Fundargerð
Skipulagsnefnd 2022-2026
04.02.2016
74. fundur
Skipulagsnefnd 2022-2026
Skipulags- og umhverfisnefnd – 04.02.2016
_________________________________________________________________________
74. fundur.
4. febrúar 2016 kl. 10:00 -11:50
Fundarstaður: Kjarni
__________________________________________________________________________
Fundarmenn: Starfsmenn:
Ásvaldur Ævar Þormóðsson, form. Bjarni Reykjalín, skipulags- og byggingarfulltrúi
Jóhanna Sif Sigþórsdóttir (fundarritari)
Nanna Þórhallsdóttir
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Sæþór Gunnsteinsson
Dagskrá:
1. Norðausturvegur um Skjálfandafljót. S20120603
Tekið fyrir að nýju erindi sem áður var á dagskrá skipulags- og umhverfisnefndar á 39. fundi hennar 20. desember 2012 og 50. fundi hennar 11. desember 2013. Á fundinn koma eftirfarandi starfsmenn Vegagerðarinnar, Gunnar Helgi Guðmundsson, svæðisstjóri, og Guðmundur Heiðreksson, tæknifræðingur, og kynna þeir skýrslu þar sem settar eru fram hugmyndir að nýjum vegstæðum (veglínum) ásamt lauslegu kostnaðarmati og umhverfisáhrifum mismunandi valkosta. Á 50. fundi nefndarinnar var eftirfarandi fært til bókar:
Skipulags- og umhverfisnefnd fagna því að nú sjái fyrir endann á vinnu Vegagerðarinnar við tillögugerð að nýju vegarstæði á Norðausturvegi (Torfunes-Tjörn) yfir Skjálfandafljót. Nefndin leggur áherslu á að endanlegar tillögur liggi fyrir eins fljótt og kostur er svo hægt verði að ráðast í viðkomandi breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022, einkum þar sem búast má við aukinni þungaumferð um sveitarfélagið vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Bakka við Húsavík sem mun að öllum líkindum kalla á nýja brú yfir Skjálfandafljót.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún heimili nefndinni að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi þar sem valkostir Vegagerðarinnar verði teknir til nánari umfjöllunar.
2. Vaglaskógur. Deiliskipulag. S20150402
Tekið fyrir að nýju erindi dags 10. apríl frá Landslagi efh, Ómari Ívarssyni, skipulagsfræðingi, f.h. Skógræktar ríkisins þar sem óskað er eftir heimild skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að hefja vinnu við deiliskipulag fyrir Stórarjóður og Hróarsstaðanes ásamt svæði umhverfis verslun í Vaglaskógi. Deiliskipulagið felur m.a. í sér að skilgreina fyrirkomulag tjaldsvæða, snyrtinga, göngustíga, áningarstaða, leiksvæða og bílastæða á svæðunum ásamt því að staðsetja áningarbyggingu og mögulega þjónustubyggingu á svæðinu. Með umsókn fylgdi skipulagslýsing dags. 10. apríl 2015.
Sveitarstjórn heimilaði umsækjanda að vinna deiliskipulag á fundi sínum þann 30. apríl s.l. og deiliskipulagslýsing var kynnt Skipulagsstofnun, umsagnaraðilum og fyrir almenningi frá og með 7. maí til og með 28. maí 2015 eins og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um. Tekið var tillit til umsagna í vinnu við deiliskipulagið.
Innkomin ný gögn 15. október s.l. tillaga að deiliskipulagi ásamt greinargerð dags. 12. október 2015.
Sveitarstjórn samþykkti þann 29. október 2015 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og var hún auglýst eins og og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um frá og með 6. nóvember til og með 18. desember 2015. Athugasemdir/umsagnir bárust frá Vegagerðinni, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Minjastofnun Íslands og Umhverfisstofnun.
Erindið var áður á dagskrá nefndarinnar 7. janúar s.l. en þá voru kynntar athugasemdir sem fram höfðu komið á auglýsingartíma tillögunnar.
Vegagerðin, 9. nóvember.
