Atvinnustarfsemi

Formáli

Starfsumhverfi breytist stöðugt og í nútímasamfélagi breytist það og þróast hraðar en áður. Starfsumhverfi getur breyst skyndilega eins og glögglega kom í ljós bæði í COVID-19 heimsfaraldrinum og eldgosinu í Eyjafjallajökli. Stjórnendur fyrirtækja standa því frammi fyrir margskonar áskorunum en áskoranir og breytingar bjóða upp á ný tækifæri. Síaukin krafa er um að fyrirtæki hugi betur að umhverfismálum um leið og sífellt fleiri viðskiptavinir horfa á þessa þætti þegar velja skal á milli vöru og þjónustu. Ýmis atvinnustarfsemi er í Þingeyjarsveit og verður þessum kafla skipt í þrennt: Ferðaþjónustu, landbúnað og aðra atvinnustarfsemi.

 

Hlutverk

Ætlun sveitarfélagsins er að umhverfisstefnan verði höfð að leiðarljósi í starfsemi fyrirtækja og að hún verði verkfæri til jákvæðrar ímyndarsköpunar og markaðssóknar á íslenskum og erlendum mörkuðum fyrir framleiðslu og starfsemi á svæðinu. Sveitarfélagið hvetur fyrirtæki til að innleiða skipulagt umhverfisstarf, setja sér markmið og áætlun. Slík innri stefna getur leitt af sér margskonar ávinning fyrir utan góð áhrif á umhverfið og bætta ímynd s.s. bætta nýtingu, sparnað og ánægðara starfsfólk.

 

 

Ferðaþjónusta

Forsendur

Ferðaþjónusta hefur farið vaxandi ár frá ári og er orðinn mikilvægur liður í atvinnusköpun og atvinnuframboði fyrir fólk á sumrin en einnig á ársgrundvelli. Auk þess er ferðaþjónusta orðin mikilvægur hluti tekna margra heimila þar sem íbúarnir sinna henni meðfram annarri vinnu. Ferðaþjónustan getur lagt lóð sitt á vogarskálarnar og unnið markvisst að bættum umhverfismálum. Fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar eru hvött til að nýta sér fræðsluefni sem stuðlar að umhverfisvænni starfsemi og vinna eftir þeim umhverfisstefnum sem greinin setur sér. Eins er mikilvægt að þau fyrirtæki sem nýta sér náttúruna og auðlindir hennar hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

 

 

Landbúnaður

Forsendur

Landbúnaður byggir á nýtingu náttúruauðlinda. Það er skylda þeirra sem nýta náttúruna hverju sinni að ganga ekki á auðlindir hennar þannig að það rýri nýtingarmöguleika komandi kynslóða.

Landbúnaður er ekki lengur algengasta atvinnustarfsemin í Þingeyjarsveit en hún er yfirgripsmest hvað varðar landrými og landnýtingu. Því er mikilvægt að bændur hugi að umhverfismálum og miði aðgerðir á búunum að loftslagsvænni landbúnaði. Þingeyjarsveit vill leggja áherslu á sjálfbæran landbúnað. Grunnurinn að sjálfbærum landbúnaði er sjálfbær landnýting. Huga þarf vel að ástandi þess lands sem notað er og auka þekkingu á ólíkum svæðum landsins sem notað er undir landbúnað, t.d. beitilandi. Í verkefninu GróLind er verið að meta og vakta gróður- og jarðvegsauðlindir Íslands, þróa sjálfbærnivísa og kortlagningu landnýtingar. Niðurstöðum verkefnisins er ætlað að leggja grunn að sjálfbærri landnýtingu, betri skipulagningu og þar af leiðandi auknu virði afurða. Þetta verkefni verður verkfæri til að afla upplýsinga sem hægt er að nýta til ákvarðanatöku og meta ástand vistkerfa og breytingar á því.

Þingeyjarsveit leggur áherslu á að samspil landbúnaðar, líffræðilegrar fjölbreytni og náttúruverndar leiði til þess að í héraði verð stundaður öflugur og sem sjálfbærastur landbúnaður. Þróa þarf hringrásarhagkerfi sem m.a. bætir nýtingu búfjáráburðar og úrgangs og eflir innlenda fóðuröflun.

