Inngangur

Haustið 2019 skipaði sveitarstjórn Þingeyjarsveitar nefnd sem vinna skyldi umhverfisstefnu fyrir sveitarfélagið en engin slík stefna var til. Vinna við stefnuna fór þó ekki af stað fyrr en haustið 2020. Í nefndinni sitja Einar Örn Kristjánsson sem leiðir nefndina, Nanna Þórhallsdóttir og Sigurlína Tryggvadóttir. Helga Sveinbjörnsdóttir er starfsmaður nefndarinnar.

Nefndin skoðaði stöðu umhverfismála í sveitarfélaginu. Horft var á samninga, stefnur og annað opinbert efni sem sveitarfélaginu er gert að vinna eftir og einnig stefnur sem sveitarfélagið hefur áhuga á að hafa til fyrirmyndar. Unnið er að endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins sem gildir til 2022. Vinna við umhverfisstefnu og endurskoðun aðalskipulags eru unnar samhliða og falla því vel hvor að annarri.

Leiðarljós umhverfisstefnunnar eru almenns eðlis og lýsa heildarmarkmiði stefnunnar. Markmiðin eru nánari skilgreiningar í átt að leiðarljósum hennar.

Samhliða vinnu umhverfisstefnunnar verður gerð aðgerðaáætlun. Hún verður uppfærð tvisvar á ári og inniheldur vörður, tímasettar og mælanlegar, sem eru skref í áttina að markmiðum sem sett eru fram í stefnunni.

 

Leiðarljós

 

  • Að sveitarfélagið Þingeyjarsveit verði til fyrirmyndar í umhverfismálum og hafi sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi í starfi sínu
  • Að umhverfisstefnan og framkvæmd hennar verði fastur liður í starfi sveitarfélagsins
  • Að Þingeyjarsveit verði aðlaðandi búsetukostur, framsækið, vistvænt og heilsueflandi samfélag
  • Að auka umhverfisvitund og umhverfisábyrgð einstaklinga og fyrirtækja í sveitarfélaginu

 

 

Stefna og hlutverk sveitarfélagsins

Hlutverk sveitarfélaga í umhverfismálum er margþætt. Sveitarfélög sinna ýmiskonar grunnþjónustu sem varða umhverfismál auk þess sem þau sjá um skipulag sem segir til um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis. Hlutverk sveitarfélaga eru m.a. loftslagsmál, úrgangsmál, heilbrigðiseftirlit, náttúruvernd o.fl. Þingeyjarsveit stefnir að því að vera leiðandi og góð fyrirmynd í umhverfismálum og stuðla að hvetjandi aðgerðum fyrir íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið stefnir að því að hafa frumkvæði að fræðslu fyrir íbúa og fyrirtæki um umhverfismál.

Forsendur

Í Þingeyjarsveit búa tæplega 900 íbúar. Sveitarfélagið er víðfeðmt og dreifbýlt, þar er stundaður landbúnaður og ferðaþjónusta ásamt annarri atvinnustarfsemi. Tveir grunnskólar með þrjár leikskóladeildir eru í sveitarfélaginu sem og framhaldsskóli.

Umhverfismál í Þingeyjarsveit skipa stærri sess með hverju árinu sem líður. Sorphirðukerfi og gámavöllur eru til fyrirmyndar. Orka, bæði hiti og rafmagn, er unnin úr endurnýjanlegum orkuauðlindum.

Hingað til hefur ekki verið unnið á markvissan og samfelldan hátt að framförum og úrbótum í umhverfistengdum málum, en með þessari stefnu og aðgerðaráætlun samhliða henni verður það gert.

Aðgerðaáætlun sem stefnunni fylgir verður með tímasettum og mælanlegum vörðum og ábyrgðaraðila fyrir hvert verkefni. Aðgerðaáætlun er mikilvægt verkfæri til að framfylgja umhverfisstefnunni og þeim umhverfismálum sem sveitarstjórn vill vinna að á hverjum tíma. Hún er lifandi skjal þar sem verkefni eru tekin út þegar þeim er lokið og öðrum bætt við eftir þörfum.
Skipulags- og umhverfisnefnd mun taka aðgerðaáætlunina fyrir að lágmarki tvisvar á ári til að fylgjast með framvindu mála og uppfæra áætlunina eftir því sem við á.

 

Markmið

Í umhverfisstefnunni er lagt upp með eftirfarandi markmið. Í hverjum kafla er nánar útlistað hvernig ætlunin er að framfylgja þeim markmiðum sem eiga við hverju sinni.

 

1 Að Þingeyjarsveit verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040

2 Að Þingeyjarsveit vinni áfram að bætingu og þróun sorpmála

3 Að Þingeyjarsveit hvetji til vistvænni ferðamáta

4 Að auka nýsköpun innan svæðisins með sjálfbærni í fyrirrúmi

5 Að lögð verði áhersla á hringrásarhagkerfi

6 Að landnýting í sveitarfélaginu sé ábyrg og sjálfbær

7 Að auka fræðslu um umhverfismál og lýðheilsu ásamt því að gera fræðsluefni aðgengilegt fyrir íbúa

8 Að hvetja íbúa og fyrirtæki til umhverfisvænni og heilsusamlegri lífsstíls

9 Að umhverfisstefnan verði höfð að leiðarljósi við ákvörðunartöku sveitarfélagsins

10 Að aðgerðaáætlun umhverfisstefnunnar verði uppfærð tvisvar á ári