Athugasemdir: |
Svör skipulags- og umhverfisnefndar: |
„Varðandi tillöguna fyrir Vaglaskóg eru ekki gerðar athugasemdir við bílastæðið við verslunina. Vegagerðin getur hins vegar alls ekki fallist á tillöguna varðandi þau bílastæði sem fyrirhuguð eru meðfram Vaglaskógarveginum, á móts við Stórarjóður og Hróarsstaðanes, sem teiknuð eru án aðskilnaðar frá veginum.“
|
Vegna athugasemdar var fundað með fulltrúum Vegagerðarinnar þar sem lagðar voru fram tillögur að útbótum. Þær breytingar sem voru gerðar á deiliskipulaginu eru eftirfarandi: Bílastæðum meðfram Vaglaskógarvegi á móts við Hróarsstaðanes er breytt á þann hátt að gert er ráð langstæðum meðfram veginum í stað bílastæðavasa sem voru þvert á veginn. Með þessari breytingu munu bílar ekki bakka beint út á þjóðveginn heldur aka inn á hann frá langstæðum sem eru samsíða veginum. Langstæði þessi verða að lágmarki 3 m að breidd til að skapa svæði umhverfis bíla til að komast að og frá þeim.
Bílastæðum meðfram Vaglaskógarvegi við sunnanvert Stórarjóður er breytt á þann hátt að gert er ráð langstæðum meðfram veginum í stað bílastæðavasa sem fyrir eru. Með þessari breytingu munu bílar ekki bakka beint út á þjóðveginn heldur aka inn á aðskilið bílastæði með langstæðum. Syðst á aðskilda bílastæðinu verður snúningshaus fyrir rútur og stærri bíla. Gert er ráð fyrir bílastæði sem er aðskilið frá þjóðveginum suðaustan við gatnamót þjóðvegar og aðkomuvegar að Vöglum. Breytingar þessar voru unnar í samráði við Vegagerðina. |
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, 18. nóvember.
Athugasemdir/umsagnir: |
Svör skipulags- og umhverfisnefndar: |
„Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur kynnt sér meðfylgjandi gögn varðandi deiliskipulag í Vaglaskógi og gerir ekki athugasemdir við gögnin sem slík. Athygli er vakin á öryggiskröfum sem gilda um leiksvæði barna og mikilvægi þess að haft verði samráð við heilbrigðisfulltrúa um nánara skipulag slíkra svæða og staðsetningu og val leiktækja m.t.t. til slysa- og fallhættu.“
|
Umsögn gefur ekki tilefni til svars. |
Minjastofnun Íslands, dags 21.desember
Athugasemdir: |
Svör skipulags- og umhverfisnefndar: |
„...........Í Vaglaskógi þarf að rannsaka með uppgreftri og sýnatöku þær kolagrafir sem eru í hætti vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Á skipulagsuppdrættinum má sjá kolagrafir við jaðar fyrirhugaðs tjaldsvæðis í Stóra Rjóðri, innan tjaldsvæðis á Hróarsstaðanesi og innan „Dvalarsvæðis“ við verslun. Samkvæmt greinargerð eru aðeins þrjár kolagrafir í hættu vegna skipulagsins ( kafli 2.8 ), en Minjastofnun telur að skoða verði vel hvort þær kolagrafir sem eru innan tjaldsvæða geti einnig verið í hættu, vegna framkvæmdanna eða vegna ágangs ferðamanna á skipulagssvæðunum.“
|
Í deiliskipulagi eru eftirfarandi skilamálar í kafla um varðveislu minja (2.8). Með öllu er óheimilt að ráðast í framkvæmdir í nánd við minjar nema að undangengnu samráði við Minjastofnun Íslands, sbr. 23. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 sem sjá má hér að ofan.