 

 

Önnur atvinnustarfsemi

Forsendur

Önnur atvinnustarfsemi fyrir utan ferðaþjónustu og landbúnað er ekki umfangsmikil í sveitarfélaginu en er samt sem áður nokkuð ólík. Má til að mynda nefna snyrtistofu, mörbræðslu, fiskhausaþurrkun og byggingarfyrirtæki. Í fámennu sveitarfélagi er hvert fyrirtæki mikilvægt og eykur fjölbreytni í atvinnulífi og mannauði. Fyrirtæki eru hvött til að bera virðingu fyrir landi og umhverfinu og sýna ábyrgð í umhverfismálum. Mikilvægt er að þau fyrirtæki sem nýta sér auðlindir náttúrunnar hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

 

 

 

Markmið sem tengjast þessum kafla

1 Að Þingeyjarsveit verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040

2 Að Þingeyjarsveit vinni áfram að því að bæta sorpmál

3 Að Þingeyjarsveit hvetji til vistvænni ferðamáta

4 Að auka nýsköpun innan svæðisins með sjálfbærni í fyrirrúmi (NÍN)

5 Að lögð verði áhersla á hringrásarhagkerfi

6 Að landnýting í sveitarfélaginu sé ábyrg og sjálfbær

7 Að auka fræðslu um umhverfismál og lýðheilsu ásamt því að gera fræðsluefni aðgengilegt fyrir íbúa

8 Að hvetja íbúa og fyrirtæki til umhverfisvænni og heilsusamlegri lífsstíls

9 Að umhverfisstefna verði höfð að leiðarljósi við ákvörðunartöku sveitarfélagsins

 

Leiðir

Markmið 1

Að Þingeyjarsveit verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040.

Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Vinna að því að fá fleiri hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla í sveitarfélagið.
  • Hvetja einstaklinga og fyrirtæki til að skoða orkunotkun sína og hvort hægt sé að breyta á einhvern hátt til umhverfisvænni leiða.
  • Hvetja fyrirtæki til að fylgjast vel með framþróun og þeim leiðum sem hægt er að nýta sér til að minnka kolefnisspor þeirra.
  • Hvetja fyrirtæki til að setja sér umhverfisstefnu með tímasettum og mælanlegum markmiðum.
  • Hvetja fyrirtæki til að huga að umhverfisvænni orkunotkun.
  • Hvetja fyrirtæki til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti.
  • Hvetja til að minni aksturs, samnýta ferðir og sinna fleiri en einu erindi í einu.
  • Hvetja fyrirtæki til að kolefnisjafna starfsemi sína.

 

Markmið 2

Að Þingeyjarsveit vinni áfram að því að bæta sorpmál.

Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Finna lausn fyrir lífrænan úrgang frá heimilum og fyrirtækjum.
  • Finna stað fyrir óvirkan úrgang fyrir íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins.
  • Hvetja og fræða fyrirtæki um hvað megi bæta og hvernig hægt sé að vinna að úrbótum.
  • Hvetja fyrirtæki til að flokka sorp og kynna fyrir gestum sínum hvernig skal flokka
  • Samvinna við landbúnaðarfyrirtæki um hvað megi bæta og hvernig hægt væri að vinna í sameiningu að úrbótum.
  • Sveitarfélagið hvetji fyrirtæki til endurnýtingar og endurvinnslu eins og hægt er.
  • Sveitarfélagið hvetji fyrirtæki til að draga úr notkun plasts og óumhverfisvænna umbúða .
  • Huga að mengun vegna frárennslis og útskolunar næringarefna.

 

Markmið 3

Að Þingeyjarsveit hvetji til vistvænni ferðamáta.

Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Vinna að því að fá fleiri hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla í sveitarfélagið.
  • Kortleggja og merkja stíga og slóða sem hægt er að nota til göngu og hjólreiða.
  • Hvetja til að minni aksturs, samnýta ferðir og sinna fleiri en einu erindi í einu

 

Markmið 4

Að auka nýsköpun innan svæðisins með sjálfbærni í fyrirrúmi.

Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Útbúa síðu á heimasíðu sveitarfélagsins sem inniheldur upplýsingar og tengla um sjálfbærni og nýsköpun í ferðaþjónustu, landbúnaði og annarri atvinnustarfsemi.
  • Hvetja ferðaþjónustufyrirtæki til að bjóða upp á vistvænar eða umhverfismerktar vörur.
  • Hvetja ferðaþjónustufyrirtæki til að kaupa vörur framleiddar í heimabyggð.

 

Markmið 5

Að lögð verði áhersla á hringrásarhagkerfi.

Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Hvetja íbúa og fyrirtæki til að endurnýta eða endurvinna í stað þess að farga.
  • Sveitarfélagið hvetji fyrirtæki til að kaupa staðbundnar vörur og hráefni.

 

 

Markmið 6

Að landnýting í sveitarfélaginu sé ábyrg og sjálfbær.

Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Skilgreina þörf á verndun og uppbyggingu landsvæða.
  • Greina og forgangsraða þeim svæðum sem eru undir mestu álagi.
  • Skilgreina svæði með tilliti til mögulegrar landnýtingu (landbúnaðarland, skógræktarsvæði, landgræðslusvæði o.s.frv.).
  • Styðja skógrækt á þeim svæðum þar sem hún hentar.
  • Flokka landbúnaðarland - Það landbúnaðarland sem flokkað er sem mjög gott landbúnaðarland verði ekki tekið undir annað.
  • Styðja að endurheimt votlendis þar sem það á við.
  • Forðast að skerða votlendi, birkiskóga og önnur mikilvæg vistkerfi.
  • Sjá til að farið sé eftir gildandi áætlunum um beitarstýringu.
  • Unnið að uppgræðslu á eyddum og rofskemmdum svæðum.
  • Gera áætlun um að halda ágengum tegundum plantna og dýra í skefjum.
  • Móta stefnu sveitarfélagsins um malarnám og efnistöku.
  • Bæta áburðarnotkun, tilbúinn áburð og búfjáráburð.

 

 

Markmið 7

Að auka fræðslu um umhverfismál og lýðheilsu, ásamt því að gera fræðsluefni aðgengilegt fyrir íbúa. Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Útbúa síðu á heimasíðu sveitarfélagsins sem inniheldur upplýsingar og tengla sem fjalla um umhverfismál og náttúruvernd.
  • Hvetja ferðaþjónustuaðila til að veita gestum sínum upplýsingar um íslenska náttúru og þær umgengnisreglur sem hafðar eru að leiðarljósi s.s. að halda sig innan stíga þar sem það á við og reglur um utanvegaakstur.
  • Hvetja bændur til að kynna sér og vinna eftir umhverfisstefnu landbúnaðarins sem sett hefur verið fyrir greinina af hálfu Bændasamtaka Íslands.

 

Markmið 8

Að hvetja íbúa og fyrirtæki til umhverfisvænni og heilsusamlegri lífsstíls.

Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Útbúa síðu á heimasíðu sveitarfélagsins sem inniheldur upplýsingar og tengla á síður sem fjalla um umhverfismál.
  • Hvetja til notkunar umhverfisvænna hreinsiefna.
  • Hvetja til minni notkunar einnota umbúða og hluta.
  • Að hvetja íbúa og fyrirtæki til umhverfisvænni og heilsusamlegri lífsstíls
  • Lífræn framleiðsla?
  • Hvetja bændur til að halda bújörðum sínum hreinum snyrtilegum.
  • Hvetja fyrirtæki til að halda lóðum sínum og nærumhverfi hreinu og snyrtilegu.
  • Hvetja íbúa til að taka virkan þátt í umhverfisverkefnum og umhverfisstarfi í Þingeyjarsveit.

 

Markmið 9

Að umhverfisstefna verði höfð að leiðarljósi við ákvörðunartöku sveitarfélagsins.

Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Umhverfisstefnan verði höfð að leiðarljósi við afgreiðslu erinda frá fyrirtækjum í sveitarfélaginu.
  • Þingeyjarsveit hvetji fyrirtæki til að fylgjast með og tileinka sér stefnu sveitarfélagsins í umhverfismálum.