301. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

24.06.2021

301. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Seiglu fimmtudaginn 24. júní kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Í upphafi fundar óskaði oddviti eftir að bæta einu máli á dagskrá með afbrigðum undir 6. lið; 1905026 - Fjósatunga; deiliskipulag og aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

1.

Undirbúningsstjórn nýs sveitarfélags - 2106013

 

Þann 5. júní sl. samþykktu íbúar sveitarfélaganna Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps sameiningu sveitarfélaganna og eru því skilyrði fyrir frjálsri sameiningu sveitarfélaga á grundvelli 120. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 uppfyllt. Samkvæmt 122. gr. sveitarstjórnarlaga skulu sveitarstjórnir beggja sveitarfélags skipa undirbúningsstjórn sem undirbýr stofnun nýs sveitarfélags.

Undirbúningsstjórn starfar á grundvelli sveitarstjórnarlaga og hefur það hlutverk að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar, yfirfara reglur og samþykktir og undirbúa sameiningarferlið þannig að sveitarstjórnarráðuneytið geti staðfest að sameiningin sé nægilega vel undirbúin. Undirbúningsstjórnin mun líka gera tillögu að verklagi um val á nafni og merki fyrir sveitarfélagið og hefja innleiðingu nauðsynlegra breytinga í samstarfi við starfsfólk sveitarfélaganna.

Áætlað er að kosið verði til nýrrar sveitarstjórnar í almennum sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, 2022. Fram að þeim tíma starfa sveitarfélögin tvö eins og verið hefur.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skipa Arnór Benónýsson, Árna Pétur Hilmarsson og Jónu Björgu Hlöðversdóttur sem fulltrúa Þingeyjarsveitar í undirbúningsstjórn vegna stofnunar nýs sveitarfélags og Margréti Bjarnadóttur, Ásvald Ævar Þormóðsson og Sigríði Hlyn Snæbjörnsson til vara. Sveitarstjóri verður starfsmaður undirbúningsstjórnar.

 

   

2.

Viljayfirlýsing um stofnun rannsóknaseturs í sameinuðu sveitarfélagi - 2106039

 

Lögð fram drög að viljayfirlýsing um stofnun rannsóknaseturs. Að viljayfirlýsingunni standa Háskóli Íslands, Svartárkot - menning, náttúra ses., Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit sem lýsa yfir vilja til að vinna í sameiningu að stofnun rannsóknaseturs í sameinuðu sveitarfélagi.

 

Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að vinna með Háskóla Íslands, Svartárkoti-menning, náttúra og Skútustaðahreppi að framgangi viljayfirlýsingarinnar í samráði við aðra hagaðila þekkingarsamfélagsins í sameinuðu sveitarfélagi.

 

   

3.

Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs - 2106035

 

Teknar til umræðu hugmyndir að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs innan hluta þjóðlendna í Þingeyjarsveit og tillögu að skipan starfshóps til að vinna að framgangi málsins.

 

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir viðræðum við umhverfisráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson, um mögulega stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs innan hluta þjóðlendna í Þingeyjarsveit og skipun starfshóps því tengt. Sveitarstjórn samþykkir að skipa sveitarstjóra, Dagbjörtu Jónsdóttur í væntanlegan starfshóp um verkefnið.

 

   

4.

Umhverfisstefna Þingeyjarsveitar - 1806015

 

Lögð fram lokadrög að umhverfisstefnu Þingeyjarsveitar öðru sinni.

Hlutverk sveitarfélaga í umhverfismálum er margþætt. Sveitarfélög sinna ýmiskonar grunnþjónustu sem varða umhverfismál auk þess sem þau sjá um skipulag sem segir til um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis. Hlutverk sveitarfélaga eru m.a. loftslagsmál, úrgangsmál, heilbrigðiseftirlit, náttúruvernd o.fl.

Þingeyjarsveit stefnir að því að vera leiðandi og góð fyrirmynd í umhverfismálum og stuðla að hvetjandi aðgerðum fyrir íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið stefnir að því að hafa frumkvæði að fræðslu fyrir íbúa og fyrirtæki um umhverfismál.

 

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi lokadrög að umhverfisstefnu Þingeyjarsveitar og að hefja undirbúning aðgerðaráætlunar að loknu sumarfríi. Umhverfisstefnan verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum.

 

   

5.

Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerðir - 1804018

 

Lögð fram fundargerð 138. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 16.06.2021. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fimmtán liðum.

 

6. liður fundargerðar: Dæli - umsókn um lóðastofnun - 2106018
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.
Margrét Bjarnadóttir tók ekki þátt í afgreiðslu þessa liðar.

7. liður fundargerðar: Sandhaugar - stofnun lóðar og landskipti - 2106019
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna þeirra eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.


Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.

 

   

6.

Fjósatunga - deiliskipulag - 1905026

 

Tekið fyrir að nýju erindi frá Ómari Ívarssyni dags. 17.05.2019 f.h. SS byggir þar sem óskað var eftir heimild til að nýta ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að hefja vinnu við deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal. Um er að ræða 61,2 ha svæði sem er í gildandi aðalskipulagi skilgreint sem frístundabyggð.

