9. fundur

Fundargerð

Skipulagsnefnd 2022-2026

15.02.2023

9. fundur

Skipulagsnefnd 2022-2026

haldinn í Kjarna miðvikudaginn 15. febrúar kl. 09:00

Fundarmenn

Agnes Einarsdóttir, Einar Örn Kristjánsson, Knútur Emil Jónasson, Jóna Björg Hlöðversdóttir og Sigurður Böðvarsson

Starfsmenn

Atli Steinn Sveinbjörnsson

Fundargerð ritaði: Atli Steinn Sveinbjörnsson

Dagskrá:

1. Svartárkot - gróðurhús og fjölnotahús - Umsókn um byggingarleyfi - 2211038
2. Byggingarleyfi að Hróarstungu 3 - 2212011
3. Jarðböðin stækkun - umsókn um byggingarleyfi - 2111009
4. Byggingarleyfi að Skógalandi - 2302003
5. Vogar 1 - breyting á deiliskipulagi - 2208042
6. Þeistareykir - deiliskipulag - 2002013
7. Fyrirspurn frá Verndarfélagi Svartár og Suðurár - 2302011
8. Deiliskipulag Reykjahlíðarþorps - Lóðir 10 og 12 - 2302015

1.

Svartárkot - gróðurhús og fjölnotahús - Umsókn um byggingarleyfi - 2211038

 

Tekin fyrir umsókn frá Guðrún Sigríði Tryggvadóttur dags. 24. maí 2022 um byggingarleyfi fjölnotahúss og gróðurhúss að Svartárkoti Bárðardal. Um er að ræða 183 fm byggingu með burðarvirki úr timbri. Fyrir liggur afstöðu- og útlitsmynd.

 

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna áformin fyrir nágrönnum og hagsmunaaðilum í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Berist ekki athugasemdir í grenndarkynningu er byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi þegar tilskilin gögn hafa borist.

 

Samþykkt

     

Knútur vekur athygli á mögulegu vanhæfi og víkur af fundi.

2.

Byggingarleyfi að Hróarstungu 3 - 2212011

 

Tekin fyrir að nýju umsókn dags. 9. desember 2022 frá Almari Eggertssyni f.h. Einars Héðinssonar um byggingarleyfi að Hróarstungu 3, Fnjóskadal. Á fundi nefndarinnar 18. janúar s.l. var skipulagsfulltrúa falið að leita álits nágranna og hagsmunaaðila við fyrirhuguð áform.

 

Umsögn sem barst við umsagnaleitan gefur ekki tilefni til breytinga á fyrirhuguðum áformum. Skipulagsnefnd telur fyrirhugaða breytingu á deiliskipulagi frístundalóða á Hróarsstöðum falla undir 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga þar sem hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Skipulagsfulltrúa er falið að grenndarkynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi frístundahúsa á Hróarsstöðum fyrir nágrönnum og hagsmunaaðilum. Núverandi byggingarreitur hentar illa fyrirhuguðum byggingaáformum. Skipulagsnefnd telur forsvaranlegt að veita undanþágu frá ákvæði skipulagsreglugerðar um lágmarks fjarlægð mannvirkja frá vatni þar sem aðkomuvegur að frístundahúsum á Hróarstungu er milli fyrirhugaðs frístundahúss og Fnjóskár. Hæðarmunur milli fyrirhugaðs frístundahúss og bakka Fnjóskár takmarkar aðgengi að Fnjóská og því mun færsla frístundahússins ekki skerða aðgengi frekar. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að leita undanþágu frá gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

 

Samþykkt

     

Knútur tekur sæti á fundinum að nýju

3.

Jarðböðin stækkun - umsókn um byggingarleyfi - 2111009

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Guðmundi Þór Birgissyni f.h. Jarðbaðanna um heimild til uppsetningu vinnubúða innan lóðar og deiliskipulagsafmörkunar Jarðbaðanna. Erindið var síðast á dagskrá nefndarinnar 18. janúar s.l. þar sem beiðni um að uppsetning vinnubúða á lóð Jarðbaðanna gæti fallið undir 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 var hafnað. Fyrir liggja uppfærð gögn með staðfestri afmörkun lóðar Jarðbaðanna og nánari útfærsla á áformunum.

