29. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 2022-2026

29.06.2023

29. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 2022-2026

haldinn Í Þinghúsinu Breiðumýri fimmtudaginn 29. júní kl. 13:00

Fundarmenn

Gerður Sigtryggsdóttir
Knútur Emil Jónasson
Halldór Þorlákur Sigurðsson
Jóna Björg Hlöðversdóttir,
Árni Pétur Hilmarsson
Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir
Eyþór Kári Ingólfsson
Arnór Benónýsson var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Úlla Árdal, Haraldur Bóasson 

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir

Fundargerð ritaði: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir

1.

Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2023 - 2304036

 

Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2022 ásamt endurskoðunarskýrslu lagður fram til fyrri umræðu. Þorsteinn Þorsteinsson frá KPMG, endurskoðandi sveitarfélagsins, mætti til fundarins og fór yfir reikninginn. Einnig sátu fundinn undir þessum lið Jón Ari Stefánsson og Gísli Sigurðsson skrifstofustjóri.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins í A og B hluta var neikvæð um sem nam 46,3 mkr og rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð sem nam 18,4 mkr. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2022 með viðaukum var gert ráð fyrir 56,3 mkr rekstrarafgangi í A og B hluta. Niðurstaðan er því 102,5 mkr óhagstæðari en áætlað var en hagstæðari um 35,8 mkr heldur en niðurstaða ársins 2021 sem var neikvæð um 81,2 mkr.

Samanlagðar rekstrartekjur í A og B hluta á árinu námu 2.370 mkr en þar af námu rekstrartekjur A hluta 2.056 mkr. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir 2022 með viðaukum var gert ráð fyrir rekstrartekjum sem næmu 2.173 mkr í A og B hluta. Rekstrartekjur eru því 197 mkr hærri en áætlun gerði ráð fyrir eða sem nemur 9,1%.

Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður, námu samtals 2.199 mkr á árinu. Þar af eru laun og launatengd gjöld 1.363 mkr og annar rekstrarkostnaður er 836 mkr.
Fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir rekstrargjöldum sem næmu 1.951 mkr. Þar af laun og launatengd gjöld 1.197 mkr og önnur rekstrargjöld áætluð 754,3 mkr.

Laun og launatengd gjöld ársins eru því 166 mkr hærri en áætlun gerði ráð fyrir og annar rekstrarkostnaður nemur 836 mkr sem er 82 mkr hærra en áætlun gerði ráð fyrir.

Samkvæmt sjóðsstreymisyfirliti samstæðu á árinu 2022 nam veltufé frá rekstri 141 mkr á móti 57,1 mkr árið 2021 og handbært fé frá rekstri var 117 mkr á móti 37,4 mkr árið 2021. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 203 mkr á árinu.

Eigið fé í árslok nam 802,4 mkr fyrir A og B hluta samanborið við 818,6 mkr árið áður.

Eiginfjárhlutfall nemur 30,6% í árslok. Sama hlutfall í lok árs 2021 var 38,6% í Skútustaðahreppi og 34,3% hjá Þingeyjarsveit eldri.
Skuldaviðmið skv. reglugerð um fjármál sveitarfélaga er 50,8% í árslok en var 49,3% í árslok 2021.

Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 81,2% í A og B hluta í árslok 2022 en var 51,3% í Þingeyjarsveit eldri í árslok 2021 og 101% í Skútustaðahreppi.

 

Rekstrarniðurstaða ársins 2022 var 102,5 mkr verri en sameinaðar fjárhagsáætlanir gömlu sveitarfélaganna gerðu ráð fyrir en hagstæðari um 35,8 mkr heldur en niðurstaða ársins 2021 en hún var neikvæð um 81,2 mkr sem verður að teljast ásættanlegt á fyrsta rekstrarári nýs sveitarfélags.
Fjárfestingar urðu heldur lægri en gert var ráð fyrir vegna manneklu og óvissu í efnahagslegu tilliti.


