnefnd 2022-2026

haldinn í Seiglu miðvikudaginn 16. október kl. 09:00

Fundarmenn

Knútur Emil Jónasson
Nanna Þórhallsdóttir
Haraldur Bóasson
Sigurður Böðvarsson
Jóna Björg Hlöðversdóttir

Starfsmenn

Rögnvaldur Harðarson
Ingimar Ingimarsson
Anna Bragadóttir

Fundargerð ritaði: Anna Bragadóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá:
 
1. Kvíaból, skógrækt - umsókn um framkvæmdaleyfi - 2409041
Sótt er um framkvæmdaleyfi til skógræktar í landi Kvíabóls í Kinn. Svæðið er 54,7 ha og er meginmarkmið að byggja upp skógarvistkerfi og góðan timburskóg með viðarafurðir sem meginmarkmið. Helstu tegundir sem verður plantað er lerki, stafafuru, birki og greni.
Sumarið 2024 voru gróðursettar 53.031 planta en ráðgert er að planta rúmlega 123.000 plöntum. Einnig voru lagðir 1.200 m af vegslóðum ásamt því að plægja upp landið til að undirbúa það fyrir plöntun.
Skipulagsnefnd harmar að farið hafi verið af stað í skógrækt á svæðinu án framkvæmdarleyfis og án þess að áformin hafi verið kynnt sveitarfélaginu eins og kveðið er á um í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar, sem bendir til þess að leiðbeiningum ráðgefandi samningsaðila til landeigenda hafi verið ábótavant.
 
Skipulagsnefnd telur framkvæmdina vera í samræmi við aðra skógrækt í nágrenninu.
 
Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna áformin fyrir nágrönnum og leita umsagna Umhverfisnefndar m.t.t. kafla 4.8.3 í gildandi aðalskipulagi, Minjastofnunar og Náttúruverndarnefndar Þingeyinga um framkvæmdina.
Samþykkt
 
2. Dæluhús Helgavog- umsókn um byggingarleyfi - 2410015
Sótt er um byggingarleyfi til að klæða gamla dæluhúsið við Helgavog í Mývatnssveit að utan og setja á það einhalla þak.
Skipulagsnefnd samþykkir að grenndarkynna áformin næstu nágrönnum samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Einnig skal óskað eftir umsögn Umhverfisstofnunar.
Byggingafulltrúa er falið að gefa út byggingraleyfi ef engar athugasemdir berast við grenndarkynningu, að fenginni jákvæðri umsögn umsagnaraðila og þegar fullnægjandi gögn hafa borist.
Samþykkt
 
3. Hróarstunga 3 - umsókn um byggingarleyfi fyrir Bílskúr - 2409060
Sótt er um byggingarleyfi fyrir bílskúr að stærð 45 m2 á lóð nr. 3 við Hróarstungu. Í gildi er deiliskipulag Hróarsstaða frá 1996 sem sýnir legu byggingarreita án hnitsetningar.
Fyrirhuguð staðsetning bílskúrsins er ekki í samræmi við deiliskipulag en skv. 3. mgr. 43. gr skipulagslaga getur sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.
Við umsókn um byggingarleyfi frístundahúss á lóðinni voru þau ákvæði laganna nýtt og leitað var undanþágu frá frá gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 vegna lágmarks fjarlægð mannvirkja frá vatni. Innviðaráðuneytið féllst á undanþáguna í bréfi 3. apríl 2023.
Skipulagsnefnd samþykkir að veita byggingarleyfi og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna þess eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um þegar tilskilin gögn hafa borist. Undanþága innviðaráðuneytisins varðandi fjarlægð frá Fnjóská frá 3. apríl 2023 gildir varðandi færslu byggingarreitsins.
Samþykkt
 
4. Lundarbrekka 3A umsókn um lögbýlisskráningu - skipulagsmál - 2410013
Erindi dagsett 3. október 2024 þar sem Karl Freyr Karlsson óskar eftir að sveitarfélagið veiti umsögn til ráðuneytisins, hvort Lundarbrekka 3A uppfylli skilyrði til lögbýlisskráningar. Landeigandi áformar að gera samning við Land og skóg um skógrækt að á jörðinni og er eitt skilyrða fyrir samningsgerð að jörðin sé skráð sem lögbýli í lögbýlaskrá.
Einnig er sótt um að jörðin fái staðfangið Lundarbrekka IV.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að Lundarbrekka 3A verði að lögbýli. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að fela skipulagsfulltrúa að skila inn umsögn sveitarfélagsins til ráðuneytisins.
 
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við breytingu staðfangs jarðarinnar í Lundarbrekka 4, og telur nýtt staðfang samræmast reglugerð um skráningu staðfanga nr. 577/2017. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að fela byggingafulltrúa að ganga frá breytingunni.
 