 

Skipulagsnefnd telur framkvæmdina ekki geta fallið undir það að vera óverulegt frávik frá gildandi deiliskipulagi. Í deiliskipulagi Jarðbaðanna kemur fram að ekki sé þörf fyrir gistirými fyrir verktaka á lóð á framkvæmdartíma. Starfsmannabúðir eru byggingaleyfisskyldar skv. byggingarreglugerð og skal gera grein fyrir þeim í skipulagáætlunum.

 

Samþykkt

     

4.

Byggingarleyfi að Skógalandi - 2302003

 

Tekin fyrir umsókn frá Bergljótu Þorsteinsdóttur dags. 6. febrúar 2023 um byggingarleyfi 40 fm frístundahúss að Skógalandi, Fnjóskadal. Meðfylgjandi erindinu er afstöðumynd.

 

Skipulagsnefnd felur byggingafulltrúa að vera í samskiptum við framkvæmdaaðila og tekur málið fyrir að nýju þegar tilskilin gögn hafa borist.

 

Samþykkt

     

5.

Vogar 1 - breyting á deiliskipulagi - 2208042

 

Tekin fyrir að nýju beiðni um heimild til breytingar á deiliskipulagi Voga 1 dags. 23. ágúst 2022. Áformað er að skilgreinina lóð í landi Bjarkar undir frístundahús, færslu byggingarreits undir þjónustuhús í landi Voga 1 og hliðra aðkomuvegi sem markaður er á gildandi skipulagsuppdrætti. Erindið var síðast tekið fyrir á fundi nefndarinnar 14. desember 2022 þar sem skipulagsfulltrúa var falið að kynna tillöguna og umhverfisskýrslu fyrir nágrönnum og hagsmunaaðilum. Tillagan var kynnt á opnu húsi þann 11. janúar og í kjölfarið auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Tillagan var auglýst með umsagnafresti frá og með 21. desember til og með 3. febrúar 2023. Athugasemdir bárust frá Heilbrigðiseftirlit Norðurlands Eystra, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skógræktinni, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og Minjastofnun Íslands.

 

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands Eystra
Skipulagsáformin fela í sér afmörkun lóðar og byggingarreits fyrir frístundahús og færslu þjónustuhúss vegna gistireksturs. Að auki er fyrirhuguðum aðkomuvegi frá Mývatnssveitarvegi hliðarað til.
Heilbrigðiseftirlit norðurlands eystra hefur kynnt sér ofangreindar breytingar á deiliskipulagi Voga 1 í mývatnssveit, HNE gerir ekki athugasemdir við breytinguna.
Svar skipulagsnefndar
Krefst ekki svars.

Náttúrufræðistofnun Íslands
Breytingin felur fyrst og fremst í sér afmörkun á nýrri lóð fyrir frístundahús innan lóðar Bjarkar. Þá er áfram gert ráð fyrir nýrri aðkomuleið frá þjóðvegi sem er í gildandi deiliskipulagi en hefur ekki verið framkvæmd en leiðinni er breytt lítilega í tillögunni. Einnig er skilgreindur lítill byggingarreitur sunnan aðkomuleiðarinnar fyrir lítið starfsmannahús. Öll áformin munu fela í sér rask á eldhrauni sem nýtur verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd sem og birkikjarri sem vex í hrauninu. Aukning hefur verið á byggingarmagni í nágrenni Voga og hefur sú uppbygging þegar valdið töluverðu raski á hrauni og birkikjarri. Náttúrufræðistofnun telur að gæta þurfi hófsemi í uppbyggingu sem veldur raski á vernduðum náttúruminjum og sem eykur umferð og álag á lífríkis Mývatns en vatnið er í mjög stuttri fjarlægð frá áformuðum byggingum þó Mývatnssveitarvegur skilji þar á milli. Taka þarf tillit til þolmarka viðkvæmrar náttúru svæðisins sem jafnframt er í jaðri Verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Að mati Náttúrufræðistofnunar hefði verið heppilegra að sleppa nýjum aðkomuvegi og nota frekar einfalda tengingu við núverandi veg sem liggur framhjá Vogum 1 og að Björk 3 og Kotasælu. Þannig hefði mátt sleppa að raska stærra svæði. Vissulega er rétt eins og kemur fram í greinargerð að lega vegarins hefur verið valin til að hlífa sem mest hrauni og birkikjarri, en engu að síður hefðu aðrar útfærslur getað leitt til mun styttri aðkomuvegar með minna raski í heild sinni.
Náttúrufræðistofnun gerir ekki frekari athugasemdir við skipulagstillöguna.