Á árinu innleiddi sveitarfélagið reglugerðabreytingu 230/2021 á 20. gr. reglugerðar nr. 1212/2015, vegna reikningshaldslegrar meðferðar á samstarfsverkefnum sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélagsins. Sveitarfélagið færir nú hlutdeild í einstökum liðum rekstrar og efnahags Dvalarheimilis aldraðra sf. í B hluta. Eignarhlutdeild Þingeyjarsveitar í Dvalarheimili aldraðra sf. er um 30%. Helstu áhrif vegna þessa á árinu 2022 er að tekjur hækka um 223 mkr, rekstrargjöld um 230 mkr og fjármagnsliðir um 6 mkr. Áhrif á rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins eru því neikvæð um 13 mkr. Ekki var áætlað fyrir áhrifum Dvalarheimils aldraðra sf. í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2022. Áhrif á eignir eru að þær hækka um 144 mkr, eigið fé lækkar um 38 mkr og skuldir hækka um 183 mkr.

Helstu frávik frá fjárhagsáætlun í A-hluta eru eftirfarandi:
Málaflokkur félagsþjónustu fór 46,4 mkr fram úr áætlun. Meginástæða þess er vegna málefna fatlaðs fólks en einnig fór félagsþjónusta lítilsháttar fram úr áætlun. Bárust tveir bakreikningar vegna málefna fatlaðs fólks að upphæð 78,7 mkr. Seinni hluta árs var gerður viðauki við fjárhagsáætlun upp á 38 mkr vegna fyrri reiknings sem var fyrir árið 2021. Í upphafi árs 2022 barst seinni bakreikningur vegna ársins 2022 upp á kr. 40,7 mkr.
Málaflokkur skipulags- og byggingamála var um 15 mkr undir því sem áætlað var. Málaflokkur umhverfismála fór 16 mkr fram úr áætlun, skýrist það að mestu vegna innri leigu af Kálfaströnd sem ekki var áætlað fyrir.
Málaflokkur atvinnumála fór um 13 mkr fram úr áætlun. Sameiginlegur kostnaður fór 44 mkr fram úr áætlun.
Niðurstaða annarra málaflokka var innan skekkjumarka og rekstrarniðurstaða aðalsjóðs var neikvæð um 18,4 mkr en árið 2021 var niðurstaðan neikvæð um 98,2 mkr.
Rekstur eignasjóðs var jákvæður um 3,9 mkr.

Samtals nam neikvæð rekstrarniðurstaða A og B hluta sveitarfélagsins 46,3 mkr á móti neikvæðri rekstrarniðurstöðu um 81,2 árið 2021.

Rekstur sveitarfélagsins er heldur betri en samanlagður rekstur beggja sveitarfélaga á árinu 2021. Þar skiptir mestu máli hækkun á veltufé frá rekstri sem jókst um 84 mkr milli ára. Reksturinn er og verður krefjandi þar sem rekstrarumhverfið er afar óhagfellt vegna hárrar verðbólgu og vaxtastigs.

Sveitarstjórn undirstrikar mikilvægi þess að áfram verði farið að með gát í rekstri sveitarfélagsins þar sem áskoranir eru fjölmargar og mikilvægar og kostnaðarsamar framkvæmdir framundan. Forgangsröðun í fjármálum er því nauðsynleg til að tryggja áfram getu sveitarfélagsins til að halda uppi lögboðinni þjónustu.


Sveitarstjórn þakkar starfsfólki sveitarfélagsins fyrir þrautseigju og vel unnin störf við erfiðar aðstæður í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna tveggja. Einnig er endurskoðendum þakkað fyrir vel unnin störf við uppgjörsvinnu fyrsta ársreiknings Þingeyjarsveitar hinnar nýju.

Sveitarstjórn þakkar Þorsteini Þorsteinssyni greinargóða yfirferð og vísar ársreikningi Þingeyjarsveitar fyrir árið 2022 til seinni umræðu í sveitarstjórn.

 

Samþykkt

 

   

Fundi slitið kl. 13:30.