5. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd 2022-2026

20.10.2022

5. fundur

Skipulagsnefnd 2022-2026

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 20. október kl. 09:00

Fundarmenn

Agnes Einarsdóttir
Einar Örn Kristjánsson
Knútur Emil Jónasson
Jóna Björg Hlöðversdóttir

Starfsmenn

Atli Steinn Sveinbjörnsson og Helga Sveinbjörnsdóttir. 

Fundargerð ritaði: Atli Steinn Sveinbjörnsson

Dagskrá:

1. Fjósatunga - deiliskipulag - 1905026
2. Syðra Fjall 2 - Umsókn um framkvæmdaleyfi til Skógræktar - 2208022
3. Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 - 2210001
4. Stekkur - umsókn um byggingarheimild - 2210017
5. Aðalskipulag Skaftárhrepps 2019-2031 - Heildarendurskoðun - 2210024

1.

Fjósatunga - deiliskipulag - 1905026

 

Tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi Fjósatungu - frístundabyggð frá Ómari Ívarssyni dags. 12. október 2022. Deiliskipulag var unnið fyrir svæðið árin 2019-2020 og samþykkt til gildistöku þann 23. september 2021. Samþykkt deiliskipulagsins var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi úr gildi gildistöku skipulagsins með úrskurði nr. 179/2021 vegna annmarka í skilmálum um nýtingarhlutfall og fráveitu. Uppfærð tillaga liggur nú fyrir.
Skipulagssvæðið afmarkast af hluta þess svæðis sem skilgreint er fyrir frístundabyggð á jörðinni skv. gildandi aðalskipulagi. Þar segir að 60 ha svæði sé skilgreint sem frístundabyggð í Fjósatungu og er svæðið staðsett í hlíðinni sunnan við bæjarstæðið í Fjósatungu. Svæðið nær að gili ofan bæjarhúsanna í Fjósatungu í norðri, að bakka neðan hlíðarinnar í austri, að Grjótá í suðri og upp í um 250 m hæð í vestri. Tillaga að deiliskipulagi Fjósatungu - frístundabyggð gerir ráð fyrir 44 lóðum fyrir frístundahús með 250 fm hámarksgrunnflöt. Í skipulagslýsingu fyrir verkefnið var gert ráð fyrir því að skipuleggja allt 60 ha svæðið fyrir 60 frístundalóðir en síðar var ákveðið að skipuleggja svæðið í tveimur áföngum þar sem fyrirliggjandi minjaskráning nær aðeins til suðurhluta svæðisins.

 

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að leita samráðs við nágranna og kynna tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu - frístundabyggðar, forsendur hennar og umhverfismat, íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum í samræmi við 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Samþykkt

     

Atli Steinn Sveinbjörnsson vék af fundi undir þessum lið vegna vanhæfis.

2.

Syðra Fjall 2 - Umsókn um framkvæmdaleyfi til Skógræktar - 2208022

 

Tekin fyrir að nýju umsókn frá Sveinbirni Sigurðssyni um heimild til skógræktar að Syðrafjalli II, Aðaldal. Erindið var síðast tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 24. ágúst þar sem bókað var að byggingarfulltrúa yrði falið að leita umsagna Minjastofnunar og Náttúruverndarnefndar Þingeyinga um framkvæmdina.

 

Umsagnir sem bárust frá Minjastofnun og Náttúruverndarnefnd Þingeyinga gefa ekki tilefni til breytinga á áformunum að mati nefndarinnar.
Þar sem skipulagsfulltrúi er vanhæfur í málinu leggur skipulagsnefnd til við sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að gefa út framkvæmdaleyfi vegna skógræktar að Syðra Fjalli II. Í framkvæmdaleyfinu skal þess gætt að 15 m fjarlægð verði haldið frá skráðum fornminjum og ekki plantað í vistkerfi sem hefur hátt verndargildi í samræmi við umsögn Náttúruverndarnefndar Þingeyinga.

     

3.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 - 2210001

 

Tekið fyrir erindi dags. 3.október 2022 frá skrifstofu Alþingis þar sem óskað er umsagnar Þingeyjarsveitar um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010, 144.mál.
Upphaflega var óskað eftir því að umsögn bærist eigi síðar en 17.október nk. en frestur hefur verið veittur til 21.október nk.

 

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna að umsögn í samræmi við umræður á fundinum.

 

Samþykkt

     

4.

Stekkur - umsókn um byggingarheimild - 2210017

 

Tekin fyrir umsókn dags. 9. október 2022 frá Jóni Ingasyni og Aðalheiði Kjartansdóttur þar sem sótt er um stöðuleyfi fyrir frístundahús í landi Vatnsenda og svo byggingarleyfi fyrir sama húsi á frístundalóðinni Stekk við Ljósavatn.

 

Skipulagsnefnd samþykkir að veita stöðuleyfi í landi Vatnsenda fyrir frístundahúsi til flutnings til 12 mánaða. Umsækjandi skal tryggja eldvarnir og aðgang slökkviliðs. Nefndin felur byggingarfulltrúa að gefa út stöðuleyfið.

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna byggingaráformin fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 2.mgr. 43.gr skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um. Skipulagsfulltrúa er falið að leita til Innviðaráðuneytisins fyrir undanþágu frá gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem segir að utan þéttbýlis skuli ekki reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m.

 

Samþykkt

     

5.

Aðalskipulag Skaftárhrepps 2019-2031 - Heildarendurskoðun - 2210024

 

Tekið fyrir erindi frá Ólafi Elvari Júlíussyni f.h. Skaftárhrepps þar sem óskað er umsagnar við tillögu að Aðalskipulag Skaftárhrepps 2019-2031. Þess var óskað að athugasemdir bærust fyrir 4.okt s.l.

 

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulag Skaftárhrepps 2019-2031.

 

Samþykkt

     

6.

Skipulagsnefnd - Önnur mál - 2208021

 

Skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi fóru yfir mál á sínu borði. Vinna við endurskoðun aðalskipulags er í fullum gangi og unnið er úr tillögum landeigenda og hagsmunaaðila um áform í nýju aðalskipulagi. Byggingarfulltrúi upplýsir nefndina um stöðu framkvæmda við uppbyggingu við Jarðböðin.

 

Lagt fram