Svar skipulagsnefndar
Skipulagsnefnd tekur undir sjónarmið Náttúrufræðistofnunar Íslands um að taka þurfi tillit til þolmarka viðkvæmrar náttúru svæðisins, enda er umhverfi Mývatns á heimsmælikvarða hvað varðar landslag, lífríki og jarðminjar. Landeigendur Bjarkar hafa yfir takmörkuðu landrými að ráða og eiga ekki um annan kost að ræða en að raska hrauni og birkiskógi. Áformað er að fyrirhugað frístundahús verði endurskilgreint sem íbúðarhús þegar nýtt aðalskipulag tekur gildi og er því litið á framkvæmdina sem brýna þörf sem réttlæti röskun á þeim náttúruminjum sem fyrir áhrifum verða. Fyrirhuguð breyting á tengivegi við Mývatnssveitarveg er lítilsháttar í samanburði við gildandi deiliskipulag. Ný vegtenging er nauðsynleg til þess að unnt sé að aðskilja rekstur ferðaþjónustu frá íbúabyggð. Áhersla verður lögð á að lágmarka eins og mögulegt er áhrif á þær náttúruminjar sem fyrir áhrifum verða.

Skógræktin
Birkiskógurinn sem liggur undir deiliskipulaginu telst ekki þurfa sérstakrar verndar við, í skilningi b-liðar 1. mgr. 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Hins vegar felst í deiliskipulagstillögunni sk. varanleg eyðing á skógi, í skilningi 12. og 13. liða 1. mgr. 2. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019. Umrædd varanleg eyðing á skógi felst í veglagningu, bílastæðum, útskotum og aðkomu að húsum, sem og byggingu nýrra húsa. Skógræktin felst ekki á, að „áhrif [deiliskipulags]breytingarinnar á náttúrufar [séu] engin umfram það sem orðið hefði að óbreyttu deiliskipulagi [...]“, enda eru a.m.k. bygging Þ7 stækkuð og byggingu F9 bætt við. Svæðið sem um ræðir telst allt vera skógur, þó að hann sé misgisinn, og því felur deiliskipulagsbreytingin í sér eyðingu á honum þar sem við á. Áðurnefnd varanleg eyðing á skógi felur í sér að breðgast þarf við með tvennum hætti: - Annarsvegar eru það (1) mótvægisaðgerðir, sem rétt væri að tiltaka í greinagerð með deiliskipulagsbreytingunni. Um mótvægisaðgerðir fjallar í 3. mgr. 19. kr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019. Það er í höndum framkvæmdaraðila að standa fyrir mótvægisaðgerðum, og fela þær almennt í sér að komið sé upp sambærilegum skógi á sambærilega stóru svæði annarsstaðar. Skógræktinn bendir á, að umfang mótvægisaðgerða fer eftir umfangi skógareyðingar, en það umfang er ekki fyllilega ljóst af deiliskipulagstillögunni, enda ekki teiknuð inn vegútskot eða aðkoma að fyrirhuguðum byggingum. - Hinsvegar eru það (2) gögn um skógareyðingu, sem þarf að skila til Skógræktarinnar á þar til gerðu eyðublaði, Gagnaöflun um eyðingu skógar1, skv. 3. og 4. mgr. 19. gr. sömu laga. Það er afar mikilvægt að mælingar fari fram áður en framkvæmdir hefjast, enda er þetta liður í utanumhaldi Íslands um kolefnisforða, bindingu og losun skóga.
Skógræktin gerir að öðru leyti ekki athugasemdir.

Svar skipulagsnefndar
Umfang fyrirhugaðrar skógareyðingar verður kortlagt og settir inn skilmálar um mótvægisaðgerðir af völdum skógareyðingar í greinargerð deiliskipulags. Áhersla verður lögð á að takmarka eins og kostur er varanlega skógareyðingu.

Umhverfisstofnun 1
Mývatn
Í greinargerð kemur fram að tillagan gerir ráð fyrir vegi sem mun raska jarðmyndunum innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár.
Umhverfisstofnun bendir á að í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár segir að lögin eiga að tryggja verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða. Í 3. gr. laganna segir að óheimilt er að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr.Umhverfisstofnun telur að veglagnir muni hafa neikvæð áhrif á markmið verndunarinnar hvað varðar jarðmyndanir.