Þann 4. júní 2019 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að auglýsa skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðs deiliskipulags. Skipulagslýsing var kynnt fyrir umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi þar sem þeim var gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar sem að gagni gætu komið við gerð deiliskipulagsins og var athugasemdafrestur frá 2. júlí til og með 23. júlí. Þann 25. júní 2020 samþykkti sveitarstjórn gildistöku skipulagsins en sökum þess að tafir urðu við framgang skipulagsáætlunarinnar og gildistöku hafðist ekki að auglýsa skipulagið innan tilskilins tímaramma skv. 2. mgr. 42. gr skipulagslaga og því þarf að auglýsa tillöguna að nýju.

 

Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu frístundabyggð að nýju í samræmi við 41. gr skipulagslaga 123/2010.

 

   

7.

Vatnajökulsþjóðgarður (VJÞ); Stjórnunar- og verndaráætlun VJÞ, umsagnarferli - 2106004

 

Á grundvelli 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð (VJÞ) nr. 60/2007 er auglýst eftir umsögnum um breytingatillögu að Stjórnunar- og verndaráætlun VJÞ, 3. útgáfu. Umsagnarferli er opið til og með 9. ágúst n.k.

 

Varðandi kafla 9.8 Veitur og fjarskipti í drögunum að 3. útgáfu áætlunar, leggur sveitarstjórn áherslu á að orðalag sé skýrt þannig að ljóst sé að ekki sé gengið á ákvörðunarvald sveitarfélaga. Einnig þarf að skýra betur, í sama kafla undir smávirkjanir, hvaða aðili sker úr um hvort framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki, hvort það sé sveitarfélags eða þjóðgarðsins. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 eru vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl að 200 kW tilkynningarskyldar til sveitarfélags sem metur hvort hún skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

 

   

8.

Fundur með landeigendum að Skjálfandafljóti - 2106038

 

Fyrirhugaður fundur með landeigendum við Skjálfandafljót tekinn til umræðu. Markmið fundarins er að kalla fram sjónarmið og vilja landeigenda varðandi einstaka nýtingar- og/eða friðunarkosti. Þannig geti fundurinn nýst sem innlegg í vinnu sveitarfélagsins við stefnumótun og skipulagsgerð.

 

Sveitarstjórn samþykkir að fundurinn verði haldinn fimmtudaginn 19. ágúst nk. og verður öllum eigendum lands sem liggur að Skjálfandafljóti sent fundarboð.

 

   

9.

Náttúrustofa Norðausturlands: Ósk um rannsóknaleyfi á Þeistareykjum - 2106032

 

Fyrir fundinum liggur erindi frá Aðalsteini Erni Snæþórssyni, forstöðumanni Náttúrustofu Norðausturlands þar sem hann óskar eftir rannsóknaleyfi á Þeistareykjum.
Náttúrustofa Norðausturlands tekur þátt í verkefninu "Vöktun Náttúruverndarsvæða" þar sem markmiðið er að vakta álag á náttúru af völdum ferðamanna á náttúruverndarsvæðum og öðrum vinsælum ferðamannastöðum. Erindið er til sveitarfélagsins sem landeiganda að Þeistareykjum.

 

Sveitarstjórn samþykkir erindið.

 

   

10.

Vestmannsvatn Guesthouse: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2106033

 

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 15.06.2021 þar sem Guðmundur Ágúst Jónsson, sækir um rekstrarleyfi, flokkur IV-C - Minna gistiheimili, við Vestmannsvatn í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

 

   

11.

Ferðaþjónustan Langavatni: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2106034

 

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 16.06.2021 þar sem Anna Gunnarsdóttir, sækir um rekstrarleyfi, flokkur IV-B - Stærra gistiheimili, á Langavatni í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

 

   

12.

Tónlistarskólinn á Akureyri - umsókn um hljóðfæranám - 1908026

 

Tekið fyrir erindi frá Tónlistarskólanum á Akureyri dags. 6.06.2021 þar sem óskað er eftir að lögheimilissveitarfélag greiði kostnað vegna tónlistarnáms tveggja nemenda á grundvelli samkomulags sem ríki og sveitarfélög undirrituðu árið 2011 um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðu nemenda.

 

Sveitarstjórn samþykkir erindið sem fellur undir 1. gr. auk 7. greinar reglna um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðu nemenda frá árinu 2011.

 

   

13.

Aðalfundarboð Dvalarheimilis aldraðra sf. - 1906025

 

Lagt fram aðalfundarboð Dvalarheimilis aldraðar sf. sem haldinn var þriðjudaginn 22. júní 2021 í húsnæði félagsins. Sveitarstjórn samþykkti í tölvupósti milli funda að sveitarstjóri færi með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

 

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðsluna.

 

   

14.

Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerðir - 1804023

 

Fundargerð 13. fundar fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

Fundi slitið kl. 14:35.