Fundargerð
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022
12.01.2017
207. fundur
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022
haldinn í Kjarna fimmtudaginn 12. janúar kl. 13:00
Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Árni Pétur Hilmarsson
Ragnar Bjarnason
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Heiða Guðmundsdóttir boðaði forföll á síðustu stundu
Dagbjört Jónasdóttir, sveitarstjóri
Oddviti setti fund.
Dagskrá:
1. Bændur græða landið – styrkbeiðni
Tekið fyrir erindi frá Daða L. Friðrikssyni f.h. Landgræðslu ríkisins, dags. 28. desember s.l. þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr. 330 þús. vegna samstarfsverkefnisins „Bændur græða landið“ og annarra verkefna í Þingeyjarsveit á árinu 2016.
Sveitarstjórn samþykkir erindið og styrk að fjárhæð kr. 330 þús. til verkefnisins en útgjöld rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2016. Margrét Bjarnadóttir tók ekki þátt í afgreiðslu undir þessum lið vegna vanhæfis.
2. Ferðanefnd Félags eldriborgara í Þingeyjarsveit – styrkbeiðni
Tekið fyrir erindi frá Óla Antonssyni f.h. ferðanefndar Félags eldriborgara í Þingeyjarsveit, dags. 6. janúar s.l. þar sem óskað er eftir styrk vegna árlegrar ferðar félagsins.
Sveitarstjórn samþykkir styrk að fjárhæð kr. 600 þús. til ferðanefndarinnar en útgjöld rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2017.
3. Endurnýjun og viðbót við rekstrarleyfi – Einishús ehf.
Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 4. janúar s.l. þar sem Einir Viðar Björnsson sækir um f.h. Einishús ehf. endurnýjun og viðbót við rekstrarleyfi, eitt sumarhús við fyrra leyfi og verða húsin þá alls sex að Einarsstöðum 2. í Þingeyjarsveit.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi fyrir sitt leyti.
4. Ákvörðun Kjararáðs um hækkun þingfararkaups
Ákvörðun Kjararáðs um hækkun þingfararkaups tekin til umræðu öðru sinni, fyrri umræða fór fram á fundi sveitarstjórnar þann 17. nóvember sl. Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
Greiðslur fyrir setu í sveitarstjórn og í nefndum á vegum sveitarfélagsins verði áfram hlutfall af þingfararkaupi en í ljósi þeirra hækkana sem orðið hafa á þingfararkaupi samþykkir sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að lækka núverandi hlutfall fyrir setu í sveitarstjórn úr 10% í 8% og greiðslur til oddvita úr 15% í 12%, samsvarandi breyting verði á greiðslum fyrir nefndastörf og fundasetu á vegum sveitarfélagsins. Við þessa breytingu munu þessar greiðslur hækka að meðaltali um 15,47% í stað 44% hækkunar.
Samþykkt með fimm atkvæðum, Ragnar Bjarnason sat hjá.
5. Ljósleiðaratenging í Þingeyjarsveit 2017
Framkvæmdir og áætlun ljósleiðaralagningar á árinu 2017 tekin til umræðu. Oddviti gerði grein fyrir fundi sem hann og sveitarstjóri áttu með fulltrúum framkvæmdaaðila, Tengir hf. þann 22. desember s.l. Samkvæmt samningi við Tengir hf. eru verklok framkvæmda við ljósleiðarann í árslok 2018. Á fundinum voru aðilar sammál um að sameina verkáfanga tvö og þrjú í einn og ljúka honum á árinu 2017.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn samþykkir í samræmi við niðurstöðu fundarins að ljúka lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu á árinu 2017 og sækja um styrk til Fjarskiptasjóðs „Ísland ljóstengt 2017“ fyrir þær rúmlega hundrað tengingar sem eftir eru.
Samþykkt með fjórum atkvæðum. Margrét Bjarnadóttir vék af fundi vegna vanhæfis og Ragnar Bjarnason sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun:
Til að taka upplýstar ákvarðanir þurfa að liggja fyrir upplýsingar tímanlega svo hægt sé að kynna sér málin til hlítar. Svo var ekki í þessu máli og því sit ég hjá við afgreiðslu þessarar tillögu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:35