Svar skipulagsnefndar 1
Fyrirhuguð breyting á tengivegi við Mývatnssveitarveg er lítilsháttar í samanburði við gildandi deiliskipulag og nauðsynlegur til þess að unnt sé að aðskilja rekstur ferðaþjónustu frá íbúabyggð og tryggja öryggi og næði íbúa og gesta. Áhersla verður lögð á að lágmarka eins og mögulegt er áhrif á þær náttúruminjar sem fyrir áhrifum verða. Framkvæmdir vegna fyrirhugaðs tengivegar eru háðar nánari hönnun sem verður unnin í samráði við Vegagerðina og Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun 2
Framkvæmdir á aðliggjandi svæðum
Hluti verkefnisins sem er hér til umfjöllunar er innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár og hluti utan þess. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að í tillögunni sé fjallað um hvort framkvæmdir utan verndarsvæðisins geti á einhvern hátt haft áhrif á hið friðlýsta svæði. Í 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd segir: „Ef starfsemi eða framkvæmdir utan friðlýsts svæðis, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, geta haft áhrif á verndargildi friðlýsta svæðisins skal taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis.
Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt. Setja má skilyrði til að koma í veg fyrir skaða af starfseminni eða framkvæmdunum á hinu friðlýsta svæði.“ Að mati Umhverfisstofnunar mun rask á hrauni utan og á jaðri verndarsvæðisins hafa neikvæð áhrif á verndargildi þess. Stofnunin telur því að leita þurfi umsagnar Umhverfisstofnunar um framkvæmda- og/eða byggingarleyfið, áður en það er veitt.

Svar skipulagsnefndar 2
Bætt verður við umfjöllun í greinargerð um áhrif áforma, sem gert er ráð fyrir í deiliskipulaginu, á verndarsvæði Mývatns og Laxár og þær náttúruminjar sem verða fyrir áhrifum. Sett verða inn ákvæði um að framkvæmdir á grunni deiliskipulagsins krefjist umsagnar Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun 3
Hraun
Í greinargerð kemur fram að innan skipulagssvæðisins er hraun sem fellur undir 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og mun tillagan raska því. Umhverfisstofnun telur að tillagan muni valda óafturkræfu raski á hrauni sem mun hafa neikvæð áhrif.
Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd ber að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra, sem undir greinina falla, nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi.
Umhverfisstofnun fékk svör frá sveitarfélaginu dags. 2. febrúar 2023 að við mat á því hvaða brýna nauðsyn var til staðar sem réttlætti röskunina á hrauninu var litið til þess að landeigandi ætti ekki kost á annarri staðsetningu utan verndarsvæðis Mývatns og Laxár og að brýn nauðsyn sé að raska hrauninu til þess að samfélagið við Mývatn geti þrifist. Umhverfisstofnun vill vekja athygli á að í greinargerð með frumvarpi til laga um náttúruvernd er með orðalaginu „brýn nauðsyn“ lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir.
Umhverfisstofnun fær ekki séð hvaða brýnu almannahagsmunir réttlæti röskunina en einungis er fjallað um einkahagsmuni í svörum sveitarfélagsins og í greinargerð tillögunnar. Umhverfisstofnun bendir á að í greinargerð þarf að fjalla um hvaða mjög ríku hagsmunir og brýnu almannahagsmunir réttlæti röskun á hrauninu, en það kemur ekki fram. Auk þess bendir Umhverfisstofnun sveitarfélaginu á að til að ná markmiðum um uppbyggingu frístundabyggðar, ferðaþjónustu og þjónustuhúsa er hægt að líta til annarra svæða (annara valkosta) innan sveitarfélagsins, utan verndarsvæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og verndarsvæði sem falla undir sérlög. Með því væri hægt að ná markmiðum sveitarfélagsins um uppbyggingu frístundabyggðar og ferðaþjónustu og ná þeim markmiðum að vernda svæði sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Svar skipulagsnefndar 3
Skipulagsnefnd tekur undir sjónarmið Umhverfisstofnunar að um sé að ræða óafturkræft raski á hrauni. Skipulagsnefnd lítur til þess að framkvæmdir sem deiliskipulagsáætlunin geri ráð fyrir sé í samræmi aðra uppbyggingu sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og því sé ekki um stórfellda röskun á náttúrulegu umhverfi að ræða. Náttúra svæðisins er það sem íbúar og gestir á svæðinu sækist eftir og því þurfa að gæta vel að samspili verndar og nýtingar á svæðinu. Landeigendur Bjarkar hafa yfir takmörkuðu landrými að ráða og eiga ekki um annan kost að ræða en að raska hrauni og birkiskógi. Áformað er að fyrirhugað frístundahús verði endurskilgreint sem íbúðarhús þegar nýtt aðalskipulag tekur gildi og er því litið á framkvæmdina sem brýna þörf til þess að uppfylla skort á íbúðarhúsnæði á svæðinu sem réttlæti röskun á þeim náttúruminjum sem fyrir áhrifum verða. Fyrirhuguð breyting á tengivegi við Mývatnssveitarveg er lítilsháttar í samanburði við gildandi deiliskipulag. Ný vegtenging er nauðsynleg til þess að unnt sé að aðskilja rekstur ferðaþjónustu frá íbúabyggð. Áhersla verður lögð á að lágmarka eins og mögulegt er áhrif á þær náttúruminjar sem fyrir áhrifum verða.

