Nýtt hús nýtt nafn

Á föstudaginn var haldið opið hús í nýju stjórnsýsluhúsi Þingeyjarsveitar á Laugum, og voru íbúar sveitarfélagsins boðnir hjartanlega velkomnir til að skoða nýju húsakynnin og taka þátt í gleðistund með starfsfólki sveitarfélagsins. Viðburðurinn tókst með eindæmum vel, og var gleðilegt að sjá góða mætingu íbúa sem nýttu tækifærið til að kynna sér húsnæðið.

Kvenfélag Reykdæla sá um kaffiveitingar og er ljóst að pönnukökurnar munu ekki gleymast í bráð, svo góðar voru þær. Tvö tónlistaratriði ómuðu um húsið, fyrst lék Ástríður Gríma Ásgrímsdóttir sem er í 6. bekk í Þingeyjarskóla lagið Poppballaða nr. 1 eftir Björgvin Þ. Valdimarsson á píanó og þá sungu þær Þórveig Björg Einarsdóttir og Hallveig Birna Jóhannsdóttir sem eru í 5. bekk í Þingeyjarskóla lagið Best í heimi.

Gerður Sigtryggsdóttir oddviti sagði nokkur orð um sögu hússins en bygging þess hófst árið 1962 og var það fyrst og fremst ætlað sem heimavist fyrir þá nemendur Barnaskóla Reykdæla sem komu lengra að, íbúðir fyrir skólastjóra og kennara ásamt mötuneyti nemenda. Hún sagði einkar ánægjulegt að nú hefðu tvær grunnskólabyggingar í sveitarfélaginu fengið nýtt hlutverk en Gígur gestastofa var einmitt eitt sinn grunnskóli. Gígja Sigurbjörnsdóttir fyrrum kennari sagði okkur einnig skemmtilega frá því þegar hún kenndi við skólann og hvernig starfið var í þá daga þegar hún kom til starfa. 

Nýtt hús nýtt nafn

Hápunktur dagsins var þegar nýtt nafn á húsið var tilkynnt enda mikil spenna fyrir því. Það bárust yfir 60 tillögur að nafni á húsið og ákvað byggðarráð að fela Dagbjörtu Jónsdóttur, Höskuldi Þráinssyni og sveitarstjóra að yfirfara tillögurnar og leggja tillögu fyrir sveitarstjórn.

„Við hittumst á Teams fundi og fórum yfir innsendar nafnatillögur og þær ræddar með tilliti til málfars, beygingareglna, skírskotunar í starfsemi hússins, menningar, sögu og því að íbúar gætu litið á nafnið sem einskonar sameiningartákn. Eftir þessa vinnu stóðu eftir tvö nöfn sem við gátum ekki gert upp á milli og vísuðum því tveim nöfnum til sveitarstjórnar sem tók þá ákvörðun að húsið hlyti nafnið Þingey. Í umsögn valnefndar kom meðal annars fram að nafnið hefur ákveðna skírskotun í sögu og menningu svæðisins og getur verið sameiningartákn nýsameinaðs sveitarfélags" sagði Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri þegar hún tilkynnti nýtt nafn á húsinu og þakkaði þeim Dagbjörtu og Höskuldi fyrir samstarfið. Nafninu var vel tekið af viðstöddum og þykir vel við hæfi.

Sjö sendu inn tillögu að nafninu Þingey, þau eru: Helga Arnheiður Erlingsdóttir, Ellert Guðni Knútsson, Sverrir Haraldsson, Karl Sigurðsson, Anna Dóra Snæbjörnsdóttir, Andrés Erlingsson og Ósk Helgadóttir. Þeim voru færðir blómvendir í þakklætisskyni. 

Stemningin var létt og vinaleg. Gestir dvöldu lengi við spjall og nutu samverustundarinnar í nýjum og glæsilegum húsakynnunum. Þingeyjarsveit þakkar öllum þeim sem mættu og gerðu daginn eftirminnilegan. Þingey mun þjóna sveitarfélaginu um ókomin ár og stuðla að bættri þjónustu við íbúa.

Hér má sjá myndir frá deginum.