Fundargerð
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022
03.03.2016
186. fundur
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022
Fundargerð
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar
03.03.2016
186. fundur
sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar
haldinn í Kjarna fimmtudaginn 3. mars kl. 13:00
Fundinn sátu:
Arnór Benónýsson, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Heiða Guðmundsdóttir, Ragnar Bjarnason og Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.
Að auki sat fundinn Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fund.
Dagskrá:
1. Viðtalstímar kjörinna fulltrúa
Tekið til umræðu viðtalstímar kjörinna fulltrúa og eftirfarandi tillaga lögð fram:
„Viðtalstímar kjörinna fulltrúa verða tveir fram að sumarfríi. Fyrri viðtalstíminn verður 31. mars í Stórutjarnaskóla og seinni viðtalstíminn verður 14. apríl í Þingeyjarskóla. Viðtalstímar verða frá kl. 20:00 til 21:30. Viðtalstímar oddvita verða mánaðarlega víðsvegar um sveitarfélagið og auglýstir hverju sinni. Sveitarstjóra falið að auglýsa viðtalstímana.“
Samþykkt samhljóða.
2. Erindi frá Landgræðslu ríkisins
Fyrir fundinum liggur beiðni frá Daða L. Friðrikssyni, f.h. Landgræðslu ríkisins, dags. 19. febrúar s.l. um að setja upp beitarrannsóknarreiti á Þeistareykjasvæðinu. Hluti af þessum rannsóknum verður gerður með því að setja upp rannsóknarreiti hér á landi sem verða verndaðir fyrir beit og bera þróun gróðurs og annarra þátta vistkerfa í þessum reitum saman við land utan reita þar sem beit er óheft.
Samþykkt að vísa erindinu til umræðu í landbótahópi Þeistareykjalands.
3. Samningar við skólabílstjóra
Samningar við skólabílstjóra í Þingeyjarsveit vegna skólaaksturs voru teknir til umræðu. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi sem hann og oddviti áttu með skólabílstjórum þann 16. og 19. febrúar sl. um möguleika á framlengingu núverandi samninga. Samningarnir eru með uppsagnarákvæði, eru uppsegjanlegir af beggja hálfu fyrir 31. maí ár hvert.
Sveitarstjórn samþykkir að framlengja gildandi samninga við skólabílstjóra vegna skólaaksturs til næstu þriggja ára og stefna að útboði að samningstíma loknum. Sveitarstjóra falið að ganga frá framlengingu samninga við skólabílstjóra.
4. Aðaldalsflugvöllur
Lagt fram bréf frá Herði Guðmundssyni, forstjóra Flugfélagsins Ernis, dags. 4. febrúar sl. er varðar mjókkun flugbrautar Aðaldalsflugvallar úr 45 metra breidd í 30 metra breidd.
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tekur undir bókun sveitarstjórnar Norðurþings frá 16. febrúar s.l. og áréttar við alla þá aðila sem bera ábyrgð á flugi til og frá Aðaldalsflugvelli að tryggja hámarksöryggi flugfarþega sem um völlinn fara og að búnaður sé sem bestur svo tryggja megi flug um völlinn til framtíðar.
5. Ljósleiðaravæðing – útboð
Fyrirhuguð ljósleiðaravæðing í sveitarfélaginu tekin til umræðu. Fyrir liggur ákvörðun sveitarstjórnar um lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu og útboð á verkinu. Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn samþykkir að bjóða út lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu og tryggja þar með öruggt og samhæft netsamband allra íbúa til framtíðar. Framkvæmdir hefjast í sumar með áætluð verklok í síðasta lagi í lok árs 2018. Um er að ræða alútboð með tvo möguleika:
A: Tilboðsgjafi hannar og leggur ljósleiðarakerfi, sveitarfélagið kostar, á og rekur kerfið.
B: Tilboðsgjafi hannar og leggur ljósleiðarakerfi, tilboðsgjafi á og rekur kerfið og tekur þátt í stofnkostnaði í samvinnu við sveitarfélagið.
Magnús Hauksson verkfræðingur verður sveitarfélaginu til ráðgjafar varðandi gerð útboðsgagna, útboðs- og verklýsingu. Ríkiskaup munu sjá um auglýsingu útboðsins, yfirferð og mat á tilboðum í samvinnu við sveitarfélagið. Framkvæmdin er boðin út með fyrirvara um fjármögnun.
Fulltrúar A lista lögðu fram eftirfarandi rökstuðning með tillögunni:
Tillaga meiri hluta sveitarstjórnar um það hvernig staðið verði að útboðinu er gerð að vandlega athuguðu máli þar sem ótal möguleikar hafa komi til álita og athugunar. Hún byggir m. a. á niðurstöðum og ráðleggingum sérfræðinga sem hafa mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði. Markmið sveitarstjórnar er að koma á samhæfðu og vönduðu ljósleiðarakerfi til íbúa sveitarfélagsins sem uppfyllir kröfur starfshóps á vegum innanríkisráðherra „Ísland ljóstengt“ sem veita mun styrk til framkvæmdarinnar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Fulltrúar T lista lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu:
„Lagt er til að í útboðinu verði væntanlegum bjóðendum gefinn kostur á því að bjóða í lagningu ljósleiðara, svæðaskipt í sveitarfélaginu þar sem um væri að ræða austursvæði og vestursvæði með grunnskiptingu um Fljótsheiði.“
Við teljum að þessi tilhögun auki líkurnar verulega á hagstæðum tilboðum.
Oddviti bar breytingartillöguna upp til atkvæða.
Breytingartillagan felld með fimm atkvæðum fulltrúa A lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa T lista.
Oddviti bar tillögu sína upp til atkvæða.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Til kynningar:
a) Fundargerð 277. fundar stjórnar Eyþings
b) Fundargerð Eyþings, SSA og þingmanna kjördæmisins frá 09.02.2016
c) Fundargerð fulltrúaráðs Eyþings frá 28.02.2016
d) Fundargerð SSKS frá 19.02.2016
e) Fundargerð 180. fundar HNE
f) Landbótaáætlun fyrir Vesturafrétt Bárðdæla 2016-2025
g) Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:01