Umhverfisstofnun 4
Framkvæmdaleyfi
Stofnunin bendir á að skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna allra framkvæmda sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki. Á þetta að tryggja að tekið sé til ítarlegrar skoðunar hvort framangreint skilyrði sé uppfyllt. Við mat á leyfisumsókn ber að vega saman mikilvægi náttúruminjanna sem í húfi eru og hagsmuni af fyrirhugaðri framkvæmd. Við matið skal litið til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, auk þess sem tekið skal mið af mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi, sbr. 3. og 4. mgr. 61. gr. laganna.
Ákveði leyfisveitandi að veita leyfi þrátt fyrir framangreint skal hann, með vísan í 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu. Einnig skal gera grein fyrir fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum, sem og mögulegri endurheimt náttúruverðmæta þegar það á við. Þá skal afrit af útgefnu leyfi sent Umhverfisstofnun, sbr. 6. mgr. ákvæðisins. Þess má einnig geta að leyfisveitanda er heimilt, skv. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, að binda leyfi þeim skilyrðum sem eru nauðsynleg til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun.

Svar skipulagsnefndar 4
Framkvæmdir á grunni deiliskipulagsins eru háðar byggingar- eða framkvæmdaleyfi eftir atvikum. Í greinargerð verður bætt við skilmála um mótvægisaðgerðir af völdum framkvæmda og útfærsla mótvægisaðgerða skuli fylgja umsóknum um byggingar- og/eða framkvæmdaleyfi. Í greinargerð verður bætt við skilmála um að framkvæmdir séu háðar umsögn Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun 5
Leyfisveitingar
Líkt og kemur fram í greinargerð er svæðið verndað samkvæmt lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Nánar er mælt fyrir um verndun Mývatns og Laxár í reglugerð nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Í 2. mgr. 3. gr. laganna og 3. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar segir: „Leita skal leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geta áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. Þó skulu heimilar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um er að ræða.“ Umhverfisstofnun veitir hér með umsögn um skipulagstillöguna, en bendir á að með umsögninni hefur stofnunin ekki fallist á skipulagsáætlunina í framangreindum skilningi. Leita skal því leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmd og hvers konar starfsemi á verndarsvæðinu sem getur haft áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag svæðisins, sbr. 3. gr. laga nr. 97/2004 og 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012.
Umhverfisstofnun telur mikilvægt að stofnunin fái teikningu með afmörkun á byggingargrunni frístundarhússins (F9). Þar sem húsið liggur við mörk friðlýsta svæðisins bendir stofnunin á að mannvirkjagerð og jarðrask allt er bannað án leyfis Umhverfisstofnunar. Sjái framkvæmdaraðili fram á að grunnurinn fari inn á friðlandið þá þarf leyfi Umhverfisstofnunar.

Svar skipulagsnefndar 5
Við framkvæmdir á grunni deiliskipulagsins mun fylgja beiðni um umsögn til Umhverfisstofnunar eða beiðni um leyfisveitingu eftir atvikum. Við útgáfu byggingarleyfis mun afmörkun og afstaða af fyrirhuguðu frístundahúsi verða sent Umhverfisstofnun til umsagnar.