|
Umhverfisstofnun, dags 18. desember
(Útdráttur. Athugasemdir UST eru í heild sinni hluti af gögnum málsins)
Athugasemdir: |
Svör skipulags- og umhverfisnefndar: |
Skipulagssvæðið: „......... Að mati Umhverfisstofnunar þarf að breyta aðalskipulagi Þingeyjarsveitar þar sem opið svæði til útivistar breytist í svæði fyrir verslun og þjónustu. Umhverfisstofnun bendir á að skv. skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal nota þá liti og tákn fyrir landnotkunarflokka sem fram koma í töflu 7.1.“
|
Í aðalskipulagi er eftirfarandi umfjöllun um opið svæði til sérstakra nota / tjaldsvæðið í Vaglaskógi (O-02): Í Vaglaskógi í Fnjóskadal eru rekin tjaldsvæði og kjósa margir að eiga tjaldhýsi eða hjólhýsi sumarlangt á föstum svæðum í skóginum. Þar er heitt og kalt vatn, hægt að komast í rafmagn, salernis- og sturtuaðstaða og losunaraðstaða fyrir ferðasalerni. Lítil verslun er á staðnum þar sem helstu nauðsynjavörur eru seldar yfir sumartímann. Í aðalskipulagi er samtals um 4 ha í Vaglaskógi skilgreint sem „opið svæði til sérstakra nota / tjaldsvæði“. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á svæðinu nema að hér geti komið auka þjónustuhús, verði þörf á því. Skv. tillögu að deiliskipulagi er eftir sem áður gert ráð fyrir tjaldsvæði innan þess svæðis sem í aðalskipulagi er skilgreint sem opið svæði til sérstakra / tjaldsvæðið í Vaglaskógi. Helstu framkvæmdir eru þær að gert er ráð fyrir þjónustubyggingu innan tjaldsvæðisins en skv. skilmálum hér að ofan er heimild fyrir því í aðalskipulagi. Vegna þessa er talið að tillaga að deiliskipulagi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.
|
Vaglaskógur. „.............Í greinargerð segir að ofangreint deiliskipulag falli ekki undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana nr. 105/2006 segir í 3. gr. um gildissvið laganna að: „Ákvæði laga þessara gilda um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.“ Umhverfisstofnun bendir á að í 1. viðauka laga nr. 106/2000 í lið 12.05 kemur fram að þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis, orlofsþorp, hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis séu í flokki B. Skv. lögunum eru í flokki B tilgreindar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mat á umhverfisáhrifum skv. lögunum. Í greinargerð segir að Ríkissjóður hafi keypt bæinn Vagla gagngert til að friða skóginn. Birkiskógar falla skv. lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 undir sérstaka vernd, því fellur svæðið undir skilgreininguna náttúruverndarsvæði.“
|
Í greinargerð deiliskipulagsins er í sumum tilfellum fjallað um þjónustumiðstöð í Stórarjóðri en í öðrum tilfellum þjónustubygginu í Stórarjóðri. Það sem aðeins er um að ræða byggingu sem þjónustar tjaldsvæðið í Vaglaskógi verður greinargerðin lagfærð á þann hátt að í öllum tilfellum er fjallað um þjónustubyggingu í Stórarjóðri. Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir þjónustubyggingu sem mun eingöngu þjónusta tjaldsvæðið í Vaglaskógi. Ekki er um að ræða þjónustumiðstöð og því er ekki talið að framkvæmdin falli undir lið 12.05 í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og falli því ekki undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.
|
Stórarjóður og Hróarsstaðanes. „.............Að mati Umhverfisstofnunar þyrfti að koma fram á hve stóru svæði er ætlað að ryðja skóg. Einnig bendir stofnunin á að hluti af töfrum skógar er lægri gróður. Að mati Umhverfisstofnunar felur deiliskipulagið í sér að ryðja þarf skóg svo fólk geti kynnst honum betur. Að mati Umhverfisstofnunar færi betur á því að fólk kynnist skóginum með því að ganga um óröskuð skógarsvæði af upprunalegum íslenskum birkiskóg og að lögð sé áhersla á að þróa tjaldsvæði í skógarjaðri og í nágrenni skógar. Að mati Umhverfisstofnunar er mikilvægt að minnka álag á upprunalegan íslenskan birkiskóg og að hann fái að þróast á eigin forsendum.
