Fundargerð
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022
26.01.2017
208. fundur
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022
haldinn í Kjarna fimmtudaginn 26. janúar kl. 13:00
Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Árni Pétur Hilmarsson
Heiða Guðmundsdóttir
Ragnar Bjarnason
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri
Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta á dagskrá undir 4. lið; Sameiginleg barnaverndarnefnd – tillaga framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga bs. (HNÞ).
Samþykkt samhljóða.
Dagskrá:
1. Reglur um sérstakan húsnæðisstuðning í Þingeyjarsveit
Samkvæmt nýsamþykktum lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016 og breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, lagði sveitarstjóri fram drög að nýjum reglum um sérstakan húsnæðisstuðning í Þingeyjarsveit.
Sveitarstjórn vísar drögunum til Félags- og menningarmálanefndar til frekari umfjöllunar.
2. Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 23.01.2017
Lögð fram fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 23. janúar s.l. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í sex liðum.
1. liður fundargerðar; Ófeigsstaðir og Rangá, umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku.
Sveitarstjórn samþykkir umsóknina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa málsmeðferð vegna útgáfu framkvæmdaleyfisins eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.
2. liður fundargerðar; Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar, skipulags- og matslýsing.
Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni og leggur áherslu á að við endurskoðun Aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar verði haft samráð við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þar sem hagsmunir sveitarfélaganna skarast á sveitarfélagsmörkum. Má þar nefna málaflokka eins og útivist og ferðaþjónustu, t.d. göngu-, hjóla- og reiðleiðir og umferð vélknúinna farartækja og hugsanlegan miðhálendisþjóðgarð sem næði yfir landsvæði í báðum sveitarfélögunum.
3. liður fundargerðar; Lerkiholt í Reykjadal, umsókn um landskipti.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við landskiptin og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna þeirra eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.
Sveitarstjórn staðfestir fundargerðin að öðru leyti. Ragnar Bjarnason tók ekki þátt við afgreiðslu 6 liðar fundargerðar vegna vanhæfis.
3. Ljósleiðaratenging í Þingeyjarsveit 2017
Framkvæmdir og áætlun ljósleiðaralagningar á árinu 2017 tekin til umræðu öðru sinni. Farið yfir umsóknarferli Ísland ljóstengt 2017 sem nú stendur yfir og skiptist í A og B hluta. A hlutinn er nokkurskonar forval og er þeim hluta lokið en Þingeyjarsveit sótti um og uppfyllir kröfur um gögn vegna þess hluta. B hlutinn er skil á eiginlegum styrkbeiðnum sem nú fer í hönd og er umsóknarfrestur til 1. febrúar n.k. Sveitarstjóri vinnur áfram að umsókn í samræmi við bókun sveitarstjórnar frá fundi þann 12. janúar s.l. og nú í B hlutann.
4. Sameiginleg barnaverndarnefnd – tillaga framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga bs. (HNÞ)
Á fundi fulltrúaráðs HNÞ þann 18. nóvember sl. var samþykkt samhljóða tillaga frá framkvæmdastjórn HNÞ um skipan sameiginlegrar barnaverndarnefndar aðildarsveitarfélaganna. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að fulltrúaráð HNÞ skipi sameiginlega barnaverndarnefnd, Barnaverndarnefnd Þingeyinga, fyrir stafssvæði sitt skv. tilnefningum frá sveitarfélögunum á grundvelli 3. mgr. 10. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Óskað er eftir formlegri afgreiðslu aðildarsveitarfélaganna á tillögunni svo unnt sé að vinna málið áfram, m.a. að leita staðfestingar ráðuneytisins á þessari skipan.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu á tillögunni og felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir til framkvæmdastjórnar HNÞ í samræmi við umræður á fundinum.
Til kynningar:
a) Fundargerð 1. fundar framkvæmdastjórnar HNÞ
b) Fundargerð 2. fundar fulltrúaráðs HNÞ
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:30