Vegagerðin
Samkvæmt tillögu er vegur um svæðið 3,5-5,5 m breiður. Ekki er mælt með því að vegur sé mjórri en 4 m breiður. Ef vilji er til þess að vegurinn verði tekinn inn á vegaskrá síðar þarf hann að vera amk 4 m breiður og gerður í samráði við Vegagerðina. Tenging við Mývatnssveitarveg (848) þarf að vera hönnuð í samráði við Vegagerðina. Samkvæmt vegalögum nr. 80/2007 má ekki gera tengingar við þjóðvegi án samþykkis vegagerðarinnar. Leyfi Vegagerðarinnar þarf fyrir öllum framkvæmdum og mannvirkjum innan veghelgunarsvæðis. Á það við þótt mannvirki eða framkvæmd séu í samræmi við samþykkt skipulag. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013, grein 5.3.2.5 lið d, má ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m. Nýir byggingarreitir F9 og Þ7 eru innan við 100 m frá Mývatnssveitarvegi sem er tengivegur. Göngu- og hjólastígur liggur austan við Mývatnssveitarveg og þverar því tengingu inn á skipulagssvæðið. Taka þarf tillit til þess við hönnun tengingar. Einnig er bent á að lagfæra þarf legu stígs á uppdrætti þótt hann sé utan skipulagssvæðis.

Svar skipulagsnefndar
Nánari hönnun á tengivegi við Mývatnssveitarveg verður útfærð í samráði við Vegagerðina. Lagfæring verður gerð á uppdrætti í samræmi við legu göngu- og hjólastígs.

Minjastofnun Íslands
Fornleifaskráning hefur verið unnin á skipulagssvæðinu (Birna Lárusdóttir o.fl. 2000. Fornleifaskráning í Skútustaðahreppi IV. Fornleifar við norðan- og austanvert Mývatn, milli Grímsstaða og Kálfastrandar auk afréttarlanda. Fornleifastofnun Íslands, FS118-96014). Engar skráðar minjar eru á ofangreindum skipulagsreit.
Fornleifaskráningin gefur góða mynd af minjum á svæðinu en uppfyllir ekki staðla um fornleifaskráningu. Vegna snjóalaga er vettvangskönnun minjavarðar ekki möguleg á þessu stigi. Minjastofnun samþykkir skipulagið með þeim fyrirvara að minjavörður taki svæðið út áður en framkvæmdir hefjast og að byggingarleyfi verið ekki gefið út fyrr en að lokinni vettvangskönnun minjavarðar.
Rétt er að vekja athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 en þar segir: „Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.

Svar skipulagsnefndar
Ekki verða gefnar út heimildir til framkvæmda fyrr en umsögn minjavarðar liggur fyrir.

Skipulagsnefnd samþykkir breytingu á deiliskipulagi Voga 1 með breytingum í samræmi við umræður á fundinum. Skipulagsfulltrúa er falið að sjá um gildistöku deiliskipulagsins í samræmi við 42 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Samþykkt

     

6.

Þeistareykir - deiliskipulag - 2002013

 

Tekin fyrir valkostagreining starfshóps um deiliskipulag áningarstaðar við Þeistareyki.

 

Lagt fram

     

7.

Fyrirspurn frá Verndarfélagi Svartár og Suðurár - 2302011

 

Tekin fyrir fyrirspurn dags. 16. janúar 2023 frá Verndarfélagi Svartár og Suðurár um virkjunaráform í Svartá.

 

Skipulagsnefnd hefur hvorki borist né tekið fyrir erindi frá SSB orku ehf frá því að nefndin tók til starfa.
Sveitarfélaginu hefur borist beiðni frá SSB orku og landeigendum um að Svartárvirkjun verði sett inn í nýtt aðalskipulag Þingeyjarsveitar sem nú er í vinnslu.

 

Samþykkt

     

8.

Deiliskipulag Reykjahlíðarþorps - Lóðir 10 og 12 - 2302015

 

Drög lögð fram til kynningar, hugmynd að breytingu á deiliskipulagi lóða 10 og 12 í Reykjahlíðarþorpi dags. 13. febrúar 2023 frá Yngva Ragnari.

 

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að taka upp samtal við framkvæmdaaðila um útfærslu lóða og lóðaskilmála.

 

Samþykkt

     

Fundi slitið kl. 12:00.