Skipulagsnefnd bendir umsækjanda á að kynna þurfi skógræktaráform sveitarfélaginu og sækja um framkvæmdaleyfi.
Samþykkt
 
5. Merkjagróf 1 og 3 - umsókn um breyttar stærðir lóða - 2410016
Tekin fyrir umsókn frá Guðmundi H. Gunnarssyni merkjalýsanda um breytta stærð lóðanna Merkjagrófar 1 og 2. Í gildi er deiliskipulag Hróarsstaða sem nær yfir lóðirnar frá 1996. Breyting var gerð árið 2011 þar sem lóðastærðum var breytt.
Skipulagsnefnd gerir þá athugasemd við merkjalýsingu að þó merki hennar séu í samræmi við gildandi deiliskipulag þá þarf einnig að breyta aðliggjandi lóðamörkum. Málinu er frestað og óskað eftir uppfærðum gögnum. Nefndin bendir á að æskilegt sé að uppfæra umrætt deiliskipulag.
 
Samþykkt
 
6. Vogar 1, ferðaþjónustuhús - breyting á skipulagi - 2409034
Tekin fyrir beiðni frá Ólöfu Þ. Hallgrímsdóttur f.h. Vogabús ehf. um heimild til breytingar á deiliskipulagi Voga 1, ferðaþjónustusvæði og frístundabyggð vegna fimm ferðaþjónustuhúsa. Óskað er eftir byggingarreit til að rúma allt að fimm 50 m2 ferðaþjónustuhús. Þremur þeirra var veitt stöðuleyfi til eins árs á fundi skipulagsnefndar þann 13. maí 2024 og verður breytingin þannig að þau fái varanlega stöðu ásamt tveimur í viðbót.
Málinu var frestað á fundi skipulagsnefndar þann 18. september 2024.
Skipulagsnefnd samþykkir að heimila að unnin verði breyting á deiliskipulagi fyrir fimm hús í Vinkilsrjóðri. Nefndin kallar eftir uppfærðu og heildstæðu deiliskipulagi af ferðaþjónustuhluta svæðisins.
 
Samþykkt
 
7. Bárðardalsvegur vestri - umsagnarbeiðni vegna matstilkynningar - 2409056
Tekin fyrir beiðni frá Skipulagsstofnun um umsögn til ákvörðunar um matsskyldu vegna fyrirhugaðrar framkvæmda sem felst í vegbótum á um 3 km kafla milli Hringvegar skammt sunnan brúar yfir Hrúteyjarkvísl, að heimreið við Öxará í Bárðardal. Ný tvíbreið brú verður byggði vð Öxará og vegurinn lagður klæðningu.
Skipulagsnefnd telur að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðum. Skipulagsnefnd telur að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Framkvæmdin er framkvæmdaleyfisskyld. Vakin er athygli á að auglýsing á að tillögu nýs aðalskipulags hefur ekki farið fram en vinnslutillaga þess var kynnt í upphafi árs. Málinu vísað til sveitarstjórnar.
Samþykkt
 
8. Norðausturvegur um Skjálfandafljót í Kinn - umsagnarbeiðni, kynning matsáætlunar - 2410017
Tekin fyrir beiðni frá Skipulagsstofnun um umsögn um kynningu matsáætlunar vegna fyrirhugaðrar framkvæmda sem felst í vegagerð á um 9-10 km löngum kafla Norðausturvegar (85) um Skjálfandafljót í Kinn, milli Torfuness í Kaldakinn og Tjarnar í Aðaldal, háð vali á veglínu. Í framkvæmdinni felst, auk vegagerðar, bygging nýrra tveggja akreina brúa á Skjálfandafljót og Rangá og lagfæring á vegamótum Norðausturvegar (85) og Aðaldalsvegar (845) við Tjörn í Aðaldal. Tveir valkostir eru lagðir fram. Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi vegfarenda og tryggja greiðari samgöngur.
Skipulagsnefnd gerir athugasemd við leiðarval B í matsáætlun þar sem kominn er fram valkostur sem ekki var til umfjöllunar við ákvörðun um matsskyldu sem tekin var fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 17.01.2024.
 
Málið á sér langa sögu og hefur verið unnið mjög ýtarlega á öllum stjórnsýslustigum í samstarfi Vegagerðarinnar og landeigenda. Niðurstaða þeirrar vinnu var leiðarval A sem síðast var samþykkt í sveitarstjórn 26.01.2023.
 
Málinu vísað til sveitarstjórnar.
Samþykkt
 
 
Fundi slitið kl. 12:00.
 
 
Fyrirvari:
Athugið að afgreiðslur nefnda þarfnast almennt staðfestingar sveitarstjórnar, nema í þeim tilfellum þar sem nefnd hefur verið veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í samþykktum sveitarfélagsins.