Í mínu minni......
Loga ljós í glugga
litlu geislarnir skína.
Líta á langa skugga
leika við félaga sína.
Spennan í loftinu eykst, dagarnir styttast og jólin nálgast óðfluga. Eftirvænting í loftinu, sér í lagi hjá yngri kynslóðinni – jólasveinar, jólagjafir, jólamatur og dýrmætar samverustundir með fjölskyldu og vinum, hefðum og siðum. Í aðdraganda jólahátíðarinnar hefur mér oftar en ekki verið hugsað til barnæskunnar þar sem undirbúningur jólanna var talsvert öðruvísi en í dag. Rólega og friðsæla jólastemmingin hefur breyst úr einfaldleika sínum og hófsemi. Hraði, kröfur og áreiti skyggja á boðskapinn og barnslega gleði og hið margumrædda jólastress er fóðrað sem aldrei fyrr.
Undirbúningurinn einkenndist af nægjusemi. Jólafötin voru heimasaumuð, oftar en ekki voru nýtt gömul föt til að sauma upp hversdagsföt, en í jólafötin voru keypt ný efni. Jólabaksturinn var í nóvember og baukarnir innsiglaðir svo við laumuðumst ekki í þá áður en jólahátíðin gengi í garð. Ávextir voru ekki á borðum daglega og minningin um epla og appelsínukassana sem keyptir voru í kaupfélaginu yljar og lyktin sem fylgdi þeim er ógleymanleg – með þeim kom jólalyktin. Á þorláksmessu voru útiseríurnar hengdar upp og um kvöldið var jólatréð skreytt. Á aðfangadag var beðið eftir barnadagskrá sjónvarpsins og svo var biðin frá því að útsendingu lauk og þar til jólin voru hringd inn oft fjarskalega löng.
Spennan í loftinu var síst minni þá en er í dag, en spennan var öðruvísi og biðin eftir jólunum líka.
Gleði í augum, góðleg andlit.
Yl í hjarta, allt ég finn.
Ljúf í mínu minni merlar jólagleði,
sækir á í sinni.
Aðfangadagskvöld, klukkur Dómkirkjunnar hringja jólin inn, gleðin og spennan, góður matur, uppvask og pakkar. Ekki brást að í einhverjum pökkum voru bækur og sérstök tilhlökkun var að skríða upp í rúm með bók og konfekt og lesa langt fram á nótt.
Jólin bera með sér þá töfra sem felast í einfaldleikanum – að tengjast öðrum, að vera til staðar fyrir þá sem við elskum, að skapa minningar sem verða okkur dýrmætar. Jólin eru einnig áminning um það sem við höfum og það sem við viljum varðveita og það sem skiptir máli
Töfrandi tónar,
tímanna seiður,
fjölskyldu faðmur,
friðarins jól.
Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri.