185. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

11.02.2016

185. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

Fundargerð
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar
11.02.2016


185. fundur
sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar
haldinn í Kjarna fimmtudaginn 11. febrúar kl. 13:00 


Fundinn sátu:
Arnór Benónýsson, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Árni Pétur Hilmarsson, Heiða Guðmundsdóttir, Nanna Þórhallsdóttir í forföllum Margrétar Bjarnadóttur, Ragnar Bjarnason og Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.

Að auki sat fundinn Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

 

Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta á dagskrá undir 4. lið; Tímabundið tækifærisleyfi til skemmtanahalds – Tónkvíslin. Aðrir liðir færast neðar á dagskrána sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

  1. Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 04.02.2016
  2. Málefni Leigufélags Hvamms ehf.
  3. Endurnýjun á rekstrarleyfi – Kiðagil ehf.
  4. Tækifærisleyfi til skemmtanahalds – Tónkvíslin  
  5. Erindi frá Fosshóli ehf.
  6. Erindi frá Skipulagsstofnun
  7. Einbýlishús á Hafralæk
  8. Ljósleiðaravæðing – staða mála 

1. Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 04.02.2016

Lögð fram fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 4. febrúar s.l. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í 6 liðum.

1. liður fundargerðar; Norðausturvegur um Skjálfandafljót.

Sveitarstjórn samþykkir að Skipulags- og umhverfisnefnd hefji vinnu við breytingar á aðalskipulagi þar sem valkostir Vegagerðarinnar verði teknir til nánari umfjöllunar.

2.liður fundargerðar; Vaglaskógur, deiliskipulag.

Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagið svo breytt og felur skipulags- og byggingarfulltrúa málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins eins og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

3. liður fundargerðar; Illugastaðir, aðal- og deiliskipulag.

Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagið svo breytt og tillögu að breytingu á aðalskipulagi og felur skipulags- og byggingarfulltrúa málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins og breytingar á aðalskipulagi eins og skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um.

4. liður fundargerðar; Miðhvammur í Aðaldal, deiliskipulag.

Sveitarstjórn samþykkir að heimila umsækjanda að vinna tillögu að deiliskipulagi á sinn kostnað skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að leita umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi eins og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.  

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.   

2. Málefni Leigufélags Hvamms ehf.

Oddviti gerði grein fyrir viðvarandi taprekstri hjá Leigufélagi Hvamms á liðnum árum og miðað við fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2016 verður áfram tap á rekstri þess. Þess er óskað að eigendur félagsins lýsi því yfir skriflega að þeir muni styðja við félagið a.m.k. út yfirstandandi rekstrarár og þar með leggja grunn að forsendum reiknisskila félagsins sem miðast við áframhaldandi rekstur.

Sveitarstjórn lýsir því hér með yfir að þeir muni styðja við Leigufélag Hvamms ehf. út yfirstandandi rekstrarár 2016.

3. Endurnýjun á rekstrarleyfi – Kiðagil ehf.

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 5. febrúar s.l. þar sem Magnús Skarphéðinsson sækir um, sem forsvarsmaður fyrir Kiðagil ehf., endurnýjun á rekstrarleyfi til sölu gistingar og veitingu veitinga í Kiðagili í Bárðardal í Þingeyjarsveit. 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við endurnýjun rekstrarleyfis fyrir sitt leyti. 

4. Tímabundið tækifærisleyfi til skemmtanahalds – Tónkvíslin

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 10. febrúar s.l. þar sem Sigurbjörn Árni Arngrímsson sækir um fyrir Framhaldsskólann á Laugum, tækifærisleyfi til að halda árlega söngvakeppni, Tónkvíslin – söngvakeppni FL í íþróttahúsi Framhaldsskólans á Laugum, laugardaginn 27. febrúar nk. Frá kl. 19:00-23:59.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við tímabundna tækifærisleyfið fyrir sitt leyti. 

5. Erindi frá Fosshóli ehf.

Fyrir fundinum liggur erindi frá Gesti Helgasyni f.h. Fosshóls ehf. dags. 3. febrúar s.l. þar sem hann tilkynnir lokun á almenningsklósettum á Fosshóli til frambúðar. Gestur segir að það sé m.a. gert þar sem standi til að byggja upp 12-20 vel útbúin salerni við verslunina á staðnum. Með vorinu stendur til að bora eftir köldu vatni í landi Fosshóls fyrir þessi salerni og

aðra starfsemi á staðnum en vegna síaukinnar notkunar hefur vatnsleysi verið til baga á staðnum. Af því tilefni er sveitarfélaginu boðið að tryggja sér vatn til framtíðarnota gegn 1/3

þátttöku í kostnaði, þó að hámarki ein m.kr. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir 1. júní n.k.

Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í kostnaði að hámarki ein m.kr. og að með samningi verði sveitarfélaginu tryggður aðgangur að köldu vatni á staðnum. Sveitarstjórn samþykkir eina m.kr.  sem viðauka við fjárhagsáætlun 2016 sem mætt verði með handbæru fé. Sveitarstjóra falið að ganga frá fyrrgreindum samningi.

6. Erindi frá Skipulagsstofnun

Lagt fram erindi frá Ottó B. Óskarssyni f.h. Skipulagsstofnunar dags. 4. desember s.l. Skipulagsstofnun hefur til meðferðar tillögu fyrirtækis að matsáætlun vegna Sprengisandslínu.

Stofnunin hefur verið að fara yfir þær athugasemdir sem bárust við tillögunni. Í þeim athugasemdum, sem eru samhljóða, auk annarra athugasemda hefur verið vikið að mögulegu sameiginlegu umhverfismati línunnar og annarra framkvæmda sem eru fyrirhugaðar af hálfu Landsnets.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd séu fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar séu háðar hver annarri geti Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur  ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.

Með vísan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er óskað eftir afstöðu Þingeyjarsveitar til þess hvort framangreind lagaskilyrði 2. mgr. 5. gr. matslaganna séu uppfyllt þannig að stofnunin geti tekið ákvörðun um hvort að ráðast þurfi í sameiginlegt umhverfismat Sprengisandslínu og framangreindra framkvæmda eða ekki.

Sveitarstjórn samþykkti eftirfarandi bókun með sex atkvæðum, Ragnar Bjarnason sat hjá:

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar telur að styrking raforkuflutningskerfis á Norðausturlandi með bættum raforkuflutningi milli Blöndu og Kárahnjúkavirkjunar sé forgangsatriði fyrir landshlutann og að brýnt sé að ráðast verði í þá framkvæmd óháð því hvort og þá hvenær ráðist verði í fyrir hugaðra Sprengisandslínu. Sveitarstjórn telur að Sprengisandslína sé fyrst og fremst ætluð til styrkingar á byggðalínunni og því sé um aðskildar framkvæmdir að ræða sem ekki eru háðar sameiginlegu umhverfismati.

7. Einbýlishús á Hafralæk

Sala á einbýlishúsi sveitarfélagsins á Hafralæk (svokallað Bobshús) tekin fyrir. Sveitarstjóri gerði grein fyrir kauptilboði sem borist hefur í eignina.

Sveitarstjóra falið að ganga frá sölunni samkvæmt fyrirliggjandi kauptilboði og umræðum á  fundinum. Árni Pétur Hilmarsson vék af fundi vegna vanhæfis.

8. Ljósleiðaravæðing – staða mála

Umræðum framhaldið um fyrirhugaða ljósleiðaravæðingu í sveitarfélaginu. Árni Pétur gerði grein fyrir vinnufundi starfshópsins um ljósleiðaravæðingu.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:00