Vel heppnaðir íbúafundir

Frá íbúafundi í Stórutjarnaskóla
Frá íbúafundi í Stórutjarnaskóla

Umhverfisnefnd hélt í vikunni fjóra íbúafundi um meðhöndlun á lífrænum úrgangi. Nefndin kynnti þar vinnu sína undanfarna mánuði og fór yfir hugmyndir og tækifæri þegar kemur að meðhöndlun lífræns úrgangs. Þessi vinna er nauðsynleg vegna breytinga á lögum um meðhöndlun á úrgangi.  Með nýjum lögum er óheimilt að urða lífrænan úrgang með öðru sorpi.

Þar sem sorphringur sveitarfélagsins er um 1.100 km þykir sá kostur að sækja lífrænan úrgang á öll heimili ekki vera fýsilegur með t.t. kostnaðar og umhverfisáhrifa. Nefndin hefur því verið að skoða aðrar leiðir, þá sérstaklega moltugerð. Gerð var tilraun með jarðgerðarvél á fjórum heimilum í sveitarfélaginu. Í stuttu máli gekk tilraunin framar vonum og er jarðgerðarvélin því talinn álitlegur valmöguleiki ásamt öðrum jarðgerðar kostum s.s. moltutunnu og Bookashi.

Á fundunum var almennur samhugur um að lítil skynsemi væri í því að sækja lífrænan úrgang á hvert heimili. Þá var kynningu á jarðgerðarvél sem möguleika frekar vel tekið. Umræður fundanna voru mjög gagnlegar fyrir áframhaldandi vinnu og ákvörðunartöku um málið. Nefndin mun taka það faranesti sem þessir fundir veittu henni og nýta til að finna skynsamlega leið við meðhöndlun á lífrænum úrgangi.

Nefndin vill koma á framfæri þökkum til allra sem mættu á fundina og tóku þátt í umræðum um þetta mikilvæga mál.