Náttúruvernd: „Umhverfisstofnun bendir á að í 57. gr. núgildandi náttúruverndarlaga nr. 60/2013 er listi yfir tiltekin vistkerfi er njóta sérstakrar verndar. Þar kemur fram að: „sérstæðir og vistfræðilega mikilvægir birkiskógar og leifar þeirra þar sem eru m.a. gömul tré“, njóta sérstakrar verndar. Í lögunum kemur einnig fram að:“Forðast ber að raska birkiskógum nema brýna nauðsyn beri til. Skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun. Áður en leyfi er veitt skal leyfisveitandi leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggja fyrir. Við mat á leyfisumsókn skal líta til verndarmarkmiða 2. og 3.gr. og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Ákveði leyfisveitandi að heimila framkvæmd skal hann rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega fari hún í bága við niðurstöðu umsagnaraðila. Heimilt er að binda leyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun.“
Umhverfisstofnun telur ekki ásættanlegt að ryðja birkiskóg sem er sérstæður og vistfræðilega mikilvægur eins og Vaglaskógur er, til þess að fá rými fyrir tjaldstæði og bílastæði heldur skuli fara í slíkar framkvæmdir fyrir utan skóginn.“
|
Megnið af þeir gróðri sem mun víkja skv. deiliskipulagi er víðir og annar lægri gróður sem sótt hefur inn á núverandi tjaldflatir undanfarna áratugi. Lögð er áhersla á að halda í falleg birkitré og birkitrjáaþyrpingar eins og kostur er á þeim stöðum sem fjarlægja og grisja þarf gróður. Vaglaskógur er um 300 ha en alls er gert ráð fyrir að ryðja þurfi 0,4 ha af lággróðri sem sótt hefur inn á núverandi tjaldflatir til að stækka flatirnar. Vegna nýrra bílastæða þarf að ryðja um 0,12 ha af skógi. Í vinnu við deiliskipulag var mikil áhersla lögð á að vernda skóginn og eru m.a. þau þrjú nýju leiksvæði sem gert er ráð fyrir í skóginum á flötum þar sem skógur var ekki fyrir. Í Vaglaskógi hefur verið starfrækt tjaldsvæði síðan fyrir miðja síðustu öld og skv. deiliskipulagi er aðeins verið að bæta aðstöðu við núverandi tjaldsvæði. Að flytja tjaldsvæðið í skógarjaðarinn eða út fyrir skóginn og byggja þar upp aðstöðu frá grunni getur varla talist hagkvæmt eða skynsamlegt. Til að upplifa og kynnast skóginum þarf að laða fólk inn í hann og með uppbyggingu skv. deiliskipulagi er verið að gera fólki kleift að dvelja í skóginum og upplifa hann. Vaglaskógur er um 300 ha en svæðin sem deiliskipulagið nær til eru aðeins um 15 ha. Það er því ljóst að álag á upprunalegan birkiskóg skapast ekki með uppbyggingu skv. deiliskipulagi og mun skógurinn eftir sem áður fá að þróast á eigin forsendum.
|
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagið svo breytt verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falin málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins eins og 1. mgr. 42. gr.skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.
3. Illugastaðir. Aðal- og deiliskipulag. S20131001.
Tekið fyrir að nýju. Tillögurnar gera ráð fyrir að svæði sem skilgreint er sem svæði fyrir frístundabyggð í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 stækki úr 19,7 ha í 38 ha. Skipulags- og umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar kynnti tillögur að breytingu á aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar stækkunar á orlofshúsabyggðinni almennum fundi á Illugastöðum í Fnjóskadal 26. maí s.l. Tillögurnar voru kynntar eins og 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæla fyrir um.
Á fundinum komu fram óverulegar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna sem tekið hefur verið tillit til í fyrirliggjandi skipulagsgögnum.
Sveitarstjórn samþykkti þann 18. júní 2015 að auglýsa tillögurnar og voru þær auglýstar samhliða eins og 1. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæla fyrir um frá og með 6. nóvember til og með 18. desember 2015. Athugasemdir/umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Vegagerðinni og Umhverfisstofnun.
Minjastofnun Íslands, 21. desember.
Athugasemdir: |
Svör skipulags- og umhverfisnefndar: |
„............Á Illugastöðum þarf að kanna þann hluta gamla heimatúnsins, sem verður raskað vegna bygginga orlofshúsa en fram kemur í skýrslu um fornleifaskráningu á svæðinu að hluti fyrirhugaðrar orlofsbyggðar nái inn á gömlu heimatúnin.“
|
Inn í kafla 4.12 Fornleifar verður bætt eftirfarandi málsgrein: Með öllu er óheimilt að ráðast í framkvæmdir í nánd við skráðar minjar nema að undangengnu samráði við Minjastofnun Íslands, sbr. 23. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
|
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, 18. nóvember.
Athugasemdir: |
Svör skipulags- og umhverfisnefndar: |
„Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur kynnt sér meðfylgjandi gögn varðandi deiliskipulag á Illugastöðum ásamt aðalskipulagsbreytingu og gerir ekki athugasemdir við gögnin sem slík. Athygli er vakin á öryggiskröfum sem gilda um leiksvæði barna og mikilvægi þess að haft verði samráð við heilbrigðisfulltrúa um nánara skipulag slíkra svæða og staðsetningu og val leiktækja m.t.t. til slysa- og fallhættu.“
|
Umsögn gefur ekki tilefni til svars. |
Vegagerðin, 9. nóvember.
Athugasemdir: |
Svör skipulags- og umhverfisnefndar: |
Ekki eru gerðar athugasemdir við skipulagstillöguna fyrir Illugastaði.
|
Umsögn gefur ekki tilefni til svars. |
Umhverfisstofnun, 17. desember.
Athugasemdir: |
Svör skipulags- og umhverfisnefndar: |
„Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemd við deiliskipulag orlofsbyggðar að Illugastöðum |
Umsögn gefur ekki tilefni til svars. |
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagið svo breytt og tillaga að breytingu á aðalskipulagi verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falin málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins og breytingar á aðalskipulagi eins og skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um.
4. Miðhvammur í Aðaldal. Deiliskipulag. S20160102
Erindi dags. 26. janúar 2016 frá Ómari Ívarssyni hjá Landslagi ehf, f.h. Ara Heiðmanns Jósavinssonar þar sem sótt er um heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir þrjú frístundahús á jörðinni Miðhvammi skv. meðfylgjandi skipulagslýsingu frá Landslagi ehf.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsækjanda verði heimilað að vinna tillögu að deiliskipulagi á sinn kostnað skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að leita umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi eins og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.
5. Laxárvirkjun III. Breyting við inntak stöðvarinnar. S20160103
Erindi dags. 25. janúar 2016 frá Einari Erlingssyni f.h. Landsvirkjunar þar sem þar sem kynntar eru fyrirhugaðar framkvæmir við breytingu á inntaki Laxárvirkjunar III til þess að draga úr rekstrartruflunum sökum mikils krapa og aurburðar í Laxá. Jafnframt er spurst fyrir um það hvað ítarleg gögnin þurfi til að hægt verði að afgreiða framkvæmdaleyfisumsókn.
Skipulags- og umhverfisnefnd vekur athygli á því að allar framkvæmdir innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár eru háðar lögum og leyfi Umhverfisstofnunar. Nefndin gerir ekki athugasemdir við framkvæmdina á þessu stigi en felur skipulags- og byggingarfulltrúa að afla nákvæmari gagna frá umsækjanda til þess að hægt verði að taka framkvæmdaleyfisumsóknina til formlegrar afgreiðslu. Framkvæmdaleyfisumsóknin verði síðan lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu þegar öll gögn liggja fyrir.
6. Embættisafgreiðslur skipulags og byggingarfulltrúa árið 2015. S20160102
Skipulags- og byggingarfulltrúi leggur fram yfirlit yfir embættisafgreiðslur sínar árið 2015.
Lagt fram til kynningar.
Fundi slitið.