Kæru íbúar.
Árið 2021 er gengið í garð og nú horfum við björtum augum fram á við. Bólusetning vegna COVID er hafin og von um betri tíð. Eins og fram hefur komið hjá stjórnvöldum er unnið að því að tryggja öllum bólusetningu á komandi ári. Þrátt fyrir að nú sé farið að sjá fyrir endann á þessum faraldri er þetta ekki búið og mikilvægt að við höldum áfram þeim sóttvörnum sem við höfum tileinkað okkur.
Sameiningarviðræður, Nýsköpun í norðri og endurskoðun aðalskipulags
Ýmis verkefni eru framundan á nýju ári hjá sveitarfélaginu. Eitt af því helsta er undirbúningur að tillögu um sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps en sú vinna fer nú af stað af fullum krafti. Vegna COVID þá hægðum við aðeins á ferli þeirrar vinnu og nú er stefnt á kosningar um sameiningu þann 5. júní n.k. Undirbúningur íbúafunda er í gangi en á þeim fundum verður farið yfir vinnu starfshópa um mat á styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum og ykkur íbúum gefið tækifæri á að koma ykkar sjónarmiðum á framfæri.
Tækifærin eru fjölmörg í okkar sveitarfélagi en til þess að þau geti nýst okkur á jákvæðan og uppbyggilega hátt þarf að grípa þau. Þess vegna komum við verkefninu Nýsköpun í norðri (NÍN) á laggirnar og munum áfram leggja áherslu á það verkefni. Mikil vinna hefur nú þegar átt sér stað í NÍN sem hefur m.a. nýst okkur vel í tengslum við stefnumótun og framtíðarsýn í tillögu um sameiningu sveitarfélaganna og þar hefur samstarf okkar sýnt styrk sinn í verki.
Ég hvet ykkur til þess að skoða vefinn https://www.thingeyingur.is/ og fylgjast með þessum verkefnum, bæði undirbúningi að tillögu um sameiningu og verkefnin í NÍN.
Áfram verður unnið að endurskoðun aðalskipulags Þingeyjarsveitar en lokið var við vinnu skipulags- og matslýsingar á síðasta ári. Aðalskipulagið er mikilvægt stefnuplagg sveitarstjórnar þar sem framtíðarsýn sveitarfélagsins er sett fram. Miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu um áherslur í skipulagsmálum. Loftslag, landslag og lýðheilsa eru málefni sem nú þarf að móta nánari stefnu um við framkvæmd skipulagsmála og eru þættir sem við munum flétta inn í alla stefnumótum við endurskoðun aðalskipulags okkar.
Ykkar þátttaka skiptir miklu máli í þessum stóru og mikilvægu verkefnum sem framundan eru, þannig getum við saman byggt það samfélag sem við frekast viljum.
Önnur verkefni
Ýmis önnur verkefni eru framundan, bæði ný verkefni og önnur sem við lögðum grunninn að á síðasta ári.
Bygging leiguíbúða við Stórutjarnaskóla eru vel á veg komnar og reiknað er með að þær verði auglýstar til leigu nú í byrjum mars og teknar í notkun nú á vormánuðum. Markmið þessa verkefnis sem Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar hses. standa fyrir er að mæta eftirspurn eftir leiguhúsnæði sem vonandi leiðir af sér fjölgun íbúa í sveitarfélaginu.
Varðandi samgöngur þá er það mikið fagnaðarefni að nú hefur snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands komið á formlegri snjóflóðavöktun í Ljósavatnsskarði en búið er að koma fyrir sérstökum snjóflóðamæli á staðnum. Einnig er búið að gera samning milli snjóflóðavaktarinnar og Vegagerðarinnar sem snýr að tilkynningum og aðgerðum þegar við á. Eflaust hafa glöggir íbúar tekið eftir, nú síðast þegar gerði töluverða ofankomu, tilkynningu á vefnum http://www.vegagerdin.is/ um óvissustig vegna snjóflóðahættu í Ljósavatnsskarði og þríhyrningi með upphrópunarmerki. Þetta er nýtt og kemur til vegna vöktunar Veðurstofunnar og er ákveðin viðvörun þó ekki sé búið að loka veginum. Ef til þess kemur tilkynnir snjóflóðavaktin það til Vegagerðarinnar sem sér um að framkvæma lokun.
Þá er líka ánægjulegt að segja frá því að bygging nýrrar brúar yfir Skjálfandafljót við Fosshól hefst á þessu ári en það var ein að þeim framkvæmdum sem samgönguráðherra flýtti vegna COVID. Um er að ræða tvöfalda brú og mikla samgöngubót hvað umferðaröryggi varðar og því ber að fagna.
Við fengum styrk úr Orkusjóði til uppsetningar á hleðslustöðvum við stofnanir í sveitarfélaginu. Um er að ræða sameiginlegt verkefni Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps á vegum NÍN sem ráðist verður í á næstu mánuðum. Verkefnið fellur að aðgerðum í loftslagsmálum samkvæmt heimsmarkmiðunum þar sem um er að ræða uppbyggingu innviða fyrir rafbíla með skipulögðum hætti.
Annað sem ber að nefna er að SBA tók við akstri Strætó, leið 79 Húsavík-Akureyri þann 1. janúar s.l. eftir útboð Vegagerðarinnar í haust. Í kjölfarið var leið nr. 79 breytt, nú ekur Strætó frá Húsavík til Akureyrar í gegnum Kaldakinn og þar með hafa tvær stoppistöðvar verið felldar út, á Laugum og Fosshóli. Þessi ákvörðun var gerð án nokkurs samráðs við okkur sem við teljum óásættanlegt. Þessi breyting skerðir verulega þjónustu við íbúa hér á okkar svæði sem og við Framhaldsskólann á Laugum en hann er nú eini framhaldskólinn á svæðinu sem er utan leiðakerfis Strætó. Vegagerðin sér um framkvæmd almenningssamganga í samstarfi við Strætó. Ég hef verið í sambandi við fulltrúa Vegagerðarinnar, Strætó og SBA og hef óskað eftir rökstuðningi og að þessi ákvörðun verði endurskoðuð. Sjáum til hverju fram vindur.
Það er margt krefjandi og spennandi framundan á nýju ári sem ég vona að verði okkur farsælt. Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir liðnar stundir.
Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.